Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Fimm reglugerðir sem tengjast umfangsmiklum breytingum á örorku- og endurhæfingarkerfinu

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur undirritað fimm reglugerðir sem allar tengjast nýju örorku- og endurhæfingarkerfi sem tekur gildi þann 1. september nk. Nýja kerfið er einfaldara, greiðslur hækka, dregið er úr tekjutengingum og fólki gert auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði kjósi það svo. Stuðningur er aukinn við fólk í endurhæfingu og áhersla lögð á að koma í veg fyrir að fólk falli milli kerfa og endi með ótímabært örorkumat. Unnið hefur verið að reglugerðunum síðastliðna mánuði þvert á stofnanir og fagaðila.

Reglugerðirnar fimm snerta breytingarnar hver með sínum hætti. Þrjár þeirra fjalla um nýmæli sem eru sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, samþætt sérfræðimat og þjónustugátt. Ein reglugerðin fjallar um vinnumarkaðsúrræði og er ætlað að styðja fólk út á vinnumarkað. Ein fjallar síðan um heimilisuppbót og uppbætur vegna kostnaðar.

„Í nýja kerfinu leggjum við áherslu á virkni, heildstæða nálgun og raunverulegan stuðning – allt frá sjúkra- og endurhæfingargreiðslum sem tryggja afkomu fólks á erfiðum tímum yfir í samþætt sérfræðimat sem metur getu til virkni á vinnumarkaði og aðstæður fólks á heildrænan hátt. Við opnum þjónustugátt sem tengir kerfin saman og með markvissum vinnumarkaðsúrræðum hvetjum við atvinnulífið til að taka á móti fólki sem vill og getur unnið. Breytingarnar eru víðtækar og fela í sér vatnaskil í almannatryggingakerfinu á Íslandi,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Reglugerð um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur taka við af svokölluðum endurhæfingarlífeyri þegar nýja kerfið tekur gildi. Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru fyrir einstaklinga sem ekki geta unnið eða stundað nám vegna sjúkdóms, slyss eða áfalls og er ætlað að tryggja samfellu í afkomu fólks sem þarf á endurhæfingu að halda vegna langvarandi og/eða alvarlegs heilsubrests eða fötlunar.

Hægt verður að fá greiðslur á meðan einstaklingur er í viðurkenndri meðferð eða tekur virkan þátt í endurhæfingu. Fólk sem bíður eftir að endurhæfing hefjist getur nú fengið greiðslur á meðan biðtímanum stendur og einnig þangað til það telst fært um að hefja endurhæfinguna. Fólk í atvinnuleit eftir endurhæfingu getur líka fengið greiðslur.

  • Greiðslur verða mögulegar í allt að 60 mánuði en þó að hámarki í 12 mánuði í senn.
  • Einstaklingar í viðkvæmri stöðu og með fjölþættan vanda sem þurfa lengri endurhæfingu geta sótt um framlengingu í allt að 24 mánuði til viðbótar.
  • Einstaklingar skráðir í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun eftir endurhæfingu geta haldið greiðslum í 3 mánuði.

Reglugerðin setur skýran ramma um framkvæmd greiðslnanna og skilgreinir hlutverk og ábyrgð Tryggingastofnunar, þjónustuaðila og meðferðar- eða endurhæfingaraðila í þjónustukerfinu. Áhersla er lögð á gerð vandaðra og markvissra endurhæfingaráætlana sem byggja á gagnreyndri þekkingu og eru sniðnar að þörfum hvers einstaklings.

Reglugerð um samþætt sérfræðimat

Núgildandi læknisfræðilegt örorkumat var innleitt hér á landi árið 1999 og hefur staðið óbreytt síðan. Með nýju örorku- og endurhæfingarkerfi verður hætt með gamla matið og í staðinn tekið upp samþætt sérfræðimat. Í því er horft heildrænt á einstaklinginn en ekki eingöngu á heilsufar hans og áhersla lögð á að meta getu viðkomandi til virkni á vinnumarkaði og aðstæður umsækjanda.

  • Reglugerðin lýsir ferlinu og viðmiðunum við mat á getu umsækjenda um örorku- eða hlutaörorkulífeyri.
  • Tryggingastofnun skal samkvæmt reglugerðinni framkvæma einstaklingsbundið og heildrænt mat á áhrifum heilsu, fötlunar, færni og aðstæðna umsækjanda, svo sem persónulegra, félagslegra og umhverfislegra þátta, á getu hans til virkni á vinnumarkaði.

Í viðauka við reglugerðina koma fram atriði sem líta skal til við framkvæmd samþætts sérfræðimats og er lagt til í reglugerðinni að viðaukinn skuli endurskoðaður reglulega og aldrei sjaldnar en á árs fresti til að tryggja að samþætt sérfræðimat endurspegli þróun innan málaflokksins.

Reglugerð um vinnumarkaðsúrræði

Í nýja kerfinu er aukin áhersla lögð á atvinnuþátttöku þeirra sem vilja og geta tekið þátt á vinnumarkaði. Hlutaörorkulífeyrir er ætlaður þeim sem hafa getu og möguleika á að vera á vinnumarkaði (þeir sem eru metnir í samþætta sérfræðimatinu með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði).

Í reglugerð um vinnumarkaðsúrræði er meðal annars kveðið á um úrræði fyrir þá sem fá hlutaörorkulífeyri og eru í atvinnuleit. Atvinnurekendur munu þannig geta fengið styrk vegna ráðningar fólks sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri.

Styrkirnir verða miðaðir við grunnatvinnuleysisbætur í samræmi við starfshlutfall, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Þeir greiðast í allt að 12 mánuði og möguleiki er á framlengingu í allt að 6 mánuði.

  • Samkvæmt reglugerðinni halda svokallaðir vinnusamningar öryrkja sér óbreyttir og er þannig áfram gert ráð fyrir varanlegum stuðningi vegna þess hóps sem þarf á mestum stuðningi að halda (vinnusamningum öryrkja) en tímabundnum stuðningi vegna þess hóps einstaklinga sem metinn er vinnufær og finnur starf við sitt hæfi. Mikilvægt þykir að tryggja að þau úrræði sem reglugerðin mælir fyrir um skili tilætluðum árangri og verður hún því endurskoðuð að ári liðnu.

Reglugerð um þjónustugátt

Í nýja kerfinu er markvissri samvinnu Tryggingastofnunar og þjónustuaðila komið á með starfrækslu þjónustugáttar en tilgangur gáttarinnar er að tryggja nauðsynlega yfirsýn yfir viðurkenndar meðferðir og endurhæfingarþjónustu sem einstaklingar fá á hverjum tíma sem og að stuðla að samfellu í þjónustu og greiðslum hjá þeim sem þurfa þjónustu frá fleiri en einum þjónustuaðila.

Þá verður komið á sérstökum samhæfingarteymum sem ætlað er að hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir, leggja til þá þjónustu sem gæti gagnast viðkomandi og leiða hann á milli kerfa. Reglugerð um þjónustugátt setur skýran ramma um miðlun og vinnslu persónuupplýsinga í gáttinni.

  • Gert er ráð fyrir sérstöku viðmóti fyrir samhæfingarteymin til að auðvelda samstarf teymisins. 
  • Í reglugerðinni er ábyrgð Tryggingastofnunar og tilgreindra þjónustuaðila skilgreind og rík áhersla lögð á persónuvernd, meðalhóf og gæði upplýsinga.

Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur vegna kostnaðar

Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur vegna kostnaðar er meðal annars ætlað að tryggja þeim sem eru á sambýli og þeim sem dvelja á áfangaheimilum sambærilegan stuðning og verið hefur.

  • Stuðningur samkvæmt núgildandi reglugerð dettur út við kerfisbreytinguna 1. september þar sem fjárhæð örorkulífeyris hækkar og rétt þótti að mæta þessum hópi sérstaklega.
  • Í reglugerðinni er þannig meðal annars nýtt ákvæði sem heimilar að greiða þeim sem eru búsettir á sambýli eða áfangaheimilum heimilisuppbót til þess að tryggja þeim sambærilegan stuðning og verið hefur.

Bein útsending á mánudag

Nýja kerfið tekur gildi á mánudag, 1. september, og í tilefni dagsins verður streymi úr Grósku kl. 11:00 þann dag þar sem farið verður yfir þær umbætur sem nýja kerfið hefur í för með sér.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta