Hoppa yfir valmynd
22. mars 2010 Félagsmálaráðuneytið

Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun sameinast í einni öflugri vinnumarkaðsstofnun

Frá fundi um sameiningu Vinnueftirlits ríkisins og VinnumálastofnunarStefnt er að því að Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun sameinist um næstu áramót í nýrri og öflugri vinnumarkaðsstofnun. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti áformaða sameiningu á fundi með starfsfólki stofnananna tveggja í morgun.

Áformað er að frumvarp um Vinnumarkaðsstofnun verði að lögum á vorþingi 2010 og að þá verði auglýst eftir forstjóra hennar sem taki til starfa eins fljótt og auðið er. Miðað er við að formleg sameining stofnananna taki gildi 1. janúar 2011 og að starfsemi höfuðstöðvanna verði komin í eitt húsnæði á fyrri hluta ársins.

Öllum starfsmönnum Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins verður boðið starf hjá hinni nýju stofnun og fær forstjóri heimild að lögum til þess að ráða þá án auglýsingar. Alls eru starfsmenn þessara stofnana um 210 talsins, 70 hjá Vinnueftirlitinu og 140 hjá Vinnumálastofnun.

Undirbúningur að sameiningunni hefur staðið yfir um nokkurt skeið og verður frumvarp til laga um nýja Vinnumarkaðsstofnun lagt fyrir Alþingi á næstu dögum. Þess er vænst að með sameiningu stofnananna tveggja fáist betri heildarsýn yfir verkefni þeirra sem öll varða aðstæður á vinnumarkaði á ýmsan hátt. Nýju stofnuninni er jafnframt ætlað að gegna lykilhlutverki við skipulagningu og uppbyggingu starfsendurhæfingar um allt land.

Gert er ráð fyrir að með þessu móti náist umtalsverð hagræðing í rekstri þar sem dregið verður úr yfirbyggingu, stoðþjónusta samnýtt og þjónustustöðvar sem staðsettar eru vítt og breitt um landið sameinaðar í eina þjónustustöð vinnumarkaðsmála á hverjum stað.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði á fundi með starfsmönnum Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar í morgun að framundan blasti við það viðfangsefni að endurskapa öflugan og virkan vinnumarkað. „Nýja Vinnumarkaðsstofnunin mun gegna lykilhlutverki í því að skapa atvinnulífinu og vinnumarkaðinum trausta umgjörð þar sem saman fara sveigjanleiki, öflugt stuðningsnet og aðhald.“

Árni Páll sagði að þótt mikil undirbúningsvinna vegna sameiningarinnar væri þegar að baki væru mörg verkefni framundan sem þyrfti að leysa í góðu samstarfi ráðuneytisins, stjórnenda og starfsfólks Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar auk fulltrúa hagsmunaaðila. Framundan væru samráðsfundir þessara aðila, auk þess sem stefnt væri að því að setja á fót vinnuhópa starfsmanna stofnananna og ráðuneytisins til að vinna að afmörkuðum verkefnum í tengslum við sameininguna.

Um sameiningu Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira