Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Bíltæknirannsóknum verði komið í fastan farveg

Bíltæknirannsóknir sem unnar eru í kjölfar alvarlegra umferðarslysa geta gefið mikilvægar upplýsingar um orsök slysa, ástand ökutækja og fleira. Brýnt er að mati Rannsóknarnefndar umferðarslysa að slíkum rannsóknum sé komið í varanlegan og samræmdan farveg á landinu öllu.

Bíltæknirannsóknir ræddar á Selfossi.
Bíltæknirannsóknir ræddar á Selfossi.

Lögreglan á Selfossi átti nýverið fund með Kristjáni L. Möller samgönguráðherra, fleiri fulltrúum ráðuneytisins, fulltrúum Rannsóknarnefndar umferðarslysa og þeim starfsmönnum sem kallaðir hafa verið til vegna bíltæknirannsókna, Snorra Konráðssyni og Guðmundi Böðvarssyni. Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og lögreglulið hans segja að lögreglan á Selfossi geti boðið húsnæði þar sem koma megi upp aðstöðu til bíltæknirannsókna sem nýst geti öllu landinu. Býðst embættið til að standa undir húsnæðiskostnaði í allt að 10 ár en leggja þarf í um það bil 5 milljóna króna fjárfestingu vegna verkfæra og búnaðar til að unnt sé að sinna rannsóknum á ökutækjum eftir umferðarslys. Telur Ólafur Helgi að reynslan hafi þegar sýnt að slíkar rannsóknir séu órjúfanlegur hluti lögreglurannsóknar og gagnaöflunar þegar alvarleg umferðarslys eru annars vegar. Segir hann lögreglumenn embættisins hafa mikla reynslu af slíkum rannsóknum sem séu jafnan yfirgripsmiklar og kosti mikla vinnu.

Varpa ljósi á orsakir slyss

Forsaga málsins er sú að á liðnu hausti rann út samningur milli Ríkislögreglustjórans og Fræðslumiðstöðvar bílgreina (FMB) sem fól í sér að í kjölfar alvarlegra bílslysa gat lögreglan kallað til sérfræðinga FMB. Hófst rannsókn þeirra á slysavettvangi en síðan voru bílar rannsakaðir ítarlega í aðstöðu FMB. Gögn úr þessum rannsóknum eru notuð bæði í skýrslur lögreglunnar og RNU. Slík gögn geta varpað ljósi á orsakir slyss, hvað kann að hafa gerst í aðdraganda þess, hraða ökutækja og hvert ástand viðkomandi bíla hefur verið. Fyrrgreindur samningur var til skamms tíma og fljótlega eftir að hann rann út var Fræðslumiðstöð bílgreina lögð niður.

Lögreglan á Selfossi hefur fengið starfsmennina sem unnu að rannsóknunum til liðs við sig nokkrum sinnum á þessu ári og greitt kostnað við útkall þeirra. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn, Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Ágúst Mogensen, forstöðumaður RNU, eru sammála um þýðingu þessara rannsókna og telja brýnt að þeim verði haldið áfram. Segir Ágúst rannsóknirnar hafa verið framfaraskref og þær hafi gefið mikilvægar upplýsingar sem nota megi til forvarna í umferðaröryggismálum. Segir hann lögregluna á Selfossi standa mjög framarlega við rannsóknir umferðarslysa og gengið einna lengst í því að nýta sér nýjustu tækni við rannsóknirnar á undanförnum árum..

Dæmi um notagildi upplýsinga sem fram koma við bíltæknirannsóknir er ástand ökutækis. Komið hefur í ljós að hemlar hafa verið í ólagi, bílar ekki verið skoðaðir á réttum tíma og eitt tilvik má nefna þar sem RNU sendi gögn og ábendingar til Umferðarstofu þegar í ljós kom að styrkur bíls hafði verið rúinn eftir alls ófullnægjandi viðgerð á burðarbitum.

Verði á forræði lögreglu

Talið er heppilegast að lögreglan annist forræði bíltæknirannsókna. Rannsóknarmenn RNU mæta á vettvang alvarlegra bílslysa og vinna eigin gagnasöfnun og rannsókn. Samkvæmt lögum um RNU má lögreglan ekki nota gögn nefndarinnar í opinberum málum en RNU getur notast við gögn lögreglu í rannsóknum sínum. Rannsókn lögreglu snýst bæði um að varpa ljósi á tildrög slyss, hvort brot kunni að hafa verið framin og í framhaldinu hvort efni sé til ákæru vegna refsimáls. Tilgangur rannsóknar RNU snýst hins vegar eingöngu um tildrög og orsakir og í framhaldinu hvort unnt sé að draga lærdóm af slysi hvort sem orsakir eru raktar til ökutækis, ökumanns eða umhverfisins.

Kristján L. Möller samgönguráðherra þakkaði Ólafi Helga sýslumanni og mönnum hans fyrir fróðlegan fund og frumkvæði þeirra og sagði tilboð lögregluembættisins verða kannað í samgönguráðuneytinu. Kvað hann ljóst að vel þyrfti að vanda til slysa- og bíltæknirannsókna og huga vel að hvers kyns ábendingum varðandi umferðaröryggi sem slíkar rannsóknir leiddu af sér.

Bíltæknirannsóknir ræddar á Selfossi.
Samgönguráðherra hjá lögreglunni á Selfisso. Frá vinstri: Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Kristján L. Möller samgönguráðherra, Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og Oddur Árnason yfirlögregluþjónn.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira