Starfshópi falið að móta aðgerðaáætlun til að efla strandsiglingar
Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, hefur skipað starfshóp um strandsiglingar við Ísland. Hlutverk starfshópsins verður að móta og leggja fram aðgerðaáætlun um leiðir til að efla strandflutninga á sjó, m.a. til þess að minnka álag á þjóðvegi landsins og draga úr umhverfisáhrifum. Starfshópnum er ætlað að skila aðgerðaáætlun fyrir 1. desember 2025.
„Það er afar mikilvægt að efla strandflutninga að nýju. Nauðsynlegt er að flutningar á sjó umhverfis landið verði veigamikill hluti af vöruflutningum um landið til framtíðar. Öflugar strandsiglingar verða fyrir vikið mikilvægur þáttur í að vernda vegakerfið,“ segir Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra.
Langstærstur hluti vöruflutninga hér á landi fer fram með stórum bifreiðum um þjóðvegi. Álag á vegi hefur aukist hratt á undanliðnum árum, þ.m.t. umferð þungra vörflutningabíla, með auknum kostnaði í viðhaldi vega.
Starfshópurinn er þannig skipaður:
- Magnús Jóhannesson, formaður, án tilnefningar
- Sóley Ragnarsdóttir, án tilnefningar
- Katrín Pálsdóttir, án tilnefningar
- Linda Björk Gunnlaugsdóttir, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins
- Benedikt S. Benediktsson, tilnefndur af Samtökum verslunar og þjónustu
- Fannar Gíslason, tilnefndur af Vegagerðinni
- Jón Gunnar Jónsson, tilnefndur af Samgöngustofu.
Starfshópnum er ætlað að vinna áfram með skýrslu sem Vegagerðin gerði fyrir innviðaráðuneytið um strandflutninga við Ísland og greina hvernig unnt sé að efla vöruflutninga með strandflutningum. Tillögur hópsins verða lagðar til grundvallar við frekari stefnumótun í málaflokknum, þ.m.t. í samgönguáætlun.
- Skýrsla Vegagerðarinnar um strandflutninga við Ísland (afhent ráðuneytinu í desember 2024)