Hoppa yfir valmynd
2. september 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Sálfræðiþjónusta við fullorðna – gildistími tilvísana tvöfaldaður

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tvöfalda gildistíma tilvísana frá heilsugæslu sem er skilyrði fyrir meðferð fullorðinna hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum á samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Gildistíminn hefur verið sex mánuðir en verður tólf. Reglugerð ráðherra þessa efnis tekur gildi 15. september.

Um sálfræðiþjónustu við fullorðna og greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna hennar er fjallað í 28. gr. reglugerðar nr. 1582/2024. Umsamin þjónusta tekur til fullorðinna með kvíðaröskun eða þunglyndi sem flokkast sem væg eða meðalþung tilvik. Þjónustan er veitt af sálfræðingum sem starfa á grundvelli rammasamnings við Sjúkratryggingar Íslands. Áskilið er að fyrir liggi tilvísun frá heilsugæslu um meðferð. Þar skal tilgreina fjölda meðferðarskipta sem geta að hámarki orðið 12 í hverri meðferðarlotu og gildir tilvísun að hámarki í sex mánuði frá því að meðferð hefst.

Heilbrigðisráðuneytið hefur fengið ábendingar um að oft komi upp aðstæður sem koma í veg fyrir að einstaklingur í meðferð nái að ljúka þeirri meðferð sem samþykkt hefur verið, áður en að tilvísunin rennur út.

„Þetta tel ég augljóst dæmi um óþarfa skriffinnsku sem stendur í vegi fyrir þjónustu og er einungis til trafala öllum sem málið varðar. Því hef ég ákveðið að breyta reglugerðinni og lengja gildistíma þessara tilvísanan úr sex mánuðum í tólf“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta