Fyrirkomulag helsingjaveiða 2025
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest veiðitímabil helsingja í ár. Heimilt verður að veiða helsingja á tímabilinu 1. – 15. september og er fyrirkomulaginu ætlað að halda helsingjaveiðum í lágmarki árið 2025.
Í nýlegri stöðuskýrslu Náttúruverndarstofnunar kemur fram að Austur-Grænlands-stofn helsingja, sem íslenski stofninn tilheyrir, hefur rýrnað mikið á allra síðustu árum. Árið 2024 var veiðitímabili helsingja 15 dagar í Austur-Skaftafellssýslu (10.september-25.september), en 25 dagar annars staðar á landinu. Var þessu fyrirkomulagi ætlað að halda veiðum í lágmarki, en skilaði ekki tilætluðum árangri. Alls voru 2.900 fuglar veiddir, en markmiðið var 600 fuglar.
Ráðherra hefur því fallist á tillögur Náttúruverndarstofnunar um að veiðitímabilið árið 2025 verð 15 dagar um land allt og að áfram verði sölubann á helsingja.
Með tilfærslu tímabilsins í Skaftafellssýslum til 1. september er verið að koma til móts við bændur á því svæði þar sem stærstur hluti stofnsins heldur sig. Með því að hefja veiði fyrr, á að draga úr ágangi helsingja á jarðir bænda.
Helsingi heyrir undir AEWA samninginn sem Ísland er aðili að. Ísland, ásamt Grænlandi, Írska lýðveldinu og Bretlandi bera ábyrgð á stofni helsingja sem verpir á Austur-Grænland og heldur til á Írlandi og Skotlandi yfir veturinn. Ísland er mikilvægur viðkomustaður helsingja á leið þeirra yfir hafið og hluti stofnsins er með varpstöðvar í Skaftafellssýslum.