Hoppa yfir valmynd
20. september 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 379/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 379/2018

Í stjórnsýslumálum nr. KNU18070035-36

 

Kæra […]

[…]

og barna þeirra

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

Þann 22. júlí 2018 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Makedóníu (hér eftir nefndur M), [...], fd. [...], ríkisborgari Makedóníu (hér eftir nefnd K), ákvarðanir Útlendingastofnunar dags. 3. júlí 2018 um að synja þeim og börnum þeirra […], fd. […], ríkisborgara Makedóníu (hér eftir nefndur A) og […], fd. […], ríkisborgara Makedóníu (hér eftir nefndur B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þann 5. júlí 2018 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar birtar fyrir talsmanni kærenda.

Fyrrgreindar ákvarðanir Útlendingastofnunar eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Í birtingarvottorði sem fylgdi með ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að ákvörðunin var birt talsmanni kærenda þann 5. júlí 2018 og þá kemur einnig fram að talsmaður kærenda hafi tekið sér lögbundinn 15 daga kærufrest til að ákvarða um kæru. Kært var fyrir hönd kærenda þann 22. júlí 2018. Ljóst er því að kærufresturinn, sem var til 20. júlí 2018, var liðinn þegar kæran barst.

Talsmaður kærenda greindi frá því í tölvubréfi, dags. 22. júlí 2018, að hún hefði við birtingu ákvarðananna tekið lögbundinn frest til ákvörðunar fyrir hönd skjólstæðinga sinna, enda hefði þeim ekki verið gert viðvart eða kynnt niðurstaðan, ljóst hafi því verið að nauðsynlegt væri að taka frestinn til að kynna kærendum niðurstöðuna og gefa þeim í kjölfarið færi á að taka ákvörðun um kæru. Þar sem M sé nú í fangelsi í heimaríki og ekki sé vitað um dvalarstað K, A og B hafi talsmaður kærenda átt í erfiðleikum með að ná í kærendur. Þann 22. júlí hafi náðst í M símleiðis þar sem hann kvaðst vilja kæra ákvörðun Útlendingastofnunar jafnframt sem það væri vilji K að kæra ákvörðun í máli hennar og barna þeirra.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga, er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar er m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar sem birtar voru löglærðum talsmanni þeirra hjá Rauða krossinum þann 5. júlí 2018, er að finna leiðbeiningar um kæruleið og kærufresti. Mátti því talsmanni kærenda vera ljóst hvaða reglur giltu um kæru til æðra stjórnvalds. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem talsmanni kærenda voru veittar í ákvörðunum Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt.

Eins og áður hefur komið fram var ákvörðun Útlendingastofnunar birt talsmanni kærenda þann 5. júlí 2018 og var 15 daga kærufrestur skv. 7. gr. laga um útlendinga því til 20. júlí 2018. Kæra barst kærunefnd hins vegar ekki fyrr en 22. júlí sl., eða tveimur dögum eftir að kærufresturinn leið. Kærunefnd telur að þær athugasemdir sem færðar hafa verið fram leiði ekki til þess að afsakanlegt geti talist að kæra hafi ekki borist kærunefnd fyrr. Samkvæmt 41. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er það hlutverk talsmanns að koma fram fyrir hönd umsækjanda og veita honum liðsinni. Talsmanni var því heimilt að kæra fyrir hönd skjólstæðinga sinna þrátt fyrir að hafa ekki náð að afla afstöðu þeirra til kæru teldi hún líkur til þess að þau vildu kæra. Þá bendir kærunefnd á að talsmaður hefði getað afturkallað kæru síðar hefði það ekki verið vilji kærenda að kæra eða ekki hefði náðst í þau til að fá afstöðu þeirra til kæru.

Kærunefnd hefur farið ítarlega yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kærenda, greinargerð talsmanns, þýðingar á framlögðum gögnum og læknisfræðileg gögn. Að mati nefndarinnar er ljóst af gögnum málsins að ekki sé um slíkt fordæmisgefandi mál að ræða að rétt sé að gera undanþágu frá ákvæðum laga um kærufrest. Þá telur kærunefnd einnig að hagsmunir kærenda eða almannahagsmunir séu ekki þess eðlis að taka skuli málin til meðferðar.

Í ljósi alls ofangreinds er það mat kærunefndar að þær ástæður sem kærendur bera fyrir sig teljist ekki veigamiklar í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, eða að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist innan þess tímaramma sem lögin áskilja.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kæru þessari er vísað frá.

 

This appeal is dismissed.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum