Nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi: Fylgst með áhrifum kerfisbreytinganna
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að greina áhrif kerfisbreytinga innan örorku- og endurhæfingarkerfis almannatrygginga, sem taka gildi 1. september næstkomandi, sem og að meta hvort markmið breytinganna hafi náð fram að ganga.
Starfshópurinn er svo skipaður:
• Ásdís Aðalbjörg Arnalds, lektor í félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, formaður
• Alma Ýr Ingólfsdóttir, fulltrúi ÖBÍ réttindasamtaka, Geðhjálpar og samtakanna Þroskahjálpar
• Jón Þór Þorvaldsson, lögfræðingur í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu
• Vignir Örn Hafþórsson, sérfræðingur í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu
• Þorbjörg Gunnarsdóttir, fjármálastjóri hjá Tryggingastofnun
Starfsmenn hópsins verða Ásta Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur, og Jóhanna Lind Elíasdóttir, sérfræðingur, sem báðar starfa í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu.
Kveðið er á um breytingarnar og skipun starfshópsins í lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2024.
Starfshópurinn skal fjalla um innleiðingu breytinganna, áhrif þeirra á einstaka hópa fólks, þróun útgjalda, einkum vegna nýrra greiðsluflokka, og árangur af samþættu sérfræðimati sem og samstarfi þjónustuaðila.
Nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi markar tímamót. Breytingarnar eru umfangsmiklar og fela í sér nýja nálgun. Nýja kerfið er einfaldara, greiðslur hækka, dregið er úr tekjutengingum og fólki gert auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði kjósi það svo. Stuðningur er aukinn við fólk í endurhæfingu og áhersla lögð á að koma í veg fyrir að fólk falli milli kerfa og endi með ótímabært örorkumat.