Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samkeppnismat á ferðaþjónustu og byggingariðnaði í samstarfi við OECD

Á næstu misserum munu íslensk stjórnvöld í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina OECD framkvæma samkeppnismat á tilteknum sviðum atvinnulífsins, þ.e. ferðaþjónustu og byggingarinaði. Tilgangur samkeppnismatsins er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi. 

„Það á að vera hlutverk stjórnvalda að passa upp á að regluverk atvinnulífsins sé ekki meira íþyngjandi en nauðsynlegt er og því fagna ég þessu samkeppnismati“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda hverju sinni er að búa atvinnulífinu umgjörð sem styður við þróun þess og er til þess fallin að efla það til lengri tíma. Virk og öflug samkeppni er mikilvægur þáttur í öflugu atvinnulífi og knýr áfram nýsköpun, framþróun og tækniframfarir almenningi og atvinnulífinu í heild sinni til framdráttar. Það er því afar mikilvægt að það regluverk sem hið opinbera setur atvinnulífinu styðji við þessa þætti og feli ekki í sér samkeppnishindranir eða sé óþarflega íþyngjandi. Að búa svo um hnútana er viðvarandi verkefni stjórnvalda og ljóst að lengi má gera betur í þeim efnum og nauðsynlegt að stjórnvöld hverju sinni séu vakandi gagnvart þróun regluverksins og samkeppnisaðstæðum í íslensku atvinnulífi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram að mikilvægt sé að hér á landi sé til staðar umhverfi sem hvetji til nýsköpunar á öllum sviðum samfélagsins og því er mikilvægt að regluverk samfélagsins sé til þess fallið.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með framkvæmd samkeppnismála í Stjórnarráði Íslands og mun hafa umsjón með verkefninu í samvinnu við Samkeppniseftirlitið. Verkstjórn verður í höndum samkeppnisdeildar OECD og verkefnið verður unnið af sérfræðingum OECD í samstarfi við Samkeppniseftirlitið, önnur ráðuneyti og stofnanir. Gera má ráð fyrir því að verkefnið taki 18 – 24 mánuði í framkvæmd auk eftirfylgni að því loknu.


Tilgangur verkefnisins.

Samkeppnismat OECD (Competition Assessment Review) hefur þann tilgang að greina og meta regluverk með tilliti til þess hvort það kunni að hamla samkeppni. Samkeppnishömlur tengdar regluverki geta verið af ýmsum toga. Þar á meðal getur reglubyrði hamlað því að stofnað sé til virkrar samkeppni. Við matið er stuðst við leiðbeiningar OECD og aðferðarfræði um samkeppnismat sem stofnunin hefur unnið að um árabil.

Samkeppnismat má framkvæma á undirbúningsstigi, þ.e. þegar ný lög eða reglur eru mótaðar, og einnig er hægt að meta gildandi regluverk, m.a. af fenginni reynslu. Fyrirhugað verkefni hefur í þessu sambandi tvíþættan tilgang. Annars vegar verður gildandi regluverk á tilteknum sviðum metið, en hins vegar felst einnig í verkefninu kynning og þjálfun sérfræðinga hins opinbera sem vinna við gerð lagafrumvarpa og reglna sem gilda um atvinnulífið. Með því er ætlunin að stuðla að því að stuðst verði við samkeppnismat við undirbúning laga og reglna til framtíðar.

Við útfærslu opinberrar stefnumótunar í löggjöf og reglum standa stjórnvöld oft frammi fyrir mismunandi leiðum að settum markmiðum. Því er mikilvægt að strax á stefnumótunar- og undirbúningsstigi að hugað sé að því hvort leiðir að settum markmiðum  feli í sér duldar eða lítt duldar samkeppnishindranir og sú leið valin sem styður best við samkeppni eða hindrar hana síst. Þannig má oft ná þeim markmiðum sem að er stefnt með minna íþyngjandi hætti gagnvart atvinnulífinu og almannahagsmunum. Þjálfun sérfræðinga hins opinbera að þessu leyti er því mikilvægur þáttur í að ná framangreindum markmiðum um hagstæða umgjörð atvinnulífsins.

Tilgangur verkefnisins er þannig margþættur og getur það nýst stjórnvöldum til framtíðar með aukinni áherslu á samkeppnislega þætti í laga- og reglusetningu. Í verkefninu felst að greina tækifæri til samkeppnislegra úrbóta í regluverki þeirra atvinnugreina sem verða til rannsóknar og í framhaldinu að koma þeim úrbótum í framkvæmd. Verkefnið getur nýst til að draga úr reglubyrði á þeim sviðum sem könnuð verða en óþörf reglubyrði eykur kostnað í atvinnulífinu og dregur úr samkeppni. Þá mun verkefnið geta skapað grundvöll fyrir frekara samkeppnismat og einföldun regluverks annarra greina atvinnulífsins og skapa þekkingu á samkeppnismati við undirbúning nýrra laga og reglna.

Samkeppnismati hefur verið beitt víða um heiminn. Reynslan hefur sýnt að þar sem ráðist hefur verið í umbætur á regluverki til að auka samkeppni hefur samkeppnishæfni og hagvöxtur aukist í kjölfarið. Ástralía hefur allt frá 10. áratug síðustu aldar lagt áherslu á úrbætur á regluverki til að efla samkeppni. Eru þær aðgerðir taldar ein meginástæða þess að hagvöxtur þar í landi hefur allajafna verið meiri en í öðrum OECD ríkjum. Frá árinu 2012 hefur OECD unnið með grískum stjórnvöldum við framkvæmd samkeppnismats og nú er unnið að þriðja verkefninu þess efnis þar í landi. Þá hefur OECD unnið með stjórnvöldum í Portúgal, Rúmeníu og Mexíkó. Í samanburði við framangreind lönd eru líkur á að íslenskt regluverk feli í sér annars konar áskoranir fyrir framkvæmd samkeppnismats.

Framkvæmd samkeppnismats.

Fyrirhugað er að framangreint verkefni taki til tveggja þátta atvinnulífsins, ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Báðir geirarnir eru umfangsmiklir og efnahagslega mikilvægir fyrir íslenskt atvinnulíf og stóðu fyrir um 15% af landsframleiðslu árið 2016.

Við mat á því hvaða svið atvinnulífsins skyldu könnuð voru auk efnahagslegs mikilvægis nokkur sjónarmið höfð að leiðarljósi. Þannig var horft til umfangs verkefnisins og að forræði á regluverkinu væri að meginstefnu til hjá íslenskum stjórnvöldum; að til staðar væru samkeppnishindranir sem væru að einhverju leyti þekktar; að þau svið sem könnuð yrðu störfuðu við töluverða reglubyrði sem mögulegt væri að draga úr; að verkefnið myndi nýtast stórum atvinnugreinum með fjölbreytta starfsemi; að verkefnið myndi nýtast til að efla þá hugmyndafræði sem er grundvöllur samkeppnismats á regluverki og að lokum var horft til reynslu OECD af fyrri verkefnum. Ljóst er að ferðaþjónusta og byggingarstarfsemi falla vel að þessum sjónarmiðum og hafa víðtæka skýrskotun í íslensku samfélagi. Hins vegar er nauðsynlegt að skilgreina betur til hvaða þátta ferðaþjónustu og byggingastarfsemi verkefnið muni taka, því ekki mun reynast framkvæmanlegt að taka til skoðunar allt regluverk sem tengist þessum greinum.

Að verkefninu loknu mun OECD kynna niðurstöður þess í skýrslu og gera tillögur um breytingar sem eru til þess fallnar að bæta skilyrði fyrir virka samkeppni og draga úr reglubyrði.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum