Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 362/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 30. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 362/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050036

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. maí 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. apríl 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 1. mars 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 30. apríl 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 16. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 30. maí 2018. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 31. maí 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stöðu sinnar sem fyrrum lögreglumaður og þátttöku kæranda í verkfalli lögreglumanna þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í borginni […] í […] og tilheyri hann þjóðarbroti […], sem sé minnihlutahópur í landinu. Kærandi hafi starfað sem lögreglumaður í heimaríki. Árið […] hafi lögreglumenn í […] farið í verkfall og hafi kærandi í kjölfarið flækst í baráttu tveggja fylkinga og sé hann því í lífshættu. Kærandi hafi starfað í óeirðalögreglunni og hafi deildin farið í verkfall vegna uppsafnaðra vandamála og mikils líkamlegs og andlegs álags í starfi. Árið […] hafi deild kæranda fengið það verkefni að ná stjórn á […] héraði þar sem átök hafi brotist út á milli […] og […] þjóðarbrotsins sem tilheyri […] trúarbrögðum. Í þeim átökum hafi deild kæranda átt að stilla til friðar og hafi sumir lögreglumenn þurft að vinna nær allan sólarhringinn, allt að 20 klukkustundir án hlés. Ástandið hafi stöðugt versnað og þegar tveir samstarfsmenn kæranda hafi misst lífið í átökunum í október […] hafi lögreglumönnum verið refsað fyrir að standa sig ekki í starfi. Í kjölfarið hafi deild kæranda farið í verkfall og stjórnleysi því ríkt á umræddu landsvæði. Þá hafi lögreglumennirnir fengið fund með [...] landsins í þeim tilgangi að leysa úr deilunni. [...] hafi ákveðið að skipa […] nefnd til að vinna að þessum málum og kveðst kærandi vera einn þeirra manna sem hafi verið skipaður í nefndina. Eftir fundinn með […] hafi hins vegar lítið breyst og hafi deild kæranda því farið í verkfall á ný í þeim tilgangi að fá kröfur sínar uppfylltar. Á þessum tíma hafi enn þá verið miklar deilur og átök á umræddu landsvæði og ástandið því enn mjög ótryggt.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi slasast í átökum og hafi hann aðeins fengið takmarkaðan tíma til að jafna sig af meiðslum sínum þar sem herforinginn hafi þrýst á að stytta veikindaleyfi hans. Kærandi hafi óhlýðnast yfirmanni sínum og neitað að snúa aftur til vinnu þar sem hann hafi ekki treyst sér til þess. Eftir 25 daga hafi kærandi snúið aftur til vinnu vegna þrýstings frá yfirmönnum og hafi hann í kjölfarið verið dæmdur í 10 daga fangelsi jafnframt sem laun kæranda hafi verið lækkuð. Sérstök nefnd innan lögreglunnar hafi ákveðið að kæranda skyldi refsað fyrir að óhlýðnast skipunum. Kærandi hafi upplifað fangelsisvistina sem vanvirðandi meðferð jafnframt sem hann hafi orðið fyrir miklu aðkasti í fangelsinu. Einnig hafi kæranda verið meinað að bera skotvopn í starfi, en þar sem ástandið sé mjög ótryggt telji kærandi sig vera í mikilli lífshættu í starfi þar sem hann sé nú óvopnaður. Stöðug átök eigi sér stað á umræddu svæði og ómögulegt hafi verið fyrir kæranda að fá flutning í starfi.

Þann [...] hafi samstarfsmaður kæranda verið myrtur og hafi kærandi fengið á tilfinninguna að hann yrði næstur. Kærandi hafi óttast ásakanir þess efnis að hann væri hryðjuverkamaður vegna framangreindra deilna og hafi líf hans verið í mikilli hættu. Kærandi hafi því flúið heimaríki í [...] 2017.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi kveður nafn sitt vera á svörtum lista yfirvalda í heimaríki vegna aðkomu sinnar að framangreindum verkföllum, réttindabaráttu innan lögreglunnar og vegna þess að hann hafi óhlýðnast skipunum yfirmanna sinna. Kærandi telji að hann sé næstur til að láta lífið af þeim sem séu á umræddum lista. Aðrir samstarfsmenn kæranda sem hafi verið í sömu stöðu og hann hafi flúið land vegna þessa. Þá sé kærandi hvergi óhultur í heimaríki þar sem hann hafi starfað í öllum héruðum landsins og geti hvergi flúið eða falið sig. Kærandi óttist mjög að vera sendur aftur til heimaríkis þar sem hann sé í lífshættu og verði fangelsaður við komuna til landsins. Þá óttist kærandi bæði yfirvöld og aðra einstaklinga í heimaríki. Kærandi taldi sig ekki geta leitað til annarra stjórnvalda vegna vandamála sinna þar sem sérstakur umboðsmaður muni taka við kvörtun hans og hafa síðan strax samband við yfirmann kæranda.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 komi fram að meðal alvarlegustu mannréttindabrota í landinu séu brot á tjáningarfrelsi borgaranna, óhlutdrægni og skortur á sjálfstæði dómstóla landsins, og verulegar skorður á frelsi fjölmiðla til að sinna störfum sínum. Heimildir hermi að stjórnvöld noti löggjöf gegn hryðjuverkum og löggjöf sem takmarki tjáningarfrelsi og fundafrelsi borgara landsins til þess að kyrrsetja pólitíska aðgerðarsinna og þá sem gagnrýni opinberlega eða harðlega stjórnvöld landsins. Í skýrslunni komi jafnframt fram að einstaklingar geti ekki gagnrýnt stjórnvöld landsins opinberlega án þess að eiga á hættu að verða fyrir hefndum. Þá hafi stjórnvöld gerst sek um að handtaka og fangelsa borgara fyrir slíka háttsemi. Í gildi séu lög sem mæli fyrir um fangelsisrefsingu fyrir ærumeiðingar eða móðganir í garð forsetans, þingsins, hersins eða ríkisstofnana í landinu. Öryggissveitir landsins beiti mikilli hörku gegn verkföllum og mótmælum og handtaki einstaklinga og hneppi í varðhald í margar klukkustundir í senn. Þá sé spilling stjórnvalda útbreitt vandamál í […] sem birtist m.a. í takmörkuðu gagnsæi starfa ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir að gildandi lög í landinu banni spillingu þá sé enginn pólitískur vilji til að framfylgja lögunum. Refsileysi lögreglunnar og embættismanna sem starfi að öryggismálum sé viðvarandi vandamál í heimaríki kæranda.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann geri athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar, en kærandi telji að mat Útlendingastofnunar á stöðu hans í heimaríki og þeirri hættu sem bíði hans verði hann endursendur til heimaríkis sé ófullnægjandi. Kærandi sé fullviss um að hann verði dæmdur í fimm til tíu ára fangelsisvistar verði hann sendur aftur til heimaríkis þar sem hann hafi gengið úr starfi sínu sem lögreglumaður og yfirgefið heimaríki jafnframt sem hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru landi. Mjög hart sé tekið á lögreglumönnum sem gangi úr starfi sínu í heimaríki kæranda, en samkvæmt [...]. gr. hegningarlaga landsins geti einstaklingur sem búi yfir upplýsingum um öryggi ríkisins verið dæmdur til fangelsisvistar í allt að tíu ár. Sem fyrrverandi lögreglumaður yrði mál hans tekið fyrir af sérstökum herdómstól, þar sem málsmeðferðarreglur séu strangari og réttur sakbornings að miklu leyti skertur. Kærandi óttist vanvirðandi og lítillækkandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis jafnframt sem kærandi óttist að hann verði látinn bera ábyrgð á öllu sem hafi farið úrskeiðis í lögregludeild hans eftir að hann hafi gengið úr starfi.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Í d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga segi að þegar 37. gr. sömu laga ræði um þjóðfélagshóp sé m.a. verið að vísa til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hafi sameiginleg einkenni eða bakgrunn sem ekki verði breytt. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til aðildar kæranda að tilteknum þjóðfélagshópi sem lögreglumaður. Þær ofsóknir og það ofbeldi sem kærandi hafi orðið fyrir megi rekja til starfa hans sem lögreglumanns í heimaríki. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Hvað varðar flutning innanlands bendir kærandi á að ekki sé mögulegt fyrir hann að búa annars staðar í heimaríki. Almennt séu ekki forsendur til að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum, enda dugi þá ekki flutningur innanlands. Um sé að ræða einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum kæranda og aðstæðum í landinu. Vísar kærandi til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingurinn er enn þá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá vísar kærandi til athugasemda með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga máli sínu til stuðnings. Kærandi heldur því fram í greinargerð að öryggi sínu sé ógnað hvar sem er í heimaríki hans, en vegna fyrri starfa kæranda sem lögreglumanns og meðferðar stjórnvalda á máli hans geti kærandi ekki búið annars staðar í heimaríki.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi ber fyrir sig að hann hafi orðið fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu stjórnvalda og samstarfsmanna sinna innan lögreglunnar. Af þeim sökum hafi hann ekki möguleika á því að leita aðstoðar lögreglu eða annarra yfirvalda í heimaríki. Almennt ástand í heimaríki sé óöruggt og þá sérstaklega á því svæði sem kærandi hafi starfað sem lögreglumaður. Því sé ljóst að kærandi sé í raunverulegri hættu á því að verða fyrir alvarlegum skaða ef hann verði endursendur til heimaríkis.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] kennivottorði á […]. Kennivottorðið sé illa farið jafnframt sem myndin sé óskýr. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri. Yrði því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Var það mat Útlendingastofnunar að ekkert hefði komið fram við rannsókn málsins sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og rétt væri að leggja til grundvallar að kærandi væri frá […]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að flestir […] séu af þjóðarbroti […], en aðeins 15 % þjóðarinnar skilgreini sig sem […]. […] séu […] og verði ekki fyrir mismunun í […], en mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð samkvæmt stjórnarskrá landsins.

Fyrrgreindar skýrslur gefa til kynna að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að takmörkunum á funda-, fjölmiðla- og félagafrelsi, skorti á sjálfstæði dómsvaldsins, óhóflegri valdbeitingu lögreglu, útbreiddri spillingu og refsileysi opinberra starfsmanna. Þá séu árásir hryðjuverkasamtaka vandamál í […] en slíkar árásir beinist aðallega að lögreglunni, öryggissveitum landsins og hernum. Stjórnarskrá […] kveði á um að allir eigi rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum og að gengið sé út frá því að einstaklingur sé talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð. Þá séu handahófskenndar handtökur refsiverðar samkvæmt lögum, en stjórnvöld noti m.a. löggjöf gegn hryðjuverkum til að þagga niður í einstaklingum sem gagnrýni opinberlega eða harðlega stjórnvöld landsins. Þrátt fyrir að spilling sé bönnuð samkvæmt lögum þá sé refsileysi stjórnvalda vandamál í […].

Rétturinn til verkfalls sé tryggður í lögum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017 geti […] stjórnvöld takmarkað verkföll af ýmsum ástæðum þar á meðal vegna efnahagslegrar kreppu, röskunar á opinberri þjónustu eða ef mótmælin stofni stöðu stjórnvalda í hættu. Samkvæmt fréttamiðlinum […] hafi þúsundir […] lögreglumanna mótmælt fyrir utan skrifstofu forseta landsins […] í […] þann […]. Lögreglumennirnir hafi óskað eftir bættum starfskjörum, stofnun stéttarfélags jafnframt sem krafist hafi verið afsagnar lögreglustjóra landsins. Þá kemur einnig fram í fréttinni að forsetinn hafi fundað með samningsnefnd lögreglumannanna. Þá kemur fram í […] að þann […] hafi um [...] lögreglumenn látið í ljós óánægju sína með æðsta yfirmann lögreglunnar fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í […], en sólarhring áður hafi lögreglumenn í […] mótmælt óásættanlegum vinnuskilyrðum, en óeirðalögreglan hafi verið staðsett þar síðan í […].

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá […] kemur fram að dæmi séu um að […] stjórnvöld gruni einstaklinga sem hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum um þátttöku í alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum og því geti þeir þurft að þola illa meðferð af hálfu stjórnvalda. Í skýrslu frá innflytjenda- og flóttamannanefnd Kanada frá árinu […] kemur fram að lögreglumenn og starfsmenn […] öryggissveita kunni að sæta viðurlögum við endurkomu til landsins fyrir að hafa yfirgefið landið án sérstaks leyfis enda hafi þeir með því gerst liðhlaupar. Þá kemur fram í skýrslu skjalasafns flóttamanna að tveggja til tíu ára fangelsisrefsing liggi við að gerast liðhlaupi til erlends ríkis.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu […] séu engar marktækar skýrslur um aðstæður í fangelsum sem bendi til þess að mannréttindabrot eigi sér stað innan þeirra. Þá sé bannað samkvæmt […] lögum að vista einstaklinga í varðhaldi í öðru húsnæði en því sem sé sérstaklega ætlað til varðhalds jafnframt sem húsnæðið þurfi að vera á skrá saksóknaraembættisins, sem hafi það hlutverk að fylgjast með aðstæðum í fangelsum. Þá heimili […] stjórnvöld Alþjóðaráði Rauða krossins, Rauða hálfmánanum (e. International Committee of the Red Cross) og innlendum mannréttindasamtökum að skoða aðstöðu fanga í fangelsum, á lögreglustöðvum og herstöðvum landsins. Þá komi jafnframt fram í skýrslunni að stjórnvöld í […] hafi á síðustu árum bætt aðstæður í fangelsum ríkisins til að uppfylla alþjóðleg viðmið. Á síðastliðnum árum hafi stjórnvöld unnið að því að fjölga fangelsum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að eldri fangelsin fyllist. Skýrsla sænska utanríkisráðuneytisins frá árinu […] tekur undir að aðstæður í […] fangelsum hafi farið verulega batnandi undanfarin ár.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og að framan greinir kveðst kærandi óttast um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til […]. Kærandi hefur borið fyrir sig að hann verði fyrir ofsóknum í heimaríki af hálfu stjórnvalda vegna stöðu sinnar sem fyrrum lögreglumaður í heimaríki og vegna þátttöku sinnar í verkfalli lögreglumanna árið […]. Nafn kæranda sé á svörtum lista yfirvalda vegna aðkomu hans að verkföllum, réttindabaráttu innan lögreglunnar og vegna þess að hann hafi óhlýðnast skipunum yfirmanna sinna. Þá hafi kærandi ekki möguleika á að leita aðstoðar lögreglu sem sé spillt og engrar verndar sé að vænta frá yfirvöldum í heimaríki kæranda.

Kærandi lagði fram viðbótargögn hjá kærunefnd útlendingamála máli sínu til stuðnings. Um var að ræða myndbönd sem kærandi telur sýna lífshættulegar aðstæður í starfi hans og aðstæður í kjölfar verkfalls lögreglumanna í […]. Meðfylgjandi var einnig mynd af embættiseið sem lögreglumenn þurfi að sverja þegar þeir hefji störf, en þar komi fram að hörð viðurlög séu við því að ganga frá starfsskyldum sínum í […]. Við skoðun á umræddum myndböndum kom í ljós að hvorki er hægt að greina af myndskeiðunum hvenær eða hvar myndböndin hafi verið tekin né hvort kærandi sé í myndböndunum. Fyrra myndabandið virðist vera tekið í yfirgefinni borg þar sem krotað hefur verið á steinveggi borgarinnar […]. Seinna myndbandið sýnir einhvers konar aðgerð lögreglunnar, mögulega gegn mótmælendum. Þann 21. ágúst 2018 lét kærunefndin þýða myndina sem kærandi kvað vera embættiseið lögreglumanna. Í ljós kom að skjalið innihaldi eið eða loforð um að einstaklingur verði trúr föðurlandi sínu og að hann muni halda uppi lögum og reglu í landinu. Engin umfjöllun er í skjalinu um hvaða viðurlög eru við broti á starfsskyldum.

Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga í efa að kærandi hafi starfað sem lögreglumaður í […]. Aftur á móti hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem styðja við frásögn hans af ofsóknum eða öðru áreiti af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem beinist gegn lögreglumönnum sem hafi komið að verkfalli og réttindabaráttu lögreglumanna árið […] eða síðar. Í viðtali við Útlendingastofnun þann 1. mars 2018 var kærandi spurður hvort honum hafi einhvern tímann verið hótað eða beittur ofbeldi og svaraði kærandi því neitandi. Þá gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til kynna að lögreglumenn sem hafi tekið þátt í verkfallinu […] og gegnt sambærilegum störfum og kærandi verði fyrir athöfnum eða áreiti af hálfu stjórnvalda eða annarra einstaklinga sem teljast til ofsókna. Líkt og áður hefur komið fram sé rétturinn til verkfalls tryggður í lögum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þrátt fyrir að spilling fyrirfinnist í stjórnkerfi landsins þá benda ofangreind gögn ekki til þess að […] stjórnvöld haldi úti sérstökum lista yfir þá lögreglumenn sem óhlýðnast yfirmönnum sínum eða þá sem komu að verkfalli eða réttindabaráttu lögreglumanna. Í ljósi framangreinds verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi sætt eða eigi á hættu ofsóknir af hálfu […] yfirvalda, vegna stöðu sinnar sem fyrrum lögreglumaður, sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Líkt og áður segir er krafa kæranda einnig byggð á því að hann eigi yfir höfði sér óréttmæta fangelsisrefsingu í […] þar sem hann hafi gengið úr starfi sínu sem lögreglumaður, yfirgefið […] og sótt um alþjóðlega vernd í öðru landi. Því til stuðnings vísar kærandi í greinargerð í [...]. gr. hegningarlaga […]. Samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar teljast þeir sem flýja saksókn eða refsingu vegna afbrots alla jafna ekki flóttamenn. Þó verður að meta hvort afbrotamaður geti átt á hættu óhóflega refsingu eða hvort ástæða ákæru jafngildi ofsóknum. Einnig geti þurft að meta hvort lög viðkomandi lands séu ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum.

Í öðrum hluta […] hegningarlaga n.t.t. í [...]. gr. laganna er fjallað um brot sem ógna þjóðaröryggi ríkisins. Þar kemur m.a. fram að sá sem ógni varnarmálum þjóðarinnar eða þjóðarbúinu með því að safna saman upplýsingum, hlutum, skjölum eða láta í té leynilegar upplýsingar til erlends ríkis geti átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi eftir því hversu alvarlegt brotið sé. Kærandi kveðst eiga yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist í heimaríki fyrir að hafa gengið úr starfi sínu sem lögreglumaður og yfirgefið […]. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hann búi yfir upplýsingum sem að mati kærunefndar varði öryggi ríkisins sem hann hafi látið stjórnvöldum annarra ríkja í té eða upplýsingar sem að mati kærunefndar ógna þjóðaröryggi eða þjóðarbúi […]. Í greinargerð kveðst kærandi eiga yfir höfði sér refsingu í heimaríki fyrir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í erlendu ríki. Í viðtali við Útlendingastofnun þann 1. mars 2018 sagði kærandi að enginn viti hvar hann sé niðurkominn, en samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um útlendinga er íslenskum stjórnvöldum óheimilt að upplýsa […] yfirvöld um umsókn hans hér á landi. Að mati kærunefndar er kæranda unnt að snúa aftur til heimaríkis án þess að […] yfirvöld viti eða muni komast að því að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að árið […] hafi breytingar verið gerðar á […] hegningarlögum og hafi verið gert refsivert að yfirgefa landið með „óreglulegum“ hætti (e. irregular exit) hvort sem um sé að ræða […] ríkisborgara eða ríkisborgara annarra ríkja. Brot gegn umræddu ákvæði varði tveggja til sex mánaða fangelsi, sekt eða hvoru tveggja. […] ríkisborgari sem brjóti gegn umræddu ákvæði geti átt yfir höfði sér sex mánaða fangelsisrefsingu við endurkomu til landsins. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi þann 20. nóvember 2016 fengið útgefna vegabréfsáritun til Frakklands í […] með gildistíma frá 1. desember 2016 til 27. maí 2017. Í viðtali við Útlendingastofnun þann 3. maí 2017 greindi kærandi frá því að þann 3. apríl 2017 hafi hann flogið frá […] til Frakklands. Kærandi hafi dvalið í Frakklandi í tvær vikur þar til hann hafi komið til Íslands þann 27. apríl 2017. Er það mat kærunefndar að gögn málsins bendi til þess að kærandi hafi yfirgefið […] með löglegum hætti.

Líkt og fram kemur í ofangreindum gögnum kunna lögreglumenn að sæta viðurlögum við endurkomu til landsins fyrir að hafa yfirgefið landið án sérstaks leyfis enda hafi þeir með því gerst liðhlaupar. Þá sé tveggja til tíu ára fangelsisrefsing við að gerast liðhlaupi til erlends ríkis. Í handbók Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna segir að einstaklingur sem hefur ólöglega farið á brott eða dvalið erlendis án heimildar og eigi hörð viðurlög yfir höfði sér í heimaríki geti talist flóttamaður. Verði einstaklingurinn að geta sýnt fram á að tilefni brottfarar eða dvalar erlendis hafi tengst þeim ástæðum sem taldar eru upp í 2. tölulið A-liðar 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Er það mat kærunefndar að sú refsing sem kærandi eigi mögulega yfir höfði sér í […], fyrir að hafa gengið úr starfi sínu sem lögreglumaður, yfirgefið […] og sótt um alþjóðlega vernd í öðru landi, teljist hvorki til „harðra viðurlaga“ í skilningi handbókar Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna né geti refsingin talist „óhófleg“ í skilningi c-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt þeim skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað eru engar marktækar skýrslur um aðstæður í fangelsum sem bendi til þess að mannréttindabrot eigi sér stað innan þeirra. Þá bendi gögn þvert á móti til þess að aðstæður í […] fangelsum hafi farið verulega batnandi á undanförnum árum. Í ljósi framangreindra gagna er það mat kærunefndar að verði kæranda gert að afplána fangelsisrefsingu fyrir að brjóta gegn lögum landsins þá sé kærandi ekki í raunverulegri hættu á að verða fyrir pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála dragi ekki í efa frásögn kæranda um að hann óttist hótanir og áreiti í heimaríki þá telur kærunefnd, með vísan til ofangreinds og gagna um heimaríki kæranda, að fyrrgreindir atburðir nái ekki því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en hann kvaðst jafnframt í viðtali við Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar, en kærandi telur að mat Útlendingastofnunar á stöðu hans í heimaríki og þeirrar hættu sem bíði hans verði hann endursendur til […] sé ófullnægjandi. Má því af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð máls hans.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin geti ekki útilokað að kæranda verði refsað við komu til heimaríkis fyrir að hafa yfirgefið landið án sérstakrar heimildar í samræmi við þarlend hegningarlög. Í ákvörðun stofnunar er hvorki fjallað um eðli refsingarinnar sem kærandi geti átt yfir höfði sér í heimaríki né um aðstæður í þarlendum fangelsum.

Kærunefnd útlendingamála hefur endurskoðað alla þætti máls kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að verði kæranda gert að afplána fangelsisrefsingu fyrir að brjóta gegn lögum landsins þá sé kærandi ekki í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verður því ekki fallist á það með kæranda að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er horft til þess að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í nægilegu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 27. apríl 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum