Ágúst Ólafur Ágústsson aðstoðar mennta- og barnamálaráðherra
Ágúst Ólafur Ágústsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðmunds Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra.
Ágúst er menntaður lögfræðingur, hagfræðingur og stjórnsýslufræðingur með lögfræðipróf og BA-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands 2003, ásamt MPA-gráðu frá New York University 2011.
Ágúst Ólafur er fyrrverandi alþingismaður og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra. Hann kemur til ráðuneytisins frá Reykjavíkurborg þar sem hann gegndi stuttlega starfi aðstoðarmanns borgarstjóra. Þá sat hann í bankaráði Seðlabanka Íslands og gegndi meðal annars formennsku í viðskiptanefnd Alþingis, Evrópunefnd forsætisráðherra og sat í framkvæmdasjóði aldraða ásamt því að leiða stjórnskipaða „Barnanefnd“ um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum.
Hann vann sem sérfræðingur á aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í New York og hefur kennt við Háskóla Íslands ásamt því að sinna ráðgjafarstörfum, m.a. fyrir Sjúkraliðafélag Íslands, Rannsóknarsetur skapandi greina, Parkinson-samtökin og Ljósið.
Ágúst hefur störf 1. september og mun starfa ásamt Guðbjörgu Ingunni Magnúsdóttur, sem einnig er aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra.