Hoppa yfir valmynd
1. september 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Umbætur og hagræðing í ríkisrekstri skila miklum ávinningi

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar leggur áherslu á að ná stöðugleika í efnahagslífi, lækkun verðbólgu og vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Snar þáttur í að ná þeim markmiðum er að hagræða í rekstri ríkisins.

Í samræmi við fjármálaáætlun verður ráðist í ýmsar aðgerðir til að draga úr útgjaldavexti ríkissjóðs og skapa svigrúm fyrir ný og brýn verkefni. Alls verða gerðar umbætur og hagrætt fyrir um 107 milljarða á tímabili þessarar fjármálaáætlunar. Með nýrri nálgun í áætlanagerð eru umbætur og hagræðing útfærðar nákvæmar en áður hefur verið.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur víðtæka aðkomu að hagræðingu í ríkisrekstri og hefur leitt þá vinnu í samvinnu við forsætisráðuneytið.

Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra:

„Ég er mjög spenntur fyrir þeim umbóta- og hagræðingarverkefnum sem við höfum teiknað upp. Ég lagði áherslu á að byrja strax í ár. Þess vegna erum við nú þegar farin að sjá árangur meðal annars í gegnum bætta sjóðstýringu ríkisins sem hefur m.a. bætt fjármagnsjöfnuð ríkissjóðs um 250 m.kr. og lækkað vaxtakostnað um 3 ma.kr. í ár með minni skammtímafjármögnun. Skuldir A-hluta ríkissjóðs lækkuðu um u.þ.b. 6% af VLF með uppgjöri ÍL-sjóðs. Uppgjörinu fylgdi jákvætt greiðsluflæði sem dregur úr lántökum ríkissjóðs á árinu um 7 ma.kr. Uppgjörið hafði einnig um 11 ma.kr. jákvæð áhrif á afkomu A-hluta ríkissjóðs á árinu 2025. Sala á óhentugum fasteignum ríkisins hefur skilað tæpum 4 ma.kr. á árinu sem er umtalsverð aukning frá fyrri árum. Þá má nefna að með aukinni stafvæðingu hafa sparast yfir 100 m.kr það sem af er ári með rafrænum þinglýsingum einum og sér og væntur þjóðhagslegur ávinningur á tímabilinu er 1,1 - 1,7 ma.kr. Þetta eru verkefnin sem við höfum þegar ráðist í en fleiri álíka stór tækifæri eru í farvatninu. Þannig gerum við t.d. ráð fyrir því að spara þjóðinni um 3 ma.kr. með því að bæta húsnæðisnýtingu stofnana.“

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þau verkefni sem fjármála- og efnahagsráðuneytið mun leiða á tímabili fjármálaáætlunar. Lögð er áhersla á verkefni sem skila virði fyrir samfélagið, hvort sem er með hagræðingu eða umbótum í þjónustu við almenning og fyrirtæki í landinu.

Verkheiti

Lýsing

Aukin hagkvæmni og skilvirkni samkeppnissjóða

Markmið verkefnisins er að hagræða og einfalda umhverfi opinberra samkeppnissjóða, auka rekjanleika, gegnsæi og skilvirkni ásamt því að bæta opinbera þjónustu með skilvirkara og einfaldara umsóknarferli. Komið verður upp sameiginlegu styrkjatorgi ásamt miðlægum gagnagrunni fyrir greiningar, nýtingu gervigreindar og sameiningu sjóða. Verkefnið er unnið þvert á ráðuneyti.

Áframhaldandi innleiðing þjónustu á Ísland.is

Haldið áfram að bæta opinbera þjónustu með bættum upplýsingum og þjónustu á þjónustugáttinni Ísland.is Sérstök áhersla á aðgengi að upplýsingum um heilsu, atvinnu og menntun.

Átakshópur um greiningu og ráðgjöf um opinber innkaup

Átakshópur innkaupa vinnur að aðgerðum sem miða meðal annars að bættri yfirsýn og gagnadrifinni ákvarðanatöku um innkaup ríkisins.

Bætt fjárstýring ríkissjóðs

Verklagi við sjóðstýringu verður breytt til að nýta fjármuni ríkisins betur. Unnið verður með Fjársýslu ríkisins, Seðlabankanum og öðrum stofnunum að ýmsum verkefnum til úrbóta.

Bætt nýting gagna hjá ríkinu

Gagnastjóri ríkisins, undir hatti Stafræns Íslands, móti samræmd viðmið um fyrirkomulag gagnaumsýslu og efli samstarf milli stofnana um aukna hagnýtingu gagna. Viðmiðin bæta þjónustu gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum ásamt því að auðvelda ríkinu að taka betri og upplýstari ákvarðanir. Þá er heildstætt skipulag gagna enn fremur forsenda hagnýtingar gervigreindar.

Bætt nýting húsnæðis hjá ríkinu

Nýting fermetra hjá ríkinu verður bætt í samvinnu við Framkvæmdasýsluna-Ríkiseignir m.a. með því að: losa ríkisaðila úr óhentugu húsnæði; selja fasteignir sem ekki eru lengur í notkun; afla hentugra húsnæðis; auka samnýtingu; efla samstarf við skipulagsyfirvöld um framgang þróunarreita fyrir sölu.

Einföldun á regluverki til að draga úr beinum afskiptum Skattsins af viðskiptavinum og einfalda stjórnsýslubyrði

Stafvæðing verður aukin til að veita skilvirkari þjónustu, lágmarka skriffinnsku og bæta skattheimtu.

Endurmat útgjalda

Unnið verður að reglubundnu endurmati til að tryggja betri nýtingu og bætta forgangsröðun fjármuna.

Umbætur í starfsmannamálum ríkisins

Áfram verður unnið að umbótum í starfsmannamálum ríkisins með það að markmiði að stuðla að aukinni skilvirkni og bættri þjónustu við almenning.

Endurskoðun þjónustu og notendagjalda

Öll ráðuneyti eru að fara yfir gjöld sem greidd eru vegna þjónustu til að tryggja að þau standi undir veittri þjónustu. Í einhverjum tilfellum gætu gjöld hækkað á sama tíma og önnur gjöld gætu lækkað t.d. þar sem þjónusta er orðin sjálfvirk.

Frumvarp um opinberar fjárfestingar

Regluverki verði breytt með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra.

Fyrirkomulag launasetningar hjá ríkinu m.t.t. kjarasamninga, stofnanasamninga, alþjóðlegra skuldbindinga og áforma um virðismat starfa

Fyrirkomulag launasetningar með stofnanasamningum verður endurskoðað og metið með hvaða hætti verkefni um virðismat starfa geti komið að einhverju eða öllu leyti í staðinn.

Heildarendurskoðun laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009

Markmið endurskoðunarinnar er að áfram verði stutt við vöxt hugverkaiðnaðar, nýsköpunar og tækni í samræmi við stjórnarsáttmála og stuðningurinn stuðli með markvissum hætti að efnahagslegum ávinningi fyrir íslenskt samfélag. 

Innleiðing árangursmælikvarða í rekstri og þjónustu ríkisins

Lykilárangursmælikvarðar eiga að stuðla að upplýstari ákvarðanatöku, auknu gagnsæi og skilvirkni í ríkisrekstrinum. Nú þegar er unnið með ýmsar upplýsingar um árangur í ríkisrekstri en markmiðið er að birta þær samræmt á vef til að bæta gagnsæi og eftirfylgni.

Rekstrarúttekt valinna ríkisfyrirtækja

Til að fylgja eftir nýju fyrirkomulagi varðandi val í stjórnir stærstu ríkisfyrirtækjanna og efla eftirfylgni með starfsemi þeirra verður gerð úttekt á rekstri þeirra. Þar verða greindar lykilbreytur síðustu 5 ára og settar fram tillögur að viðeigandi mælikvörðum og viðmiðum. Arðsemiskrafa verður sett fyrir fyrirtækin og stefna ráðuneytisins birt varðandi arðgreiðslustefnur og fjármagnsskipan.

Samræmd greiðsla fyrir nefndarstörf

Settar verða skýrari verklagsreglur varðandi greiðslur til nefndarmanna í nefndum á vegum ríkisins.

Stefna um þjónustu hins opinbera

Sett verður stefna um opinbera þjónustu, ekki síst á grunni ábendinga almennings og hagaðila, þar sem tekið verður m.a. á þeim fjölmörgu atriðum sem þar komu fram um hvernig megi hagræða í ríkisrekstri og bæta opinbera þjónustu. Stöðumat um stefnuna verður birt á haustmánuðum þar sem helstu áskoranir og tækifæri verða kynnt til frekara samráðs.

Tæknisamstæða grunnskráa ríkisins

Aukið samráð ráðuneyta um þróun og rekstur grunnskráa ríkisins með hagræðingu og umbætur hjá stofnunum að leiðarljósi.

Viðmið um stjórnir stofnana

Til að fækka stjórnum yfir ríkisstofnunum verða sett viðmið um hvenær æskilegt er að setja stjórn yfir stofnun og hvenær ekki. Byggjast viðmiðin meðal annars á ábendingum Ríkisendurskoðunar og fyrri skýrslum um ríkisreksturinn.

   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta