Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Vel heppnað samstarf félagsmiðstöðva og lögreglu á Menningarnótt

Ein helsta forsenda aðgerða stjórnvalda gegn ofbeldi meðal barna og gegn börnum er þverfaglegt samstarf aðila sem koma að þessum málum. Viðvera og samtal samfélagslögreglu, starfsfólks félagsmiðstöðva þar með talið Flotans, flakkandi félagsmiðstöðvar og fleiri á Menningarnótt eru dæmi um slíkt samstarf. Þar fylgdi einn félagsráðgjafi og einn starfsmaður félagsmiðstöðvar hverjum lögregluhópi og var Flotinn – flakkandi félagsmiðstöð á vakt og samfélagslögreglan á ferðinni.

Stjórnvöld tilkynntu um 25 aðgerðir vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum fyrir ári síðan. Meðal aðgerða voru styrkveiting til Flotans – flakkandi félagsmiðstöðvar og efling samfélagslögreglu. Þar er lögð áhersla á samvinnu í vettvangsstarfi þvert á sveitarfélög víðs vegar um land. Aukinn sýnileiki og vettvangsstarf þessara aðila hefur gefið góða raun og markar nýjar áherslur í forvörnum og viðbrögðum við ofbeldi.

Þessi aukna áhersla á vettvangsstarf og sýnileika er ætlað að ná til þeirra sem erfitt er að ná til með öðrum leiðum, þeirra sem gjarnan þarf mest að ná til. Flotinn – flakkandi félagsmiðstöð er gott dæmi um vettvangsstarf þar sem þjónustan fer til barnanna frekar en öfugt. Sömuleiðis er markmið með eflingu samfélagslögreglu að auka traust á lögreglu og sýnileika í samfélaginu, leysa félagsleg vandamál og ná til barna og ungmenna í viðkvæmri stöðu í þverfaglegu svæðisbundnu samstarfi.

Unnar Þór Bjarnason verkefnisstjóri Samfélagslögreglunnar var á vettvangi og segir um samstarfið: „Þetta er að gefa góða raun og er bara ótrúlega jákvætt. Við vorum í stöðugum samskiptum og er starfsfólk félagsmiðstöðva oft með mikla innsýn. Stundum vantar okkar bara eitt púsl til að geta stigið skrefið og gripið inn í. Bæði lögregla og Flotinn voru mjög sýnileg og bárust stöðugar ábendingar, bæði milli aðila á vettvangi og ekki síður frá almenningi og boðleiðir stuttar. Þetta mun vonandi bara aukast.“

Til hliðsjónar eru m.a. SSP-líkanið í Danmörku (Skole, Sociale myndigheter og Politi), Sociala insatsgrupper (SIG) og SSPF (Skole, Socialtjeneste, Politi og Fritid) í Svíþjóð og SLT-módelið (Samordning av Lokale rus- og kriminalitetsforebyggende Tiltak) í Noregi.

Aukið samtal milli þjónustuaðila við börn í aðgerðum er í samræmi við áherslur farsældarlaganna sem miða að því að brjóta niður múra milli þjónustukerfa. Aðgerðirnar snúa einnig að því að virkja foreldra á breiðum grunni og hvetur t.d. Flotinn foreldra til að vera í beinu sambandi við sig. Þá snúa aðgerðir jafnframt að almennri vitundarvakningu og fræðslu. Rauði þráðurinn er að með samstarfi allra aðila, þjónustuaðila sem og barna og foreldra, náum við hvað mestum árangri í þágu farsældar barna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta