Samtal um framtíðaruppbyggingu Grindavíkur
Forsætisráðuneytið, Grindavíkurbær og Grindavíkurnefnd eiga nú í samtali um framtíðaruppbyggingu Grindavíkur.
Fram undan eru fjölmörg verkefni sem krefjast samstillts átaks. Á meðal þeirra eru málefni sem varða fjárhag sveitarfélagsins, félagsleg málefni, innviðaframkvæmdir, sveitarstjórnarkosningarnar 2026 og áframhaldandi jarðhræringar á svæðinu.
Samtalið fer fram í nánu samráði við ráðherranefnd um samræmingu mála undir forystu forsætisráðherra.
„Ég bind miklar vonir við þetta góða samtal, sem byggir á sterkum grunni eftir vinnu síðustu missera. Öflugir fulltrúar Grindvíkinga og helstu sérfræðingar stjórnsýslu ríkisins koma að þessu máli í náinni samvinnu við okkur í ráðherranefnd um samhæfingu mála. Samhæfing er einmitt lykilatriði í vinnunni framundan. Við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir nú í vetur og þær verða ekki teknar nema að vandlega athuguðu máli og í þéttu samráði við Grindvíkinga sjálfa,“ segir Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra.