Hoppa yfir valmynd
2. september 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Hagræðing og tiltekt í heilbrigðiskerfinu

Hagræðing og tiltekt í heilbrigðiskerfinu   - myndStjórnarráðið

Í upphafi árs tók heilbrigðisráðherra ákvörðun um að ráðast í 38 aðgerðir til hagræðingar og einföldunar í heilbrigðiskerfinu í samræmi við markmið ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um hagræðingu og hagsýni í ríkisrekstri. Aðgerðirnar eru mislangt komnar, fimm er þegar lokið en ráðuneytið hefur mótað skýra sýn á framhald þeirra aðgerða sem áfram er unnið að.

Aðgerðum sem snúa að auknu vægi samheitalyfja í kostnaðarþátttöku er lokið en áætlað er að þær muni spara allt að 300 m.kr. á ári þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Meðal verkefna sem eru langt komin eru sameiningar stofnana, hagræðing í rannsóknarþjónustu, hagræðing í innkaupum, aukin stafvæðing og skipun fagráðs um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Á síðasta þingi samþykkti Alþingi frumvarp heilbrigðisráðherra um fækkum hæfnisnefnda, þá tók heilbrigðisráðherra ákvörðun um að lækka laun stjórnarmanna í stjórn Landspítala auk þess sem unnið er að frekari fækkun nefnda á vegum ráðuneytisins. Á komandi þingi mun ráðherra leggja fram frumvarp sem felur í sér að stjórn Sjúkratrygginga verði lögð niður.  

Flutningar og sameiningar í undirbúningi 

Flutningur verkefna Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ) til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er á lokametrunum en stefnt er að því að verkefninu ljúki í upphafi árs 2026 og að stofnunin verði þá lögð niður. Jafnframt er í vinnslu fýsileikakönnun á sameiningu Geislavarna ríkisins við aðra stofnun. Geislavarnir og HTÍ eru tvær smæstu stofnanir ráðuneytisins. 

Kortlagning rannsóknarþjónustu með það að markmiði að sameina og efla rannsóknarþjónustu er langt komin. Þá hefur verið hrundið af stað tilraunaverkefni um sameiginleg og hagstæðari innkaup þar sem Landspítali, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja taka þátt. Stefnt er að enn frekari samvinnu á þessu sviði. Ráðuneytið bindur vonir við að sameiginleg innkaup, þar á meðal á lyfjum, skili verulegum ábata en sem dæmi má nefna að sameiginlegt norrænt útboð á immúnóglóbúlíni í byrjun árs 2025 sparaði um 260 milljónir króna á lið leyfisskyldra lyfja. Að auki eru til skoðunar áætlanir um aukinn samrekstur innan heilbrigðiskerfisins, en þau verkefni eru skemmra á veg komin. 

Aðhaldsaðgerðir í fjárlögum 2026 

Í fjárlögum næsta árs eru lagðar til fjórar sértækar aðhaldsráðstafanir sem byggja á áætlun ráðuneytisins. Þær fela m.a. í sér sparnað um: 

  • 200 m.kr. vegna betri nýtingar tækja og mannafla í rannsóknarþjónustu, 
  • 1.000 m.kr. sem byggja mun á tillögum fagráðs um forgangsröðun, 
  • 1.000 m.kr. með breytingum á greiðsluþátttöku sjúkratryggðra en þar er unnið að útfærslu, 
  • 300 m.kr. vegna lyfjamála, sameiginlegra innkaupa og tengdra verkefna.

Með aðgerðunum er stigið mikilvægt skref í átt að sjálfbæru heilbrigðiskerfi þar sem fjármagn nýtist betur, þjónustan verður aðgengilegri og auðveldara verður að taka upp nýjungar. Verkefnin krefjast þó áframhaldandi samvinnu, aga og festu svo ná megi fram þeim árangri sem stefnt er að. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta