Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2025 Heilbrigðisráðuneytið, Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Gott að eldast í Hveragerði

Frá undirrituninni í Hveragerði í dag. - mynd

Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Hveragerðisbær undirrituðu í dag samning við Ás hjúkrunarheimili um samþætta heimaþjónustu við íbúa í Hveragerði frá 1. september nk. Verkefnið er tilraunaverkefni sem byggist á Gott að eldast en það er aðgerðaáætlun stjórnvalda í þjónustu við eldra fólk. Ás mun þannig sinna heimahjúkrun og félagslegum heimastuðningi við íbúa Hveragerðisbæjar 60 ára og eldri sem sækja um og fá samþykkta slíka þjónustu. Áður hefur í Ási verið starfrækt dagdvöl ásamt því að þaðan hafa íbúar Hveragerðisbæjar sem óskað hafa eftir fengið mat sendan heim.

„Ég tel mikilvægt og gott skref stigið í dag í átt að því að tryggja samfellu milli þjónustustiga fyrir þá íbúa Hveragerðisbæjar sem þurfa stuðning með það að markmiði að geta haldið áfram að búa á eigin heimili. Með þessum samningi bind ég vonir við að hægt verði að þróa þjónustuna og betur mæta þeim fjölbreytta hópi sem nú þiggur þjónustu,“ segir Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna sem Ás er hluti af.

„Með þessum samningi erum við að sameina krafta heilbrigðis- og félagsþjónustu með það að markmiði að tryggja að íbúar fái þjónustu á réttum tíma og af réttum aðilum. Þetta er mikilvægt skref í átt að heildstæðri og einstaklingsmiðaðri þjónustu sem tekur mið af þörfum hvers og eins,“ segir Díana Óskarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og heldur áfram: „Ég tel þetta vera sterkt dæmi um hvernig samvinna getur skapað betri lífsgæði fyrir íbúa okkar. Því í grunninn viljum við öll það sama sem er að geta notið efri áranna sem best með öryggi, reisn og góðum stuðningi.“

„Öflug og metnaðarfull öldrunarþjónusta í fjölbreyttum myndum er eitt af einkennum Hveragerðisbæjar, sem við erum afar stolt af. Með þessum samningum undir verkefninu Gott að eldast erum við að taka mikilvægt framfaraskref í þjónustu, frelsi og valdeflingu fyrir íbúa 60+. Með verkefninu Gott að eldast eflum við enn frekar lífsgæði og velferð íbúa bæjarins – það er mikið fagnaðarefni og í takt við þær áherslur sem nú móta bæinn,“ segir Pétur G. Markan bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta