Innleiðing hagræðingar- og umbótaverkefna komin á fullt
Vinna við hagræðingar- og umbótaverkefni er komin á fullt skrið í ráðuneytum, eftir víðtækt samráð við almenning og stjórnsýslu í byrjun árs. Yfir helmingur tillagna sem hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði af sér í mars er í innleiðingu eða skoðun í einhverri mynd hjá ráðuneytunum. Á meðal verkefna sem komin eru í farveg í forsætisráðuneytinu eru afnám handhafalauna og vinna við nefndahús. Í næstu viku munu fleiri ráðuneyti gera grein fyrir sínum verkefnum.
Hagsýni í ríkisrekstri er eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Ríkisstjórnin efndi til samráðs við almenning, ríkisstofnanir og ráðuneyti í janúar, þar sem hún óskaði eftir tillögum að hagræðingar- og umbótaverkefnum. Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri vann úr þúsundum tillagna og skilaði af sér eigin tillögum í byrjun mars.
Setur tóninn fyrir fjárlög næsta árs
Vinnuhópur forsætis- og fjármálaráðuneytis, í samráði við hin ráðuneytin, hefur síðan unnið að framkvæmd tillagna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hópurinn skilaði verkáætlun í júní, þar sem alls voru skilgreind 178 verkefni þvert á ráðuneyti, sem þeim er falið að leiða til lykta á kjörtímabilinu.
„Ég er stolt af því hvað vinnan með tillögur hagræðingarhópsins hefur gengið hratt og vel, í þéttu samráði við ráðuneytin. Nú er góður gangur kominn á fjölmörg verkefni og víða verður hægt að stíga afgerandi skref á næstu tólf mánuðum,“ segir Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra.
„Við höfum talað um að nú sé verðmætasköpunarhaust en við erum ekki síður í tiltekt. Við ætlum að laga ríkisfjármálin og taka til. Ná stjórn, hagræða og hrista upp í kerfinu. Með þessu setjum við tóninn fyrir fjárlög næsta árs sem kynnt verða í byrjun september.“
Fjölbreytt verkefni komin í farveg
Verkefnin sem vinnuhópurinn skilgreindi lúta meðal annars að sameiningum ríkisstofnana, sameiningum og fækkun sjóða, nefnda og ráða, einföldun stjórnsýslu, aðhaldi og sparnaði. Til grundvallar liggja þó ekki aðeins markmið um hagræðingu, heldur einnig umbætur á þjónustu og skilvirkni, sveigjanlegri og sterkari rekstrareiningar og dreifingu starfa hjá hinu opinbera um landið. Meira en helmingur tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar er í innleiðingu hjá ráðuneytum eða til skoðunar í einhverri útfærslu.
Í forsætisráðuneytinu eru eftirfarandi hagræðingarverkefni komin í farveg:
- Afnám handhafalauna vegna forsetavalds. Forsætisráðherra hyggst leggja fram frumvarp þess efnis í haust. Í því frumvarpi stendur einnig til að taka á heimild til rafrænna undirritana á erlendri grundu, sem mun leiða til sparnaðar.
- Stofnun Nefndahúss. Stefnt er að því að koma fót sérstöku Nefndahúsi fyrir kæru- og úrskurðarnefndir. Ávinningurinn yrði aukin skilvirkni og hagræðing og bætt þjónusta við almenning. Forsætisráðherra hyggst leggja fram frumvarp í haust til að ryðja úr vegi lagalegum hindrunum fyrir Nefndahúsið.
- Rafræn ríkisstjórn. Stefnt er að því að ríkisstjórnin verði pappírslaus. Vinna er hafin við undirbúning og vonast er til að breytingar verði innleiddar snemma á næsta ári.
- Rafrænar ríkisráðsafgreiðslur. Fyrirhugað er að gera forseta Íslands kleift að skrifa undir tillögur frá ráðherrum utan ríkisráðs á rafrænan hátt. Þetta mun spara tíma og kostnað vegna ferða milli ráðuneyta og forsetaembættis.
- Breytt lagaumgjörð stofnanaskipanar ríkisins. Verið er að skoða hvort gera ætti lagabreytingar, sem fælu í sér að ráðherrum yrðu veittar heimildir til að taka ákvarðanir um nýjar stofnanir, sameiningu þeirra eða niðurlagningu án aðkomu Alþingis.
- Aukin samhæfing innan Stjórnarráðsins. Langtímaverkefni en vinna þegar hafin. Tækifæri eru til samreksturs og margvíslegra umbóta sem næðu til allra ráðuneyta. Markmiðið er m.a. að auka framleiðni, draga úr aðkeyptri þjónustu við grunnstarfsemi og samræma ýmsa starfsemi.
Í næstu viku munu fleiri ráðuneyti gera opinberlega grein fyrir umbóta- og hagræðingarverkefnum sínum, ásamt öðrum áformum sem leitt hafa af sameiginlegu átaki ríkisstjórnarinnar um hagsýni í ríkisrekstri.