Hoppa yfir valmynd
11. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Tæplega 26 milljónir króna til mannúðaraðgerða í Sýrlandi

Ljósmynd: ICRC / Ali Yousef - mynd

Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, sendi í vikunni 25,7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðgerða Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi (ICRC) og sýrlenska Rauða hálfmánans. Þetta er þriðja framlagið sem Rauði krossinn á Íslandi sendir á árinu til verkefna í Sýrlandi. Alþjóðaráð Rauða krossins kallaði á dögunum eftir auknum stuðningi ríkja og landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans til mannúðaraðgerða í Sýrlandi og ákvað Rauði krossinn á Íslandi að verða við þeirri beiðni. Samtals hefur Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, styrkt mannúðaraðgerðir Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi um 67 milljónir króna á þessu ári.

Ekki sér enn fyrir endann á átökunum í Sýrlandi sem staðið hafa yfir frá árinu 2011 með tilfallandi eyðileggingu og mannfalli. Heilu íbúðahverfin, verslanir, vatns- og rafveitukerfi eru eyðilögð eða skert á ýmsum svæðum, ásamt skólum, sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Sýrlendingar búa því ekki einungis við daglega ógn átaka heldur einnig takmarkaðan aðgang að helstu lífsnauðsynjum ásamt almennri læknisþjónustu og eru algjörlega háðir utanaðkomandi mannúðaraðstoð. Á þeim svæðum sem dregið hefur úr átökum hafa margir íbúar ákveðið að snúa aftur til sinna heimkynna en mæta þó skertri eða engri þjónustu, á meðan átök brjótast út á nýjum svæðum sem hafa í för með sér enn frekari eyðileggingu og fólksflótta. Milljónir íbúa, bæði fullorðnir og börn hafa flúið heimili sín, særst og látist í átökunum. Þúsundir einstaklinga eru í haldi eða eru horfnir og fjöldi fólks hefur misst samband við fjölskyldumeðlimi. Handahófskennd eyðilegging eigna, ólögleg upptaka þeirra og stuldur er og verður einnig mikilvægt áhyggjuefni framtíðar.

Alþjóðaráð Rauða krossins ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum hefur unnið sleitulaust að því að koma til móts við lífsnauðsynlegar þarfir landsmanna, m.a. hvað varðar mat, vatn og hreinlætisaðstöðu, með stuðningi við starfsemi tjaldbúða fyrir fólk á vergangi og fólk sem snúið hefur aftur til sinna heimkynna. Einnig vinnur Alþjóðaráðið að því að laga vatns- og rafveitukerfi á þeim svæðum sem hafa orðið hvað verst úti og styður starfsemi heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa sem orðið hafa fyrir árásum og eyðileggingu, allt til að stuðla að ákveðinni samfellu í veitingu nauðsynlegrar grunnþjónustu í landinu. Þá aðstoðar Alþjóðaráðið landsmenn við að að hafa upp á horfnum fjölskyldumeðlimum í gegnum leitarþjónustukerfi Rauða kross hreyfingarinnar sem starfar á heimsvísu.

„Ástandið í Sýrlandi er gríðarlega erfitt. Eyðilegging og það flókna stríðsástand sem þar ríkir gerir það að verkum að stór hluti landsmanna hefur ekki aðgang að nauðþurftum til að lifa af, en umfang átaka og eyðileggingar í landinu er talið vera meira en umfang fáanlegrar mannúðaraðstoðar. Því er mjög mikilvægt að taka þátt í því að auka og efla veitingu óháðrar og hlutlausrar mannúðarastoðar Rauða kross hreyfingarinnar í Sýrlandi og tryggja þannig eftir bestu getu að þolendur átakanna hafi aðgang að lífsbjargandi nauðþurftum“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Eins og áður segir hefur Rauði krossinn á Íslandi styrkt Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauða hálfmánans (ICRC) alls um 67 milljónir króna vegna verkefna í Sýrlandi á árinu, en til viðbótar hafa rúmlega 100 milljónir frá Rauða krossinum á Íslandi, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, runnið til verkefna í nágrannalöndum Sýrlands.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum