Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Áfanga í salernismálum fagnað í sveitarfélaginu Makanjira

Ljósmynd frá Malaví: gunnisal - mynd

Innan héraðsþróunarverkefnisins í Mangochi (MBSP) er mikil áhersla lögð á heilbrigðismál ekki síst á fyrirbyggjandi aðgerðir svo sem fjárfestingar og samfélagsvinnu í vatns- og salernismálum. Að sögn Ágústu Gísladóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Lilongve á héraðið enn nokkuð í land með að tryggja gott öllum drykkjarvatn og víða í strjálbýli neyðist fólk til að ganga örna sinn á víðavangi með tilheyrandi smithættu og sóðaskap.

Ágústa segir að niðurgangspestir séu, ásamt malaríu, helsta heilbrigðisvandamálið í dreifbýli og eigi stóran þátt í vannæringu barna. „Með stuðningi frá íslenskum stjórnvöldum og fleirum ætla héraðsyfirvöld í Mangochi að gera átak í vatns- og salernismálum og ná markmiðum stjórnvalda, að 70 % allra íbúa hafi viðunandi aðgang að drykkjarvatni og salernisaðstöðu, innan fáeinna ára. Það krefst mikillar vinnu, bæði heilbrigðisstarfsmanna, fræðslu sjálfboðaliða og íbúanna sjálfra að tryggja viðunandi salernisaðstöðu á öllum heimilum,“ segir Ágústa.

Nýlega náði Makanjira sveitarfélagið, með um 120 þúsund íbúa, þeim áfanga að teljast “ODF free” sem felur í sér að allir íbúarnir hafi aðgang að salernisaðstöðu. Fulltrúar sveitarfélagsins fengu afhenta viðurkenningu frá heilbrigðisráðuneytinu um síðustu mánaðamót. Þar með hefur því eitt af þremur áherslu sveitarfélögum MBSP verkefninu náð tilætluðum árangri í salernis- og hreinlætismálum.

Ágústa nefnir að í ræðum við þetta tilefni hafi fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins vakið sérstaka athygli á þeirri staðreynd að engin kólerutilfelli hafi komið upp í Mangochi á síðastliðnu ári. Þeir þökkuðu það árangri í salernis- og hreinlætismálum.

Þess má geta hér að Heimsmarkmið 6.2 tekur sérstaklega á salernismálum, “Eigi síðar en árið 2030 verði öllum tryggður aðgangur að fullnægjandi salernis- og hreinlætisaðstöðu og endir verði bundinn á að menn þurfi að ganga örna sinna utan dyra, þar sem sérstakri athygli er beint að þörfum kvenna og stúlkna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.

Innan héraðsþróunarverkefnisins í Mangochi verður haldið áfram á sömu braut en að auki verður sjónum beint að bættri salernis- og hreinlætis aðstöðu stúlkna á blæðingum í skólum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum