Hoppa yfir valmynd
1. september 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Tímamót: Nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi – breytingarnar snerta hátt í 30.000 manns

Í dag tóku gildi stærstu breytingar sem gerðar hafa verið á örorku- og endurhæfingarkerfinu undanfarna áratugi. Breytingarnar snerta hátt í 30.000 manns.

Í nýju kerfi er litið til þess hvað fólk getur í stað þess að einblína á hvað það getur ekki.

  • Nýja kerfið er einfaldara, greiðslur hækka, dregið er úr tekjutengingum og fólki gert auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði kjósi það svo.
  • Stuðningur er aukinn við fólk í endurhæfingu og áhersla lögð á að koma í veg fyrir að fólk falli milli kerfa og endi með ótímabært örorkumat.

Um 95% þeirra sem hafa verið með örorkulífeyri fá hærri greiðslur í nýja kerfinu. Fólk sem lækkar er með háar lífeyrissjóðstekjur á mánuði og þeir sem verða með sömu greiðslur eru þeir sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingakerfinu. Vegna breytinganna greiddi Tryggingastofnun í dag 1.200 milljónum kr. meira til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega en um síðustu mánaðarmót. 

Í tilefni dagsins var beint streymi úr Grósku þar sem farið var yfir umbæturnar.

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra:

„Nýtt kerfi er betra, manneskjulegra og sanngjarnara. Við tökum núna betur utan um fólkið okkar og þann mannauð sem í því býr. Aukningin til öryrkja eru 18.000 milljónir króna á ári sem eru mesta kjarabætur sem þessi hópur hefur fengið í áratugi. Ég þekki af eigin raun hversu óréttlátt og flókið gamla kerfið var og er afar stolt á þessum tímamótum.“

Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR:

„Breytingarnar eru stórt skref í átt að nútímalegra örorku- og endurhæfingarkerfi sem er í takti við samfélagslegar breytingar undanfarinna ára. Hugsunin er að hver einstaklingur fái þjónustu við hæfi og að með nýju kerfi verði meiri samfella og skilvirkni í þjónustu.“

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar:

„Nýtt kerfi veitir fólki sem vill og getur farið út á vinnumarkað stóraukna möguleika. Breytingarnar opna dyr sem áður stóðu mörgum lokaðar.“

Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK:

„Nýjar sjúkra- og endurhæfingargreiðslur tryggja afkomu fólks á erfiðum tímum og það skiptir gríðarlegu máli. Í nýja kerfinu er líka aukinn sveigjanleiki sem mætir betur fjölbreyttum þörfum einstaklinga í endurhæfingu.“

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins:

„Nýja kerfið einfaldar verulega líf skjólstæðinga heilsugæslunnar. Ótti fólks um að detta á milli í kerfinu hefur verið áþreifanlegur en nú vinna þjónustuaðilar markvisst saman í gegnum samhæfingarteymi og mynda net utan um þau sem þess þurfa.“

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, á fundinum í dag.

Nýmæli í nýju kerfi

Alþingi samþykkti lög um endurskoðun á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga í júní 2024 og hefur afar umfangsmikill undirbúningur staðið yfir síðan. Nýr örorkulífeyrir hefur nú tekið við og af öðrum nýmælum má nefna:

Samþætt sérfræðimat:

Horfið er frá læknisfræðilegu örorkumati sem innleitt var hér á landi árið 1999 og í stað þess kemur nýtt samþætt sérfræðimat. Í því er ekki eingöngu litið til heilsufars heldur horft heildrænt á einstaklinginn og færni hans, sem hann metur meðal annars sjálfur. Geta viðkomandi til virkni á vinnumarkaði er metin.

Samhæfingarteymi:

Ný samhæfingarteymi stuðla að samfellu í þjónustu fyrir einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir sem þurfa á fleiri en einum þjónustuaðila að halda í endurhæfingu. Þar vinna þjónustuaðilar saman, leggja til þá þjónustu sem gæti gagnast viðkomandi og leiða hann á milli kerfa.

Hlutaörorkulífeyrir:

Hlutaörorkulífeyrir er nýmæli og ætlaður þeim sem hafa getu til að vera í hlutastarfi á vinnumarkaði (eru metnir með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati). Frítekjumörk eru hærri en áður hafa sést og fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri getur haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur frá Tryggingastofnun lækki.

Virknistyrkur:

Þeir sem eiga rétt á hlutaörorkulífeyri geta fengið greiddan virknistyrk frá Vinnumálastofnun í allt að 24 mánuði á meðan þeir eru í virkri atvinnuleit með aðstoð Vinnumálastofnunar. Samanlögð fjárhæð hlutaörorkulífeyris og virknistyrks nemur fjárhæð fulls örorkulífeyris. Finni viðkomandi ekki starf getur hann óskað eftir nýju samþættu sérfræðimati.

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur:

Nýjum sjúkra- og endurhæfingargreiðslum er ætlað að tryggja samfellu í afkomu fólks sem þarf á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests eða fötlunar. Þeir sem bíða eftir að endurhæfing hefjist geta nú fengið greiðslur meðan á biðtíma stendur og líka þangað til þeir teljast færir um að hefja endurhæfingu. Fólk í atvinnuleit í kjölfar endurhæfingar getur sömuleiðis fengið greiðslur í þrjá mánuði að endurhæfingu lokinni.

Dæmi um einstaklinga í nýja kerfinu

Líkt og fyrr segir snerta breytingarnar einstaklinga um land allt sem allir búa við einstaklingsbundnar aðstæður. Meðfylgjandi má þó sjá nokkur dæmi um það hvernig fólk kemur út í gamla og nýja kerfinu.

 

 

Mynd 1. Hæsta greiðsla til einstaklings sem býr ekki einn og fær hæstu aldursviðbót (er metinn öryrki 18-24 ára gamall og hefur þar með lítil sem engin tækifæri til að ávinna sér atvinnutengd réttindi á lífsleiðinni). Örorkulífeyri fá þeir einstaklingar sem metnir eru með 0-25% getu til virkni á vinnumarkaði.

 

 

Mynd 2. Hæsta greiðsla til einstaklings sem býr einn og fær hæstu aldursviðbót. Þeir sem búa einir höfðu áður fengið hækkanir umfram þá sem búa með öðrum og eru til dæmis með hærri greiðslur en sem nemur lágmarkslaunum (450.000 kr.). Þessi hópur hækkar því minna í nýja kerfinu en t.d. einstaklingurinn á mynd 1. Í hvorugu dæminu eru taldar með greiðslur vegna mögulegrar hreyfihömlunar, svo sem uppbót vegna reksturs bifreiðar.

 


Mynd 3.
55 ára gömul kona hefur í þessu dæmi átt við margs konar heilsufarsvanda að stríða í mörg ár. Af heildarfjölda þeirra örorkumata sem eru í gildi á landinu á ríflega þriðjungur við um konur 50 ára og eldri. Um 55% þeirra sem metnir eru með örorku í fyrsta sinn eru auk þess á aldrinum 50-66 ára og eru konur þar mun fjölmennari en karlar. Einstaklingar sem fá fyrsta örorkumat á þessum aldri hafa iðulega áunnið sér rétt til örorkugreiðslna frá lífeyrissjóði og er því gert ráð fyrir því í þessu dæmi.

 


Mynd 4.
Einstaklingurinn í þessu dæmi á tvö börn á grunnskólaaldri og fær því barnalífeyri. Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára í tilfellum þar sem foreldri er til dæmis með örorkulífeyri. Barnalífeyrir er hvorki skattskyldur né tekjutengdur. Í dæminu er gert ráð fyrir að vinnuslysið hafi verið alvarlegt og viðkomandi geti ekki snúið til baka á vinnumarkað.

 


Mynd 5.
Einstæð móðir hefur í þessu dæmi átt við heilsufarsvanda að stríða í mörg ár og á þrjú börn á grunnskólaaldri. Hún er metin öryrki þegar hún er fertug og hefur alla sína starfsævi haft lágar tekjur. Til viðbótar við barnalífeyri fær hún mæðralaun. Mæðra- og feðralaun eru greidd til einstæðra foreldra sem hafa tvö eða fleiri börn á sínu framfæri.

 


Mynd 6.
63 ára karlmaður er í þessu dæmi metinn öryrki eftir skyndileg veikindi. Hann á að baki langa vinnusögu með háum tekjum og fær í nýja kerfinu ekki greiðslur frá Tryggingastofnun. Þeir sem lækka í nýja kerfinu eru með háar lífeyrissjóðstekjur á mánuði líkt og einstaklingurinn í þessu dæmi. Alls munu 95% örorkulífeyrisþega þó fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.

 


Mynd 7.
Einstaklingur í þessu dæmi hefur átt við erfiðleika að stríða í mörg ár, verið stopult á vinnumarkaði og verið metinn öryrki 36 ára gamall. Hann er í litlu hlutastarfi. Í nýja kerfinu geta örorkulífeyrisþegar haft samtals 100.000 kr. í tekjur án þess að örorkulífeyrir þeirra skerðist.

 


Mynd 8.
Ungur einstaklingur sem enn býr í foreldrahúsum er þátttakandi á vinnumarkaði og fær 350.000 kr. í mánaðartekjur. Í dæminu sést hvernig hann kemur annars vegar út í eldra kerfi og hins vegar í nýja kerfinu. Í nýja kerfinu er hann með hlutaörorkulífeyri.

 

Mynd 9. Einstaklingur sem fær hlutaörorkulífeyri og virknistyrk fær samanlagt jafnháa greiðslu frá Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun og einstaklingur sem fær fullar örorkulífeyrisgreiðslur. Þegar viðkomandi fær vinnu fellur virknistyrkurinn niður og mánaðartekjurnar mega vera allt 350.000 kr. án þess að hlutaörorkulífeyrinn lækki. Sé fyrirséð að viðkomandi fái ekki vinnu er hægt að óska eftir nýju mati á getu viðkomandi til þátttöku á vinnumarkaði. Niðurstaðan að því loknu gæti verið sú að viðkomandi sé metinn öryrki og eigi rétt á fullum örorkulífeyri.

 

 

Mynd 10. Konan á mynd 3 glímdi við fjölþættan heilsufarsvanda í mörg ár. Þegar erfiðleikar í nánasta umhverfi bættust við með tilheyrandi álagi var hún að þrotum komin og endaði í veikindaleyfi. Í endurhæfingarferlinu sem við tók fannst henni að enginn bæri ábyrgð á máli hennar. Hún fékk auk þess ekki samfelldar endurhæfingargreiðslur og áhyggjur hennar af ótryggri framfærslu ollu henni kvíða og töfðu fyrir batanum. Mál hennar endaði með því að hún var metin öryrki sem ætti rétt á fullum örorkulífeyrisgreiðslum. Í nýja kerfinu má sjá fyrir sér sömu konu fá samfelldar sjúkra- og endurhæfingargreiðslur sem og þjónustu samhæfingarteymis sem leiðir hana á milli þjónustuaðila eftir því sem við á hverju sinni. Hún nær viðspyrnu og á að lokum afturkvæmt á vinnumarkað, ýmist í fullt starf eða hlutastarf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta