Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2023 Matvælaráðuneytið

Sjávarútvegsstefna og frumvarp til laga um sjávarútveg í samráðsgátt

Birt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda drög að sjávarútvegsstefnu áamt drögum að frumvarpi til laga um sjávarútveg.

Drög að sjávarútvegsstefnu innihalda framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs til 2040. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg til að stuðla að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Í stefnunni er lögð áhersla á sjálfbæra auðlindanýtingu í hafi, vöktun og viðbrögð við breytingum í lífríkinu, aukna þekkingu á hafinu með rannsóknum og menntun, hagkvæmni og verðmætasköpun, samfélag, jafnrétti, fæðuöryggi og matvælaöryggi.

Drög frumvarpsins taka mið af þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, umhverfi, efnahag og samfélagi. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um sjávarútveg þar sem sameinaðir eru núgildandi lagabálkar á sviði fiskveiðistjórnunar, til að tryggja betri yfirsýn um þær reglur sem gilda um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar. Frumvarpið byggir að miklu leyti á núgildandi lögum en þó er í frumvarpinu að finna nýmæli úr tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar sem kynntar voru 29. ágúst 2023 í skýrslunni Sjálfbær sjávarútvegur. Í frumvarpinu er lögð áhersla á umhverfisþátt sjálfbærrar þróunar. Lagt er til að nýting nytjastofna taki mið af vistkerfis- og varúðarnálgun. Þá er kveðið á um verndarsvæði í hafi og stýring veiðiálags miðist við veiðarfæri og umhverfisáhrif þeirra. Einnig er lögð áhersla á að auka gagnsæi, m.a. er varðar eignar- og stjórnunartengsl útgerða, aðgengi að gögnum og birtingu upplýsinga.

Sjávarútvegsstefnan og frumvarpið taka einnig mið af matvælastefnu til 2040 og fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028.
Helstu nýmæli frumvarps til laga um sjávarútveg eru:

  • Vistkerfis- og varúðarnálgun verði beitt með skýrari hætti en mælt er fyrir um í núgildandi ákvæðum laga.
  • Verndarsvæði í hafi. Ráðherra verði veitt heimild til að kveða á um vernd svæða þar sem nýting nytjastofna er takmörkuð eða bönnuð.
  • Fiskveiðiárið verði almanaksárið í stað 1. september til 31. ágúst.
  • Tegundum veiðarfæra verði beitt sem stjórntæki til að stýra veiðiálagi í stað þess að stærð skipa sé beitt sem stjórntæki. Áfram er þó í frumvarpinu mælt fyrir um stærð krókaaflamarksbáta.
  • Mörk hámarksaflahlutdeildar verði rýmkuð hjá félögum sem skráð eru á markað,
    hækki um fjórðung og verði 15% og þannig hvatt til dreifðara eignarhalds og aukins gagnsæis um eignar- og stjórnunartengsl.
  • Hugtakið yfirráð verði skilgreint með sama hætti og yfirráð skv. 17. gr. samkeppnislaga.
  • Hugtakið tengdir aðilar nái til fjölskyldutengsla og taki til maka, sambúðarfólks, skyldmenna í beinan legg og fyrsta legg til hliðar, til samræmis við ákvæði um minnihlutavernd í lögum um hlutafélög.
  • Sérregla um hlutdeildartengsl. Lagt er til að aflahlutdeild félags teljist að hluta til hjá eiganda að 20% eða meira í réttu hlutfalli við atkvæðisrétt hans í félagi.
  • Aðlögunarfrestur. Útgerðir hafi þrjú ár til að aðlaga sig að breyttum reglum, ef þær fara yfir mörk hámarksaflahlutdeildar skv. frumvarpinu.
  • Upplýsingaskylda lögð á stærri útgerðir. Þeim beri með reglubundnum hætti að veita Fiskistofu upplýsingar um eignarhald og eignartengsl.
  • Eftirlit Fiskistofu og öflun gagna. Lögð er til viðvarandi eftirlitsskylda með eignarhaldi og eignatengslum og stofnuninni fengnar skýrari heimildir til að afla gagna til að sinna eftirliti sínu.
  • Opinber birting á upplýsingum, m.a. um skiptingu aflahlutdeilda, eignarhald, eignartengsl og viðurlagaákvarðanir.
  • Markmið og mælikvarðar byggðakerfa, strandveiða, aflamarks Byggðastofnunar og innviðastuðnings, verði lögfest.
  • Innviðastuðningur til sjávarbyggða komi í stað almenns byggðakvóta. Í samráði eru lagðar til tvær útfærslur á innviðastuðningi.
  • Veiðigjald á uppsjávarfiski hækki úr 33% í 45% og samhliða verði fellt niður 10% álag á uppsjávarfisk. Þá er lagt til að felld verði brott ákvæði um að veiðigjald sé rekstrarkostnaður sem heimilt sé að draga frá tekjum.
  • Viðurlagaheimildir Fiskistofu skýrðar og henni veitt heimild til að fara fram á úrbætur, heimild til beitingu stjórnvaldssekta og heimild til að ljúka málum með sátt.
  • Skel- og rækjubætur verði skertar um 25% á ári á 4 ára tímabili og úthlutun bóta verði hætt 31. desember 2028.
  • Línuívilnun verði skert um 25% á ári á 4 ára tímabili og línuívilnun verði felld niður 31. desember 2028.

Drög sjávarútvegsstefnu, drög frumvarpsins og minnisblað um útfærslu innviðaleiðar hafa verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Þar má einnig nálgast minnisblað um skel- og rækjubætur. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 22. desember 2023.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum