Innviðaþing: Ísland í fararbroddi vegna kílómetragjalda sem taki til allra ökutækja
Jari Kauppila forstöðumaður hjá International Transport Forum (ITF), sem starfar innan vébanda OECD, var gestur á Innviðaþingi í síðustu viku. Hann fjallaði um fjárfestingar í samgöngum og leiðir til að fjármagna innviðauppbyggingu í alþjóðlegu samhengi. Helstu niðurstöður voru að taka þurfi upp nýjar og sanngjarnar leiðir til fjármögnunar innviða sem gangi jafnt yfir öll ökutæki, þ.m.t. rafbíla. Einnig væri mikilvægt að fjárfesta í almenningssamgöngum og innleiða skýra fjármögnunar- og fargjaldastefnu fyrir þær.
Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra fluttu einnig erindi á þinginu. Allar upptökur og kynningarglærur eru á vef Innviðaþings.
Ísland í fararbroddi vegna áforma um kílómetragjöld
Jari fjallaði um þá staðreynd að þróuð ríki standi frammi fyrir minnkandi tekjum af eldsneytissköttum vegna sparneytnari ökutækja og orkuskipta. Það kalli á nýjar og sanngjarnar leiðir fyrir stjórnvöld að fjármagna innviðauppbyggingu, m.a. með innheimtu veggjalda eftir vegalengd (kílómetragjöld) og flýti- og umferðargjalda vegna mikillar umferðar.
Sérstaklega væri mikilvægt að eigendur rafbíla greiði einnig fyrir akstur og notkun á vegum. Jari sagði að í þessum efnum væri Ísland í fararbroddi á heimsvísu, m.a. með áformum um innleiðingu kílómetragjalds sem gangi jafnt yfir öll ökutæki, þ.m.t. rafbíla.
Áhrif rafvæðingar var rannsakað í nýlegri skýrslu á vegum ITF. Lagt er til að nýta blandaðar leiðir til fjármögnunar í takt við aðstæður á hverjum stað. Helstu tillögur skýrslunnar voru:
- Nýta áfram og endurbæta hefðbundna eldneytisskatta og tryggja að skattlagning endurspegli samfélagslegan kostnað umferðar.
- Taka upp einföld veggjöld eftir vegalengd, einkum til að rafbílar greiði sanngjarna hlutdeild.
- Viðbótargjöld á umferðarteppur þar sem þörf krefur – hvati til að dreifa umferð og greiða fyrir umferð.
- Íhuga að eyrnamerkja tekjur af umferðargjöldum til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.
Mikilvægt að fjárfesta í almenningssamgöngum
Jari benti á að fjárfestingar í almenningssamgöngum eru afar mikilvægar og í raun lykilatriði til að ná markmiðum varðandi greiðar samgöngur, loftslagsmál og aðgengi. Um þetta hafi verið gerð skýrsla á vegum ITF. Meðal helstu tillagna í skýrslunni eru
- Móta fjármögnunarstefnu fyrir almenningssamgöngur. Samnýta fjölbreyttar leiðir, þ.á m. fargjöld, almennar skatttekjur eða aðrar sértækar leiðir.
- Auka skilvirkni almenningssamgangna svo draga megi úr þörf fyrir niðurgreiðslur, t.d. með aukinni samkeppni. Birta lykilmælikvarða opinberlega. t.d. einfaldan kostnað á hvern farþegakílómetra.
- Innleiða skýra fargjaldastefnu með formlegum ferlum og tryggja samráð við hagsmunaaðila, notendur og hagaðila.
- Nota stigskipt fargjöld til að tryggja réttlátara aðgengi án þess að skerða heildartekjur. Byggja fargjöld á þörf (t.d. vegalengd og tekjustig).
- Ekki gera almenningssamgöngur gjaldfrjálsar.
Um ITF-OECD
ITF starfar innan vébanda OECD og hlutverk þess er að stuðla að samvinnu þjóða í málefnum samgangna og standa að viðamiklum rannsóknum sem ætlað er að vera grundvöllur fyrir stefnumótun og ákvörðunartöku á öllum sviðum samgangna. 66 ríki eiga aðild að ITF og árlega er ráðherrafundur haldinn í Leipzig í Þýskalandi. Eyjólfur Ármannsson tók virkan þátt í síðasta ársþing ITF, m.a. í pallborði um áfallaþol samgöngumannvirkja.
- Glærur Jari Kauppila á Innviðaþingi
- Upptaka af ávarpi Jari Kauppila á Innviðaþingi
- Vefur Innviðaþings – þar má finna upptökur af öllum ávörpum og kynningarglærur fyrirlesara
- Vefur International Transport Forum (ITF-OECD)