Hoppa yfir valmynd
4. júní 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 203/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 203/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020054

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. febrúar 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. febrúar 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. desember 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun dagana 7. janúar, 12. ágúst, 14. nóvember og 20. nóvember 2019 ásamt talsmanni sínum. Þá mætti kærandi í tungumála- og staðháttapróf þann 20. ágúst 2019. Með ákvörðun, dags. 5. febrúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. febrúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 11. mars 2020 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. sömu laga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til frásagnar hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að vera frá Hiran héraði í miðhluta Sómalíu, hann hafi orðið fyrir ofsóknum Al-Shabaab og mismunun vegna ættbálkar síns, Madhibaan. Kærandi hafi fæðst í Beledweyne en hafi alist upp og búið í [...] þar til hann hafi flúið Sómalíu árið 2013. Þó hafi hann árin 2004 til 2009 búið hjá frænda sínum í Hargeisa í Sómalílandi. Kærandi kvað föður sinn hafa starfað sem lögreglumann undir stjórn Siad Barre og hann hafi ferðast um Sómalíu vegna starfs síns. Hann hafi kynnst móður kæranda þegar hann hafi verið í norðurhluta landsins vegna vinnu. Móðir kæranda sé ættuð frá Norður-Sómalíu, nú Sómalílandi, og þau hafi flust til Hiran héraðs, þaðan sem faðir hans sé ættaður og stofnað þar fjölskyldu. Þegar stjórn Siad Barre hafi fallið hafi faðir hans lækkað í tign innan lögreglunnar og misst laun, hann hafi því hafið búskap til að sjá fjölskyldunni farborða. Meðlimir Al-Shabaab hafi hins vegar drepið föður kæranda og bróður og þá hafi framfærsla fjölskyldunnar færst yfir á kæranda. Kærandi hafi starfað sem bílstjóri í Sómalíu við það að keyra fólk á milli heimaborgar sinnar og Fer-fer, borgar á landamærum Eþíópíu og Sómalíu. Í einni ferðinni hafi meðlimir Al-Shabaab stöðvað hann stutt frá landamærunum, í Ceel Gaal, og fundið áfengi sem hann hafi verið að flytja til [...]. Kærandi hafi verið beittur ofbeldi og í kjölfarið verið dæmdur til dauða fyrir trúleysi. Kæranda hafi verið bjargað af eþíópíska hernum sem hafi komið honum á sjúkrahús í Mogadishu. Al-Shabaab hafi þá brennt heimili fjölskyldu hans í [...] og öll fjölskyldan því neyðst til að flýja landið.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi lýst heimahéraði sínu í Hiran, heimaborg sinni [...], sem og akstursleiðinni til Fer-fer. Þá hafi hann greint frá ættbálkasamfélaginu í [...] og birtingarmyndum þeirrar mismununar sem meðlimir ættbálks hans, Madhibaan, verði fyrir. Þá hafi komið fram að kærandi eigi ekki lengur fjölskyldumeðlimi í [...], að Al-Shabaab leiti hans ennþá og að honum sé ómögulegt að setjast aftur að í Hargeisa þar sem hann sé sómalskur ríkisborgari sem hafi lent uppá kant við stjórnvöld í Sómalílandi.

Í greinargerð kæranda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við umfjöllun um tungumála- og staðháttapróf. Kærandi vísar til fyrirvara sem settir hafi verið um niðurstöður tungumálaprófsins, en þar komi m.a. fram að meint dvöl kæranda í Hargeisa í og utan Sómalíu kunni að hafa áhrif á talanda hans. Í þeim tilvikum þar sem einstaklingur hafi búið á mörgum stöðum séu möguleikar á ótvíræðri niðurstöðu um tungumál jafnframt takmarkaðir. Telur kærandi að ályktanir Útlendingastofnunar af niðurstöðum tungumálaprófsins séu í ósamræmi við þá fyrirvara sem settir hafi verið við niðurstöðu þess. Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um skólagöngu kæranda. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um ferðalag og dvöl hans í Hargeisa. Byggir kærandi á því að framburður hans hafi verið án misræmis og flest allt megi staðfesta með skoðun landakorta og annarra heimilda. Þá hafi hann sýnt mikla þekkingu á skipulagi og nærumhverfi [...], en við mat á trúverðugleika hans verði í þessu sambandi að hafa hliðsjón af vandræðagangi og misskilningi sem hafi ríkt milli kæranda og fulltrúa Útlendingastofnunar í viðtali.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Suður- og miðhluta Sómalíu og áhrif ættbálka þar í landi. Heimildir beri með sér að öryggisástand á heimasvæði kæranda sé mjög ótryggt, m.a. vegna sjálfsmorðsárása, vopnaðra árása og handahófskenndra morða af hálfu hryðjuverkasamtaka. Yfirvöld beiti borgara sína oft ofbeldi og pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra, auk þess að vera vanmáttug við að tryggja borgurum vernd gegn árásum opinberra sem og óopinberra aðila. Spilling sé víðtæk í Sómalíu. Borgaraleg stjórnvöld hafi ekki stjórn á öryggissveitum landsins og hafi afar takmarkaða getu til að veita almennum borgurum vernd enda friðhelgi þeirra sem brjóti gegn borgurum nær algjör. Í niðurstöðum íslenskra stjórnvalda hafi verið fallist á að ættbálkatengsl séu einn helsti auðkennisþáttur Sómala og að þau skipti máli í öllum þáttum samfélagsins. Ættbálkur kæranda teljist til útskúfaðs minnihlutaættbálks í Sómalíu en heimildir beri með sér að staða Madhibaan sé mjög veik.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga á grundvelli 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Öll fjölskylda kæranda hafi þurft að flýja heimabæinn [...], kærandi hafi sjálfur orðið fyrir ofbeldi af hálfu Al-Shabaab sem hafi dæmt hann til dauða fyrir trúleysi. Þá hafi kærandi og fjölskylda hans orðið fyrir alvarlegri mismunun vegna aðildar að ættbálkinum Madhibaan. Þær ofsóknir sem hann hafi orðið fyrir og yrði fyrir yrði honum gert að snúa aftur til [...] nái því alvarleikastigi að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að veita honum alþjóðlega vernd hér á landi. Í öllu falli sé ljóst að þær ofsóknir nái því stigi séu þær teknar saman í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur annars vegar vegna kynþáttar síns, þjóðernis og aðildar að sérstökum þjóðfélagshópi og hins vegar vegna samansafns athafna, og geti hann hvorki né vilji vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd stjórnvalda í Sómalíu enda séu það m.a. stjórnvöld sem standi að ofsóknunum. Þá geti stjórnvöld ekki eða vilji ekki vernda hann fyrir ofsóknum annarra aðila. Slæmt öryggisástand sé í Sómalíu og Al-Shabaab hafi verið ógnvaldur á heimasvæði kæranda. Ofsóknir þær sem kærandi muni standa frammi fyrir í Sómalíu séu vegna eðlis þeirra, dauði, alvarlegt ofbeldi, alvarleg mismunun og endurtekning alvarlegra brota á ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs, réttinn til frelsis og bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Með því að senda kæranda heim væri brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð krafa um að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu auk þess sem hann eigi á hættu á að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum stjórnvalda og ýmissa hryðjuverkasamtaka þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa heim. Heimildir beri með sér að öryggisástand á heimasvæði kæranda sé mjög ótryggt. Þá beiti yfirvöld borgara sína oft ofbeldi og pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra.

Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til mannréttindabrota sem algeng séu í Sómalíu og til þess stríðsástands sem einkennt hafi bæði Sómalíu og Sómalíland. Þá bendir kærandi á að náttúruhamfarir hafi riðið yfir svæðið m.a. gríðarlegir þurrkar og engisprettufaraldur. Félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki séu afar erfiðar, fjölskylda hans hafi öll flúið frá [...] og hann sjálfur hafi þurft að flýja Sómalíland.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað ungversku flóttamannavegabréfi. Var það mat stofnunarinnar að kærandi hefði leitt líkur að því hver hann sé án þess þó að auðkenni hans teldist upplýst með fullnægjandi hætti. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Var það mat Útlendingastofnunar að ekkert í frásögn kæranda benti til tengsla við önnur ríki en Sómalíu. Því væri ekki tilefni til að ætla að kærandi kæmi frá öðrum ríkjum og fallist á að hann kæmi frá Sómalíu. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi komi frá Sómalíu. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International: Human Rights in Africa: Review of 2019 – Somalia (Amnesty International, 8. apríl 2020);
  • Are Children in South and Central Somalia accessing education, and are they learning? Baseline information (ScienceDirect, 28. janúar 2020);
  • Clans in Somalia (ACCORD, desember 2009);
  • Country Police and Information Note; Somalia: Majority Clans and Minority Groups in South and Central Somalia (version 3.0) (UK Home Office, 1. janúar 2019);
  • Country Policy and Information Note Somalia (South and Central): Security and humanitarian situation (UK Home Office, 1. september 2018);
  • Country Report on Human Rights Practices 2018 – Somalia (US Department of State, 13. mars 2019);• Country Report on Human Rights Practices 2019 – Somalia (US Department of State, 11. mars 2020);
  • Country of Origin Information Report. Somalia (UK Border Agency, 13. nóvember 2009);
  • EASO Country of Origin Information Report. Somalia Security Situation (European Asylum Support Office, 21. desember 2017); • EASO Country of Origin Information Report: South and Central Somalia Country Overview (European Asylum Support Office, ágúst 2014);
  • EASO Somalia – Information on the Somali caste of Madhibans (European Asylum Support Office, 29. janúar 2019);• Hiran – Situation Analysis (United Nations Office for the Coordination of Humanitarian Affairs, október 2012);
  • How Somaliland Combats al-Shabaab (Combating Terrorism Center, nóvember 2019)
  • Report of the Independent Expert on the situation of human rights in Somalia (UN Human Rights Council, 19. júlí 2018);
  • Report of the Secretary-General on Somalia (UN Security Council, 13. febrúar 2020);
  • Säkerhetssituationen i Somalia (Migrationsverket, 3. júlí 2019);
  • Somalia, First Halfyear 2019: Update on incidents according to the Armed Conflict Location & Event Data Project (ACLED) (ACCORD, 19. desember 2019);
  • Somalia: Identitetsdokumenter, sivilregistrering og offentlig forvaltning (Landinfo, 6. mars 2020);
  • Somalia: Puntland, including government structure, security, and access for internally displaced persons from Somalia (Immigration and Refugee Board of Canada, 25. nóvember 2011);
  • Temanotat Somalia: Klan og identitet (Landinfo, 1. október 2015);
  • Update on security and human rights issues in South-Central Somalia, including in Moga-dishu (Landinfo, janúar 2013) og
  • World Report 2020 – Somalia (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Sómalía sambandslýðveldi með tæplega 15 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Þann 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1990 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sama ár. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015. Í gögnunum kemur jafnframt fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mogadishu. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram í gögnum málsins að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og dómstóla.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í landinu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab sem hafi stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Beri Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem hafi kostað hundruð óbreyttra borgara lífið. Í Hiran héraði í miðhluta Sómalíu hafi vopnuð átök geisað frá árinu 2007 en vopnaðir hópar hafi deilt um yfirráð svæðisins. Al-Shabaab hafi komið í veg fyrir að mannúðarsamtök gætu starfað í héraðinu sem hafi haft slæm áhrif m.a. á aðgengi að mat og atvinnu og hafi aðstæður í héraðinu verið mjög bágbornar í langan tíma. Mikið hafi verið um dauðsföll og landflótta, takmarkanir hafi verið á viðskiptum og mikil neyð ríkt í héraðinu. Þann 31. desember 2011 hafi eþíópíski herinn tekið stjórn yfir hluta héraðsins sem hafi opnað á mannúðarstarf á svæðinu.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í kjölfar borgarastyrjaldarinnar árið 1991 hafi ættbálkar í Norður-Sómalíu ákveðið að lýsa yfir sjálfstæði og stofnað lýðveldið Sómalíland. Frá árinu 1991 hafi Sómalíland átt í erfiðleikum með að koma á fót starfhæfu lýðræðisríki en Sómalíland sé ekki viðurkennt af alþjóðasamfélaginu sem sjálfstætt ríki. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 segir að starfandi dómstólar séu í Sómalílandi en í ljósi skorts á reynslumiklum dómurum og fullnægjandi skjalavörslu sé ekki hægt að líta til fordæma. Þá sé mikil spilling í dómskerfinu. Löggjöfin í Sómalílandi sé þrískipt; lög íslam (Sharia), venjubundin löggjöf (xeer) og sett lög. Mikið samspil sé á milli hinna þriggja tegunda löggjafar í Sómalílandi, en vegna annmarka í dómskerfinu sem og í opinberum stofnunum hafi xeer lögin, sem séu aðallega notuð í samskiptum ættbálka, mikið vægi í sómalísku samfélagi. Í dómskerfinu séu ákærðir almennt taldir saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð jafnframt sem gjafsókn standi þeim einstaklingum til boða sem ákærðir séu fyrir alvarlega glæpi. Þá séu réttarhöld í Sómalílandi opin almenningi. Í Sómalílandi sé starfandi lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi og heyri stofnanirnar undir svæðisstjórn Sómalílands en ekki ríkisstjórn Sómalíu. Fyrir utan hefðbundna lögreglu (e. Somaliland Police Force) sé Sómalíland einnig með her (e. Somaliland Army) og fari þessar sveitir aðallega með löggæsluvaldið á svæðinu. Varðandi öryggisástandið í Sómalílandi kemur fram í skýrslu EASO að engin skráð hryðjuverkaárás af hálfu hryðjuverkahópsins Al-Shabaab hafi átt sér stað í Sómalílandi frá árinu 2008 og teljist hópurinn ófær um að framkvæma markvissar árásir á svæðinu. Samkvæmt skýrslu ACCORD sé Sómalíland öruggasta svæðið í Sómalíu og árið 2017 hafi einungis níu einstaklingar látið lífið í Sómalílandi vegna átaka á svæðinu. Í skýrslu Lifos um ættbálkasamfélagið í Sómalíu kemur fram að í starfsliði lögreglunnar í Sómalílandi séu meðlimir allra ættbálkanna og ef einstaklingur sé grunaður um refsiverðan verknað þá séu lögreglumenn frá sama ættbálki til staðar jafnframt sem haft sé samband við ættbálk hins grunaða hverju sinni. Ættbálkasamfélagið sé sterkt í Sómalílandi og sé algengt að deilur séu leystar með samkomulagi samkvæmt xeer lögum á milli ættbálka eða innan ættbálks. Báðir aðilar þurfi að vera sammála um að leysa skuli deiluna með samningi samkvæmt xeer og þurfi hann að vera skriflegur og undirritaður af báðum aðilum. Þá segir í skýrslunni að minnihlutahópi sé, samkvæmt stjórnarskrá Sómalílands, heimilt að neita úrlausn deilu við ættbálk sem sé í meirihluta með samningi samkvæmt xeer og fara frekar með málið fyrir dómstóla.

Í framangreindum gögnum kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir en Isaaq sé stærstur í Sómalílandi. Samkvæmt UNHCR séu þeir ættbálkar sem séu í minnihluta í Sómalíu; Bantu/Jareer Bravense, Rerhamar, Bajuni, Eeyle, Jaaji/Reer Maanyo, Barawani, Galgala, Tumaal, Yibir/Yibron og Midgan/Gaboye. Það að tilheyra ættbálki sem sé í minnihluta leiði ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingur sé í hættu á að verða fyrir ofsóknum. Þá bendi gögn til þess að í norðurhluta Sómalíu m.a. í Sómalílandi, fari ástandið batnandi og að ættbálkar sem séu í meirihluta þar séu umburðarlyndari heldur en á öðrum svæðum í Sómalíu. Minnihlutahópar tilheyri lægstu stétt sómalska samfélagsins, og hafi gert það allt frá því um 1900, og þeir sem tilheyri minnihlutahópi séu oft kallaðir ,,stéttleysingar“ (e. outcaste groups) eða Sab. Til minnihlutahópa teljist m.a. þeir sem tilheyri Midgan, Tumal og Yibro. Midgan séu í dag einnig kallaðir Gaboye, Madhibaan og Musse Deriyo. Þeir sem tilheyri Midgan og búi í Norður-Sómalíu séu kallaðir Gabooye. Þeir sem tilheyri Madhibaan búi í Norður-, Suður- og miðhluta Sómalíu, Hiran, Mogadishu og Kismaio. Heimildum beri saman um að þeir sem tilheyri Midgan hafi ekki tiltekið ættfræðikerfi eða tiltekið landsvæði. Þá sé Midgan ekki nafn á sameiginlegum forföður líkt og eigi við í ættbálkasamfélaginu og þeir geti ekki rakið ættir sínar til spámannsins Mohammed. Ættbálkar í Sómalíu séu skilgreindir eftir getu þeirra til að verja sig. Minnihlutahópar séu venjulega ekki í aðstöðu til að verja sig og í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 segir að dæmi séu um að ættbálkar í meirihluta og minnihluta í norður- og miðhluta Sómalíu hafi átt í eiginlegu viðskiptasambandi sem þjóni hagsmunum beggja ættbálka. Sem dæmi veiti stærsti ættbálkurinn á svæðinu ættbálkinum sem sé í minnihluta vernd í skiptum fyrir vinnuframlag í þeirri starfsgrein sem einkenni þann ættbálk. Samkvæmt framangreindum gögnum virðast Midgan/Gaboye þó ekki hafa átt í viðskiptasambandi við neinn stærri ættbálk en séu í góðu sambandi við aðra minnihlutahópa. Heimildum beri saman um að minnihlutahópar og þá sérstaklega Madhibaan verði fyrir mismunun í sómölsku samfélagi. Þeir verði m.a. fyrir félagslegri, pólitískri og efnahagslegri mismunun og skortir oft lífsnauðsynlega vernd. Í gögnunum kemur fram að þeim sem tilheyra minnihlutahópum sé yfirleitt neitað um eignarrétt að löndum og búfénaði, þátttöku í rekstri fyrirtækja og í stjórnmálum svo dæmi séu tekin. Einstaklingar úr Midgan ættbálkinum séu almennt taldir óhreinir og óæðri í sómalísku samfélagi og samkvæmt þjóðsögum megi rekja það til þess að forfeður ættbálskins hafi borðað kjöt af látinni skepnu en samkvæmt íslamskri og sómalískri menningu sé það óhreint kjöt. Einstaklingum í Midgan sé mismunað í skólakerfinu sem verði til þess að fá börn úr ættbálkinum útskrifist úr skólakerfinu. Þetta hafi orðið til þess að skortur sé á menntuðum einstaklingum í framangreindum ættbálkum sem ýti enn frekar undir fordóma gagnvart ættbálknum á borð við Midgan sem og félagslega undirokun ættbálksins. Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að ekki séu meiri líkur á að einstaklingur sem tilheyri ættbálknum í minnihluta verði fyrir almennu ofbeldi frekar en aðrir Sómalar af meirihluta ættbálkum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna aðildar hans að minnihlutahópnum Madhibaan og af hálfu Al-Shabaab vegna þess að þeir hafi dæmt hann til dauða árið 2012 sökum trúleysis.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að vera fæddur í bænum Beledweyne og uppalinn í bænum [...] í Hiran héraði í miðhluta Sómalíu. Þar hafi hann stundað nám í grunnskóla [...] og eftir útskrift árið 2004 farið í frí norður í Hargeisa í Sómalílandi til frænda síns þar sem hann hafi dvalið árin 2004 til 2009. Árið 2008 hafi kærandi verið dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir meintar njósnir í Sómalílandi. Kærandi hafi því farið aftur til Hiran héraðs árið 2009 þar sem hann hafi dvalið til ársins 2013 þegar hann hafi flúið land. Kærandi hefur greint frá því að engin vandamál hafi verið í [...] borg í Hiran héraði frá árunum 2009 til 2012 en þá hafi vandamál hans byrjað. Kærandi greindi frá því að hafa unnið sem bílstjóri en hann hafi keyrt fólk frá Fer-Fer borg, við landamæri Sómalíu og Eþíópíu, til heimaborgar sinnar. Eftir að faðir hans og bróðir hafi verið myrtir hafi hann þurft að sjá fyrir fjölskyldu sinni og hafi þá farið að smygla áfengi frá Eþíópíu til heimaborgar sinnar. Á leið sinni í gegnum borgina Ceel-Gaab hafi hópur Al-Shabaab stöðvað hann og fundið áfengið. Þeir hafi beitt hann ofbeldi og pyndingum og dæmt hann til dauða vegna trúleysis. Eþíópíska hernum hafi tekist að bjarga kæranda og farið með hann á spítala þar sem hann hafi þurft að dvelja í þrjá mánuði. Al-Shabaab hafi í kjölfarið farið heim til hans að leita hans og þegar móðir hans hafi ekki sagt þeim hvar hann væri hafi fjölskyldunni verið hent út af heimili sínu og kveikt í húsinu. Móðir hans og systur hafi því neyðst til að flýja yfir til Eþíópíu með aðstoð vinar kæranda. Kærandi hafi óskað eftir aðstoð lögreglu sem hafi ekki viljað aðstoða hann vegna hræðslu við Al-Shabaab.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi gengist undir tungumála- og staðháttapróf þann 20. ágúst 2019. Kannað hafi verið hvort kærandi talaði mállýskuna Benadiri, sem töluð sé á því svæði sem kærandi kveðst vera frá, þ.e. í Beledweyne og [...]. Var niðurstaða prófsins sú að miklar líkur væru á því að mállýska kæranda væri ósamrýmanleg tungumálasamfélaginu Benadiri. Í ljósi niðurstöðu prófsins óskaði Útlendingastofnun eftir frekari greiningu á hljóðupptöku viðtalsins þar sem kannað væri hvort tungumál kæranda samræmdist því tungumálasamfélagi er kallist norður sómalska (e. northern Somali). Niðurstöður seinni greiningarinnar voru þær að miklar líkur séu á því að mállýska kæranda sé samrýmanleg tungumálasamfélaginu norður sómölsku sem fyrirfinnist á Puntland svæðinu, í Sómalílandi, svæðum innan Eþíópíu og Djíbúti. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 14. nóvember 2019, var kæranda gefinn kostur á að andmæla niðurstöðu tungumála- og staðháttaprófsins. Kærandi greindi frá því að faðir hans væri frá Suður-Sómalíu en móðir hans kæmi frá Norður-Sómalíu og að börn tali sama tungumál og móðir sín. Þá hafi hann búið í fimm ár í Norður-Sómalíu en hafi hvað lengst búið í Suður-Sómalíu því væri það ekki óeðlilegt að tungumál hans svipaði til norður-sómölsku.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að ótrúverðugt sé að umsækjandi komi frá [...] borg í Hiran héraði. Beri landaupplýsingar það með sér að möguleikar Sómala til að ferðast frá Suður-Sómalíu til Norður-Sómalíu og dveljast þar séu háðir fjölskyldu- og ættbálkatengslum við hinn ráðandi Isaaq ættbálk. Af framburði kæranda megi ráða að hann hafi slík tengsl í Hargeisa borg og hafi hann dvalið þar um árabil. Einnig sé til þess að líta að niðurstöður tungumála- og staðháttaprófs gefi til kynna að miklar líkur séu á að kærandi komi frá Norður-Sómalíu, þ.e. Hargeisa. Þá vísar stofnunin til þess að framburður kæranda um almennt ástand í heimabæ sínum þau ár sem hann hafi dvalið þar og ónákvæmar lýsingar á staðháttum sé í ósamræmi við landaupplýsingar. Útlendingastofnun hafi því lagt til grundvallar að kærandi komi frá Norður-Sómalíu, þ.e. Hargeisa borg í Sómalílandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur einnig fram að framburður kæranda um að hann tilheyri minnihlutaættbálkinum Madhibaan hafi ekki verið trúverðugur. Frásögn hans um ættbálkastöðu sína hafi verið óljós og ekki komið heim og saman við landaupplýsingar um sérkenni, stöðu og innbyrðis tengsl ættbálksins. Hafi því ekki verið lagt til grundvallar í málinu að kæranda tilheyrði minnihlutahópi Madhibaan.

Niðurstaða prófs, eða athugunar á því hvaða mállýsku einstaklingur talar verður ekki talin fela í sér afdráttarlausa niðurstöðu um uppruna eða búsetu viðkomandi einstaklings heldur verður að meta niðurstöðu prófsins í samhengi við önnur gögn máls. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um mállýskur í Sómalíu er ljóst að Benadiri mállýskur eru almennt talaðar á því svæði sem kærandi kveðst hafa alist upp á fram að 14 ára aldri. Þótt taka verði tillit til ytri þátta við mat á uppruna og búsetu, svo sem uppruna fjölskyldumeðlima og búsetusögu umsækjanda, er það mat kærunefndar að niðurstaða framangreindra tungumálaprófa, sem gáfu til kynna að mestar líkur væru á því að kærandi tali mállýskuna northern-Somali, gefi vísbendingu um að kærandi hafi alist upp í norðurhluta Sómalíu.

Til viðbótar við framangreint gætir misræmis í frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og margt í frásögn hans stangast á við upplýsingar úr þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér. Í viðtali þann 7. janúar 2019 kvað kærandi konu sína búa í Eþíópíu en aðspurður í viðtali þann 20. nóvember 2019 kvað hann hana búa í Kenía en móður sína og systkini í Eþíópíu. Þá er ósamræmi í frásögn kæranda af skólagöngu hans milli viðtala hjá Útlendingastofnun og óljóst hvort hann hafi aðeins klárað 8. bekk í grunnskóla eða einnig gengið í menntaskóla. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 14. nóvember 2019, greindi kærandi frá því að hafa stundað nám við grunnskólann [...] í heimabæ sínum í [...] í Hiran héraði til ársins 2004. Samkvæmt þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt var aðgengi að námi í Suður- og miðhluta Sómalíu á þessum árum nánast ekkert. Eftir borgarastyrjöldina árið 1991 hafi menntakerfið í landinu hrunið og nánast öllum skólum lokað. Í kringum árið 1993 hafi nokkrir skólar hafið starfsemi að nýju og þá aðallega í Norður-Sómalíu og hafi börn frá suðurhluta landsins í einhverjum tilvikum verið send norður til að sækja opinbera skóla. Fá börn frá Suður- og miðhluta Sómalíu hafi sótt skóla og talið er að undir 30 prósent barna á grunnskólaaldri hafi almennt sótt skóla í Sómalíu á þessum árum. Það hafi ekki verið fyrr en í september 2012 sem mikilvæg skref hafi verið tekin í átt að því að reisa menntakerfið í Sómalíu að nýju og enn þann dag í dag sé langt í land. Samkvæmt heimildum kærunefndar er grunnskóli að nafni [...] staðsettur í Hargeisa í Sómalílandi en engar heimildir benda til þess að skóla með sama nafni sé að finna í [...] í Hiran héraði. Samkvæmt landakorti er skólinn staðsettur í nálægð við bæinn Daami þar sem kærandi segist hafa búið hjá frænda sínum í Hargeisa. Telur kærunefnd að af framangreindu megi ætla að kærandi hafi dvalið í Hargeisa á yngri árum og gengið í skóla þar.

Kærandi kveðst hafa ferðast frá [...] í miðhluta Sómalíu til Sómalílands í Norður-Sómalíu árið 2004 án erfiðleika. Á leið sinni norður hafi hann farið í gegnum Puntland. Samkvæmt skýrslu Rauða krossins í Austurríki frá árinu 2009 hafi reynst erfitt og hættulegt fyrir þá sem tilheyrðu minnihlutahópum eða ættbálkum úr suðri að ferðast til og frá Puntlandi eða Sómalílandi á þeim árum. Að jafnaði hafi þurft samþykki ráðandi ættbálka á svæðinu sem margir hverjir hafi sett upp eftirlitsstöðvar á vegum inn á landsvæðin. Kærandi hefur greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun og í greinargerð sinni til kærunefndar að tilheyra ættbálki að nafni Madhibaan. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 12. ágúst 2019, hafi kærandi greint frá því að Madhibaan sé nafn á forföður hans en hann hafi ekki vitneskju um þýðingu nafnsins að öðru leyti. Þá hafi hann verið beðinn að rekja ættir sínar. Í viðtali, dags. 20. nóvember 2019, hafi kærandi verið beðinn að rekja ættir sínar að nýju og má þar sjá nokkuð misræmi í upptalningu frá fyrra viðtali. Samkvæmt skýrslu evrópsku flóttamannastofnunarinnar frá því í janúar 2019 er Midgan minnihlutahópur í Sómalíu en tilheyri ekki ættbálkakerfi landsins. Litið hafi verið á hópinn sem óæðri allt frá því snemma um 1900 og hafi þeim m.a. verið meinað að ganga í skóla og atvinnu. Þeir sem tilheyri hópnum kjósi sumir að kalla sig Madhibaan. Orðið Madhibaan þýði meinlausir (e. harmless) og þeir sem tilheyri minnihlutahópi Midgan eigi ekki sameiginlegan forföður eða tiltekið ættarkerfi líkt og eigi við um ættbálka landsins. Með vísan til mikilvægis ættbálkasamfélagsins í Sómalíu telur kærunefnd frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun hvað minnihlutahópinn Madhibaan varðar ekki til þess fallna að auka á trúverðugleika frásagnar hans í heild. Hafi kærandi getað ferðast milli suður- og norðurhluta landsins á þessum árum án vandkvæða má einnig telja ólíklegt að hann tilheyri minnihlutahópnum Madhibaan.

Kærandi greindi frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hafa farið frá Hargeisa aftur til [...] árið 2009 og búið þar án vandkvæða til ársins 2012 þegar vandamál hans hafi byrjað. Líkt og áður hefur komið fram kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið um Sómalíu að vopnuð átök hafi geisað í Hiran héraði frá árinu 2007 til loka árs 2011. Mikil neyð hafi ríkt í héraðinu, skortur á mat og atvinnu og aðstæður almennt verið mjög bágbornar í langan tíma. Al-Shabaab hafi verið ráðandi á svæðinu og mikið hafi verið um dauðsföll og landflótta. Er frásögn kæranda um framangreind atriði þannig ekki í samræmi við þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér og því ekki til þess fallin að auka við trúverðugleika frásagnar hans.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dags. 14. og 20. nóvember 2019, var kærandi spurður hinna ýmsu spurninga varðandi þekkingu hans á því svæði sem hann kveðst vera frá. Í viðtölunum taldi kærandi upp hinar ýmsu borgir og þorp á því svæði sem hann kveðst hafa alist upp á. Kærandi greindi frá því í viðtali þann 14. nóvember 2019 að hann kæmi úr hverfi innan [...] sem nefnist [...]. Aðspurður um nöfn á moskum í [...] svaraði kærandi einungis að þar væru margar moskur. Þá voru lýsingar hans af bænum með almennum hætti og vísaði hann m.a. til þess að þar væri stór bóndabær, stór moska og kínverskir vatnsbrunnar. Þrátt fyrir að kærandi hafi einhverja þekkingu á staðháttum í kringum bæinn [...] og ekki sé útilokað að hann hafi dvalið á því svæði á einhverjum tímapunkti er það mat kærunefndar að frásögn hans sé almenn og ólíklegt að hann hafi dvalið meiri hluta ævi sinnar í [...].

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram fæðingarvottorð og auðkennisvottorð þar sem fram kemur að hann sé fæddur í Beledweyn. Framlögð gögn voru send til rannsóknar hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og var niðurstaða rannsóknarinnar sú að vottorðin væru ótrúverðug auk þess sem fingrafar annars skjalsins samræmist ekki fingrafari kæranda. Þá lagði kærandi einnig fram sakavottorð sem metið var afar ótraustvekjandi. Með tölvupósti kærunefndar dags, 5. maí 2020, var kæranda gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum varðandi skjalarannsókn lögreglunnar. Með tölvupósti, dags. 11. maí 2020, óskaði kærandi eftir því að koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi rannsókn lögreglunnar. Kærandi hafni því alfarið að þær upplýsingar sem komi fram í skjölunum séu rangar, hvað þá að skjölin séu fölsuð. Hann hafi óskað eftir fæðingar- og auðkennisvottorðum til að geta sannað á sér deili hér á landi. Ættmenni hans í Sómalíu hafi leitað til sómalskra yfirvalda í hans umboði og réttmæt stjórnvöld hafi því gefið út vottorðin. Fingrafarið sé fingrafar ættingja hans enda hafi kæranda sjálfum verið ómögulegt að gefa það enda víðsfjarri. Sakavottorðið hafi frændi kæranda fengið í Hargeisa. Enska sé ekki viðurkennt opinbert tungumál í Sómalíu og því ekki að furða að í skjalinu séu stafsetningarvillur. Hafa þurfi í huga að Sómalía hafi verið í helgreipum borgarastríðs, hryðjuverkaárása og ýmissa náttúruhamfara í nær þrjátíu ár. Innviðir ríkisins séu í molum og stjórnsýslan veik og vanbúin. Þá mótmælir kærandi því sérstaklega að gerð sé athugasemd við gögn sem séu til rannsóknar þegar þau séu í samræmi við samanburðargögn. Að mati kærunefndar hafa athugasemdir kæranda ekki áhrif á niðurstöðu rannsóknar lögreglu hvað varðar trúverðugleika skjalanna. Heimildir sem kærunefnd hefur kynnt sér um skilyrði útgáfu slíkra skjala í Sómalíu og áreiðanleika þeirra styðja ennfremur við þá niðurstöðu lögreglu. Hafa skjölin, og þær upplýsingar sem þau hafa að geyma, þar af leiðandi takmarkað sönnunargildi í málinu.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið um framburð kæranda telur kærunefnd að leggja megi til grundvallar að hann hafi að einhverju marki ferðast um eða verið búsettur í suður- eða miðhluta Sómalíu. Þegar frásögn kæranda, gögn málsins og almennar upplýsingar um heimaland hans eru hins vegar metin heildstætt er það mat kærunefndar að frásögn kæranda af því að hafa alist upp í [...] í Hiran héraði í miðhluta Sómalíu og dvalið þar meirihluta ævi sinnar sé ótrúverðug. Verður því lagt til grundvallar í málinu að kærandi komi frá Hargeisa í Sómalílandi í Norður-Sómalíu og hafi að mestu leyti verið búsettur þar. Samkvæmt framangreindu er það einnig mat kærunefndar að ótrúverðugt sé að kærandi tilheyri minnihlutahópi Madhibaan og verður það ekki lagt til grundvallar í málinu.

Kærandi greindi frá því að óttast hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab, þau hafi beitt hann ofbeldi og pyndingum vegna áfengissmygls. Kærandi greindi einnig frá því að hafa verið handtekinn í Hargeisa og dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir meintar njósnir. Hann geti því ekki snúið þangað aftur. Framangreind gögn um Sómalíland bera með sér að öryggisástand þar sé almennt tryggt og verði kærandi fyrir ofbeldi við endurkomu til Sómalílands eigi hann þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Í skýrslu EASO kemur fram að engin skráð hryðjuverkaárás af hálfu hryðjuverkahópsins Al-Shabaab hafi átt sér stað í Sómalílandi frá árinu 2008 og teljist hópurinn ófær um að framkvæma markvissar árásir á svæðinu. Í Sómalílandi sé starfandi lögregla og her, saksóknari og dómstólar. Í dómskerfinu séu ákærðir almennt taldir saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð jafnframt sem gjafsókn standi þeim einstaklingum til boða sem ákærðir séu fyrir alvarlega glæpi. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram áðurnefnda sakaskrá frá Sómalílandi þar sem fram kemur að kærandi eigi yfir höfði sér 20 ára fangelsisrefsingu fyrir meintar njósnir. Sakaskrá þessi hefur verið metin ótrúverðug hjá lögreglu og er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið handtekinn í Sómalílandi eða að hans bíði þar fangelsisrefsing.

Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sætt ofsóknum eða að hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Þó fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í dómskerfinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í Sómalílandi geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi því raunhæfa möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í Sómalílandi telji hann sig þurfa þess.

Hvað varðar tilvísun kæranda til ákvarðana Útlendingastofnunar í málum nr. 2019-01841 og 2019-11473 tekur kærunefnd það fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Jafnframt telur kærunefnd að málsatvik og aðstæður aðila þeirra mála séu ekki sambærilegar þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð byggir kærandi á því að mannréttindabrot séu algeng í Sómalíu og að stríðsástand hafi einkennt Sómalíu og Sómalíland. Því til viðbótar hafi náttúruhamfarir riðið yfir svæðin, m.a. gríðarlegir þurrkar og engisprettufaraldur. Þá hafi fjölskylda hans flúið Bulo-Burte og hann muni því koma til með að búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Beri þannig að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til niðurstöðu kærunefndar að framan verður ekki talið að aðstæður kæranda í Sómalílandi verði slíkar að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun kom fram að kærandi væri almennt við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 18. desember 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 460/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júlí 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum