Hoppa yfir valmynd
13. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Viðbótarframlag til Úkraínu vegna vetrarkulda

Selenskí Úkraínuforseti ávarpaði ráðstefnuna í gegnum fjarfundarbúnað frá Kænugarði. Denys Shymal, forsætisráðherra Úkraínu, og Olena Zelenska, forsetafrú Úkraínu ávörpuðu fundargesti á staðnum.  - myndUtanríkisráðuneytið

Ísland leggur þrjár milljónir bandaríkjadala í alþjóðlega sjóði sem hafa það að markmiði að styðja Úkraínu við að takast á við yfirvofandi vetrarhörkur. Tilkynnt var um framlagið á ráðstefnu í París í dag.

Fulltrúar 45 ríkja og á þriðja tug alþjóðastofnana tóku þátt í framlagaráðstefnunni í París í dag sem forsetar Frakklands og Úkraínu, Emmanuel Macron og Volodymyr Selenskí, boðuðu til. Meginumfjöllunarefni ráðstefnunnar var hvernig aðstoða megi Úkraínu í glímunni við vetrarkuldana, nú þegar rússneski herinn hefur eyðilagt stóran hluta af orkuinnviðum landsins. Þá var markmiðið jafnframt að samhæfa aðgerðir ríkja svo unnt sé að bregðast sem best við þörfum Úkraínu.

Á fundinum tilkynnti Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, um framlag Íslands í þágu Úkraínu sem hljóðar upp á þrjár milljónir dala en þegar yfir lauk hafði rúmlega einn milljarður dala safnast á ráðstefnunni.

„Rússnesku innrásaröflin hafa ráðist gegn orkuinnviðum í Úkraínu með kerfisbundnum hætti og þannig gert veturinn að grimmdarlegu vopni. Með því er vegið að lífi og velferð saklausra borgara á svívirðilegan hátt. Eitt brýnasta úrlausnarefnið framundan vegna innrásarinnar er því að styðja við Úkraínu andspænis vetrarhörkunum. Í gær sendum við hlýjan skjólfatnað áleiðis þangað og í dag tilkynnum við um ríflegt fjárframlag til nauðsynlegra innviða. Með þessu leggjum við okkar af mörkum í samræmi við mikilvægustu þarfir úkraínsku þjóðarinnar um þessar mundir, “ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Framlagi Íslands verður annars vegar varið til sjóðs á vegum Alþjóðabankans sem styður rekstur úkraínska ríkisins og hins vegar í Ukraine Energy Support Fund, sérstakan alþjóðlegan sjóð sem hefur það að markmiði að útvega sérhæfðan búnað svo halda megi orkuvinnviðum landsins gangandi.  

Á þessu ári nema samþykkt heildarframlög Íslands til annars vegar mannúðar- og efnahagsaðstoðar og hins vegar varnatengdrar aðstoðar í þágu Úkraínu samtals yfir 2.100 milljónum króna.

  • Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra í París, tilkynnir um framlag Íslands - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum