Hoppa yfir valmynd
2. september 2025 Dómsmálaráðuneytið

Yfir 30 aðgerðir til að bæta stöðu hinsegin fólks

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda drög að nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks. Í aðgerðaráætluninni eru 34 aðgerðir sem miða að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks og tekur hún til áranna 2026-2029.

„Ég er stolt af því að leggja fram þessa metnaðarfullu aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks. Þó Íslendingar standi vel að vígi í alþjóðlegum samanburði eigum við enn talsvert í land með að tryggja hinsegin fólki sömu  réttindi og öðrum,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra.

Í henni er að finna mikilvægar aðgerðir, áform um réttarbætur, stuðning, fræðslu og margt fleira í þágu hinsegin fólks á öllum aldri.

Afnám banns við blóðgjöf og jafn réttur til foreldraviðurkenningar meðal aðgerða

Aðgerðirnar eru afrakstur víðtæks samráðs, fyrirliggjandi innlendra upplýsinga og ábendinga frá alþjóðlegum réttindasamtökum um stöðu hinsegin fólks á Íslandi. Þær eru fjölbreyttar og snerta sumar mörg svið og þar af leiðandi fleira en eitt ráðuneyti, sem og stofnanir, sveitarstjórnir, félagasamtök og hagsmunaaðila

„Mikil áskorun felst í nauðsynlegri hugarfarsbreytingu meðal íhaldsafla á Íslandi. Frelsi fólks til að fá að vera eins og það er, njóta jafnrar virðingar og tækifæra til þátttöku í samfélaginu á við aðra er í mínum huga grundvallarstoð íslensks lýðræðissamfélags.“

Af einstökum aðgerðum má nefna áframhaldandi undirbúning undir afnám banns við blóðgjöf karla sem stunda kynlíf með öðrum körlum. Í áætluninni er einnig að finna aðgerð sem felur í sér markmið um að jafna rétt samkynja para til foreldraviðurkenningar á við gagnkynja pör án þess að gengið sé á rétt barna. Nú  er staðan sú að þegar barn fæðist í samkynja sambandi verður foreldrið sem ekki gengur með barnið ekki sjálfkrafa foreldri þess eins og í tilfelli gagnkynja foreldra.

Drögin má nálgast í samráðsgátt stjórnvalda og gefst almenningi og hagsmunaaðilum kostur á að senda inn umsagnir til og með mánudagsins 22. september næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta