Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2022 Innviðaráðuneytið

Loftbrú tekur mikilvægt skref

Börn sem eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn með búsetu á landsbyggðinni munu framvegis geta nýtt sér Loftbrú sem veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir áætlunarflug innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Breytingin tók gildi mánudaginn 7. febrúar.

Loftbrú var hleypt af stokkunum í september 2020 með það að markmiði að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Loftbrú veitir afsláttarkjör til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum án vegasambands. Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Rúmlega 60 þúsund íbúar geta nýtt sér Loftbrú en hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að sex flugleggi á ári.

Þá geta börn sem eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en foreldra eða forráðamenn á landsbyggðinni einnig nýtt sér Loftbrúna. Foreldrar og forráðamenn þessara barna geta nú pantað flugfar fyrir þau á afsláttarkjörum. Á þjónustuvefnum loftbru.island.is auðkennir fólk sig með rafrænum skilríkjum og þau sem eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þau sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað. 

Loftbrú hefur verið vel tekið frá því hún var sett í loftið. Tæplega 70 þúsund flugleggir hafa verið bókaðir síðan Loftbrú fór í loftið fyrir tæpum 18 mánuðum. Á einu ári, frá janúar 2021 til janúar 2022, varð 36% aukning á nýtingu Loftbrúar.

Vegagerðin hefur umsjón með Loftbrú fyrir hönd ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum