Hoppa yfir valmynd
21. desember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Samið við GL Iceland um Covid-flutninga á höfuðborgarsvæðinu

Covid-19 - myndMynd: Landspítali/Þorkell

Fyrirtækið Gray Line mun annast flutninga Covid-smitaðra á höfuðborgarsvæðinu sem ekki þurfa á flutningi að halda í sjúkrabíl. Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samning um þessa þjónustu við fyrirtækið sem staðfestur hefur verið af heilbrigðisráðuneytinu. Markmiðið er að létta álagi af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem annast sjúkraflutninga. Covid-flutningar hafa verið umfangsmiklir í starfseminni undanfarið og fyrirsjáanlegt að þörf fyrir þessa flutninga mun halda áfram að aukast á næstunni vegna fjölgunar smita. Flutningar samkvæmt samningnum hefjast eins fljótt og auðið er og í síðasta lagi 1. janúar næstkomandi.

Samningurinn tekur til flutnings einstaklinga sem eru smitaðir eða ef grunur leikur á smiti, að því tilskyldu að viðkomandi séu færir um að sitja uppréttir í bíl og þurfi ekki á aðstoð heilbrigðisstarfsmanns að halda meðan á flutningnum stendur. Áskilið er að Gray Line veiti þessa þjónustu að lágmarki þann tíma sem Covid-göngudeild Landspítala er opin sem nú er frá kl. 08.00-23.00 alla daga vikunnar. Einnig skal fyrirtækið tryggja akstur farþega frá göngudeildinni eftir lokun ef þess gerist þörf. Þá er einnig miðað við að hægt sé að óska eftir þjónustu fyrirtækisins vegna flutninga einstaklinga sem eru utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. í sumarhúsabyggðum í grennd við borgina.

Til að byrja með mun Gray Line verða með þrjá bíla til að sinna þessu verkefni en mun fjölga bílum ef þess gerist þörf. Fyrirtækið skal tryggja að bílar sem notaðir eru til flutninganna uppfylli allar öryggiskröfur sem gerðar eru í fólksflutningum og jafnframt að bílarnir og annar búnaður henti til flutninga á smituðu fólki þannig að viðeigandi smitvarnir séu tryggðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum