Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Tillögur um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Starfshópur sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fól að gera tillögur um horfur og hlutverk Íbúðalánasjóðs til framtíðar hefur skilað ráðherra tillögum sínum og kynnti hann skýrslu hópsins á fundi ríkisstjórnar í dag. 

Guðbjartur segir að Íbúðalánasjóður hafi lengi verið hornsteinn húsnæðismála hér á landi: „Það er mikilvægt að skýrsla starfshóps um framtíðarhlutverk sjóðsins sé nú komin fram til skoðunar og umræðu en ég legg áherslu á að við hröpum ekki að niðurstöðum heldur ræðum um alla þætti málsins og mótum okkur skýra þverpólitíska framtíðarsýn í þessum mikilvæga málaflokki.“

Velferðarráðherra skipaði starfshópinn 22. janúar sl. til að fara yfir framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk sjóðsins og gera tillögur með það að markmiði að rekstur hans geti staðið undir sér. Hópnum var einnig ætlað að fylgjast með framgangi aðgerða sem bæta eiga eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs og tryggja rekstur hans til lengri tíma. 

Niðurstöður hópsins eru settar fram í þremur hlutum. Í fyrsta lagi er fjallað um þau markmið Íbúðalánasjóðs sem hópurinn telur að eigi að vera óbreytt, í öðru lagi eru tillögur um breytt fyrirkomulag á fasteignalánamarkaði sem stefna beri að til lengri tíma og í þriðja lagi tillögur um viðbrögð við núverandi vanda sjóðsins.

Íbúðalánasjóður starfi áfram í almannaþágu

Starfshópurinn telur að Íbúðalánasjóður eigi áfram að starfa í almannaþágu. Það geri hann með útlánum til eigna undir skilgreindum verðmörkum og útlánum til þeirra sem hafa leigu á húsnæði að langtímamarkmiði án hagnaðarsjónarmiða. Jafnframt skuli sjóðurinn vera til taks komi til markaðsbrests með útlánum sem tryggja virkni húsnæðismarkaðarins og jafna aðgengi heimila í landinu að lánsfé á viðráðanlegum kjörum.

Dregið úr áhættu ríkissjóðs

Lagt er til að dregið verði eins og kostur er úr ábyrgð ríkisins á framtíðarskuldbindingum sjóðsins, áhætta sjóðsins af lánveitingum verði minnkuð og lánskjör lántakenda verði bætt með aukinni samkeppni á útlánamarkaði. Helstu leiðir að þessum markmiðum felast í því að viðhalda þröngum verðmörkum vegna útlána og lækka þannig heildarútlánin jafnframt því að hætta eða draga verulega úr nýrri fjármögnun Íbúðalánasjóðs sem ber ríkisábyrgð. Auk þessa er miðað við að hlutfall lána til einstaklinga fari ekki yfir 80% af verðmati húsnæðis líkt og nú er og að gildandi reglur um lán til þeirra sem hafa útleigu húsnæðis að langtímamarkmiði án hagnaðarsjónarmiða haldist óbreyttar.

Stofnun heildsölubanka

Starfshópurinn leggur til að í samráði við Samtök fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóð og aðra hagsmunaaðila verði stofnaður sjálfstæður heildsölubanki með aðild lánveitenda, án hagnaðarkvaðar, og verði öllum fjármálastofnunum sem uppfylla tiltekin skilyrði boðin aðild að honum. Hlutverk heildsölubankans væri að gefa út stóra markaðshæfa skuldabréfaflokka á hagstæðum kjörum og að fjármagna bæði verðtryggð og óverðtryggð lán. Þannig megi bæta lánskjör lántakenda með aukinni samkeppni á útlánamarkaði auk þess sem dregið er úr ábyrgð ríkisins á framtíðarskuldbindingum Íbúðalánasjóðs þar sem sjóðurinn fjármagni sig á markaði í gegnum heildsölubankann. Bein pörun lánaskilmála, að því marki sem hægt er, tryggir áhættujafnvægi milli fjármögnunar og lánveitingar á einum mikilvægasta eignamarkaði hagkerfisins. Hlutverk heildsölubankans myndi einungis lúta að því að fjármagna útlán fyrir hönd Íbúðalánasjóðs og fjármálafyrirtækja en gert er ráð fyrir að viðskiptasamband lántakenda yrði við einstakar lánastofnanir.

Aðgerðir vegna núverandi rekstrarvanda

Frá árinu 2007 til 2012 jókst rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs úr 945 m.kr. í 2.665 m.kr. Eiginfjárhlutfall sjóðsins var um síðustu áramót 3,2% en langtímamarkmiðið er 5,0%. Til að bæta stöðu sjóðsins leggur starfshópurinn til að skilið verði á milli útlánastarfsemi sjóðsins og umsýslu fullnustueigna, dregið verði úr uppgreiðsluáhættu eins og kostur er, leitað verði allra leiða til að koma handbæru fé í ávöxtun og dregið úr vanskilum með bættum innheimtuferlum og úrræðum fyrir skuldug heimili.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum