Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2025 Innviðaráðuneytið

Kyrrstaða rofin í jarðgangagerð og ný nálgun í fjármögnun innviðaverkefna

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra flytur opnunarávarp Innviðaþings 2025 - mynd

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hélt opnunarávarp á Innviðaþingi sem haldið var í gær undir yfirskriftinni Sterkir innviðir – sterkt samfélag. Á þinginu var sjónum beint að uppbyggingu og öryggi innviða og leiðum til að fjármagna innviðauppbyggingu á sviði samgangna og fjarskipta. Í aðdraganda þingsins hélt innviðaráðherra opna fundi með íbúum í hverjum landshluta til að eiga samráð um málaflokka ráðuneytisins. 

Meðal þess sem innviðaráðherra boðaði á þinginu var að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð, að framlög til viðhalds vega um land allt yrðu stóraukin og að unnið væri að nýrri nálgun við fjármögnun innviðaverkefna, m.a. útfærslu innviðafélags um stórar samgönguframkvæmdir.
 
Þá sagði ráðherra að undirbúningur væri hafinn að nýrri byggðaáætlun, að unnið væri að því að ná markmiði um fulldekkað farsímanet á stofnvegum á láglendi og loks að sveitarfélög væru ómetanlegur hlekkur í keðjunni þar sem þau stæðu sjálf í umfangsmikilli innviðauppbyggingu. 

Hávær og skýr krafa um sterka innviði

Eyjólfur Ármannsson sagði í ræðu sinni að krafa um nútímavæðingu innviða væri hávær og skýr. Hann hafi átt milliliðalaust samtal á opnum fundum við íbúa og sveitarstjórnarfólk um málaflokka ráðuneytisins og ljóst sé að þörfin væri brýn. Ráðherra sagði að ríkisstjórnin hafi skýra stefnu um uppbyggingu innviða til að auka verðmætasköpun. Það verði gert með því að auka fjárfestingar í samgöngum, hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt og rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð.

„Fjárfesting í innviðum er ein öruggasta leið okkar til að bæta lífskjör til lengri tíma og auka samkeppnishæfni landsins,“ sagði Eyjólfur.

Ráðherra sagði samgönguinnviði vera veikasta hlekkinn í samkeppnishæfni Íslands. Við værum fámenn þjóð í stóru landi sem byggði vegakerfi af krafti á sínum tíma en er víða komið til ára sinna. Fjárfesting í samgönguinnviðum hér á landi hefur verið einna minnst meðal OECD-ríkja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Ráðherra taldi mikilvægt að árlegt framlag á fjárlögum til samgangna þyrfti að fara upp í 1% af vergi landsframleiðslu (VLF) í stað um 0,5-0,5%.

„Í samkeppnishæfnisskýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins voru íslenskir samgönguinnviðir metnir einn veikasti hlekkurinn í samkeppnishæfni landsins og voru metnir landinu til lækkunar. Stöndum við þar öðrum Norðurlandaþjóðum töluvert að baki. Á sama tíma hefur álag á vegakerfið stóraukist hin síðari ár, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna og stóraukinna þungaflutninga.“

Nýjar jarðgangaframkvæmdir árið 2027

Eyjólfur sagði að stefna ríkisstjórnarinnar væri að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð. „Að öllu óbreyttu er stefnt að því að hefja nýjar jarðgangaframkvæmdir árið 2027 af fullum þunga, en líklegt er að ráðast megi í nauðsynlegar endurbætur á eldri jarðgöngum strax á næsta ári,“ sagði Eyjólfur.

Ráðherra sagði að hann muni gera grein fyrir forgangsröðun jarðganga og annarra samgöngumannvirkja í samgönguáætlun sem mælt verður fyrir á Alþingi á haustþingi.

Ný nálgun í fjármögnun

Eyjólfur sagði að metnaðarfull markmið um innviðaverkefni kalli á nýja nálgun í fjármögnun. Í vor hafi hafist stefnumótunarvinna um mögulega stofnun innviðafélags. Markmiðið með innviðafélagi væri skýrt en það væri að opna á fjármögnun frá langtímafjárfestum. Einnig þyrfti að tryggja aukna samfellu og fyrirsjáanleika í útgjöldum ríkisins til málaflokksins en það myndi sparað mikla fjármuni fyrir hið opinbera.

Til lengri tíma litið væri horft til risaverkefna sem muni móta framtíð íslensks samfélags. Þar standi upp úr bygging Sundabrautar sem er þjóðhagslega hagkvæmasta framkvæmd Íslandssögunnar. Markmiðið er að framkvæmdir hefjist 2027 og að Sundabraut verði opnuð fyrir umferð eigi síðar en árið 2032.

Eyjólfur fjallaði einnig um stór verkefni væru þegar í undirbúningi eða langt komin. Framkvæmdir við vegi og brýr yfir Hornafjarðarfljót væru vel á áætlun og stefnt væri að verklokum fyrir áramót. Einnig væri nú unnið að gerð nýrrar Ölfusárbrúar sem stefnt væri að því að opna árið 2028. Bæði verkefnin hafa verið unnin á grundvelli laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

Stóraukin framlög til viðhalds

Í ávarpi sínu sagði Eyjólfur að ríkisstjórnin hafi í sumar samþykkt þriggja milljarða viðbótarframlag til viðhalds á vegakerfinu, sem jafngildi 25% hækkun miðað við meðalframlög. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 væri gert ráð fyrir enn frekari sóknarleik og stefnt væri að því að framlög til viðhalds hækkuðu í 20 milljarða á ári sem nauðsynlegt væri til að tryggja lágmarksviðhald á verðmætu vegakerfi landsins. Áætlað væri að hækkun framlaga til viðhalds eingöngu muni nema allt að 5,5 milljörðum króna á hverju ári. Þetta jafngildir um 45% aukningu frá því sem verið hefur.

Ráðherra sagði að Vegagerðin hafi metið það svo að nauðsynleg fjárframlög til að stöðva uppsöfnun innviðaskuldar vegakerfisins séu um 20 ma.kr. á ári. Til samanburðar hafi árlegt framlag til viðhalds vega verið um 10-13 milljarðar síðastliðin ár.

„Ég vonast til þess að landsmenn upplifi að nú sé sleginn nýr tónn í málefnum innviða á Íslandi,“ sagði Eyjólfur.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra svöruðu spurningum í pallborði.

Pallborð með ráðherrum

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra tók þátt í pallborði með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra þar sem þau svöruðu spurningum frá fundargestum.

Allar upptökur frá Innviðaþinginu og kynningarglærur fyrirlesara verða brátt aðgengilegar á vefsvæði Innviðaþings.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta