Kafbátaeftirlitsæfing Atlantshafsbandalagsins hafin
Árleg kafbátaeftirlitsæfing Atlantshafsbandalagsins „Dynamic Mongoose 2025“ fer fram dagana 28. apríl til 9. maí á hafsvæðinu á milli Íslands og Noregs. Meginmarkmið æfingarinnar er að efla getu og samhæfingu þátttökuríkjanna við kafbátaeftirlit, yfirborðsvarnir og sameiginleg viðbrögð við aðsteðjandi ógnum.
„Þátttaka og stuðningur við kafbátaeftirlitsæfinguna er mikilvægt framlag Íslands til öryggis- og varna ríkja Atlantshafsbandalagsins, þar með talið Íslands. Hún undirstrikar skuldbindingar okkar, getu og vilja til að beita okkur í spennuástandi og er einnig mikilvægur liður í sameiginlegum fælingarmætti bandalagsins. Aukin áhersla hefur verið lögð á öryggismál á Norður-Atlantshafi undanfarin ár í tengslum við umsvif Rússa á svæðinu og því lykilatriði að æfa og samhæfa varnir okkar og viðbrögð,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Ísland er gistiríki æfingarinnar annað hvort ár til skiptis við Noreg og gegnir því hlutverki í ár og leiðir varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins þátttöku Íslands ásamt varnarmálasviði LHG. Æfingin fer aðallega fram á og við GIUK hliðið (e. Greenland-Iceland-United Kingdom Gap). Hún byrjar við suðvesturströnd Íslands og færist svo austur á hafsvæðið á milli Íslands og Noregs.
Fimm herskip komu til hafnar í Reykjavík í síðustu viku til að taka þátt í æfingunni, en þrjú þeirra eru hluti af fastaflota Atlantshafsbandalagsins. Þá tekur dísilknúinn kafbátur frá Þýskalandi þátt í æfingunni auk kafbátaeftirlitsvéla frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Varðskipið Freyja og TF-SIF taka þátt í hluta æfingarinnar.
Starfsfólk á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli gegnir mikilvægu hlutverki við æfinguna og sér meðal annars um flugeftirlit og -tilkynningar, fjarskipti, upplýsingamiðlun, stuðning við allar einingar og fleira ásamt því að veita hefðbundinn gistiríkjastuðning. Þá munu tveir starfsmenn starfa við flotaherstjórn Atlantshafsbandalagsins í Bretlandi á meðan á æfingunni stendur.