Hoppa yfir valmynd
11. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 110/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 110/2017

Miðvikudaginn 11. október 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Sigurður Thorlacius læknir.

Með kæru, dags. 13. mars 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 13. desember 2016 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, móttekinni 12. október 2015 hjá Sjúkratryggingum Íslands, á þeim grundvelli að veikindi hans hafi verið vangreind þegar hann leitaði á slysa- og bráðadeild Landspítalans X.

Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að kærandi hafi vaknað sárkvalinn í mjóbaki með leiðni niður í vinstri fót X og því leitað á slysa- og bráðadeild Landspítalans þann dag. Hann hafi verið ranglega greindur með bakverk frá stoðkerfi, sacroilitis, og sendur heim með verkjalyf. Einkenni hafi versnað og nokkrum dögum síðar hafi hann jafnframt farið að finna fyrir verkjum í hægra hné sem hafi stokkbólgnað. Hann hafi fengið símatíma hjá C sem hafi pantað fyrir hann segulómskoðun (MRI) hjá D sem hafi farið fram X að ráði röntgenlæknis hjá D. Þaðan hafi hann verið sendur aftur á slysa- og bráðadeild Landspítalans til mats hjá bæklunarlæknum. E deildarlæknir hafi stungið á hægra hné kæranda og út komið rúmlega 80 ml af heiðgulum möttum vökva sem hafi verið sendur í ræktun og smásjárskoðun. Við skoðun á sýkladeild hafi komið í ljós að í vökvanum reyndust vera gram jákvæðir kokkar. Kærandi hafi ekki treyst sér til að fara heim og verið lagður inn. Ákveðið hafi verið að sýna myndir á morgunfundi bæklunarlækna daginn eftir. Kærandi hafi reynst vera með septiskan arthritis í hægra hné, sýktan SI lið í mjóbaki og […]sem sett hafi verið í dren og hafi kærandi verið lagður inn á smitsjúkdómadeild. Þar hafi hann legið frá X til X. Tappa hafi þurft af hægra hné reglulega og hann verið með sískol um tíma. Þrátt fyrir reglulega sjúkraþjálfun hafi hann hreyfiskerðingu í hné og finni fyrir verkjum bæði í hné, baki og mjöðmum.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 13. desember 2016, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. mars 2017. Með bréfi, dags. 24. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 26. apríl 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. apríl 2017, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að hinni kærðu ákvörðun verði snúið á þá leið að tjón hans verði bótaskylt og falli undir gildissvið 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Í kæru segir að samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skuli greiða bætur án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til þess að ætla mætti að komast hefði mátt fyrir tjónið hefði rannsókn eða meðferð við þær aðstæður verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Í 1. mgr. 3. gr. laganna segi að greiða skuli bætur fyrir tjón sem hljótist af því að sjúkdómsgreining sé ekki rétt í tilvikum sem nefnd séu í 1. eða 2. tölul. 2. gr. laganna.

Í máli þessu liggi ljóst fyrir að kærandi hafi leitað sárkvalinn á bráðamóttöku Landspítala X. Hann hafi varla getað gengið og þurft að notast við hjólastól til þess að komast inn á skoðunarherbergi. Engin ítarleg skoðun hafi verið gerð á kæranda þennan dag og hafi honum einungis verið ráðlagt að taka verkjalyf. Það hafi ekki verið fyrr en X sem ráðist hafi verið í nánari skoðun á kæranda og þá komið í ljós umrædd sýking. Því megi ljóst vera, að ekki hafi verið rétt staðið að sjúkdómsgreiningu þegar kærandi leitaði á bráðamóttöku Landspítala. Kærandi hafi síðan glímt við langvarandi verki og telji að komast hefði mátt hjá því líkamlega tjóni hefði rétt verið staðið að sjúkdómsgreiningu í upphafi. Kærandi telji því ótvírætt að uppfyllt séu skilyrði til greiðslu bóta úr sjúklingatryggingu vegna rangrar sjúkdómsgreiningar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um sjúklingatryggingu, sbr. 1. tölul. 2. gr. sömu laga.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu eigi sjúklingar sem verði fyrir líkamlegu og andlegu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, sbr. 1. gr. laga um sjúklingatryggingu. Í 2. gr. laganna sé tilgreint til hvaða tjónsatvika lögin taki. Skilyrði sé að heilsutjón sjúklings megi að öllum líkindum rekja til einhverra af fjórum tilgreindum atvikum sem nánar séu rakin í 1.-4. tölul. 2. gr. laganna. Nánar tiltekið lúti 1. tölul. að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð, 2. tölul. fjalli um bilun eða galla í tækjum eða áhöldum, 3. tölul. hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðgerð eða tækni og 4. tölul. taki til heilsutjóns sem hljótist af sýkingu eða öðrum fylgikvilla meðferðar sem ósanngjarnt þyki að sjúklingur þoli bótalaust.

Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skuli greiða bætur ef ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni hefði rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Til þess að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt þurfi að vera meiri líkur en minni á að tjónið megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að læknismeðferð.

Þegar um vangreiningu eða ranga greiningu sé að ræða hafi verið miðað við hvað gegn og skynsamur læknir hefði gert undir sömu kringumstæðum.

Undir 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu falli tilvik þar sem tjón verði hvorki rakið til mistaka í víðri merkingu 1. tölul. né bilunar eða galla samkvæmt 2. tölul. Um sé að ræða tjón sem ekki verði séð fyrr en eftir á að unnt hefði verið að afstýra með því að velja aðra aðferð eða tækni til meðferðar sem ætla megi að hefði ekki leitt til tjóns. Með öðrum orðum sé um að ræða vitneskju sem ekki fáist fyrr en eftir að aðgerð eða annars konar meðferð hafi farið fram og eftir að heilsutjón hafi orðið.

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna skuli greiða bætur hljótist tjón af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem sé meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skuli líta til þess hve tjónið sé mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skuli taka mið af því hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni. Því meiri sem hætta sé á fylgikvilla eftir eðlilega meðferð, þeim mun meira tjón verði sjúklingur að þola bótalaust. Fylgikvilli þurfi því bæði að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur (minna en 1-2% tilvika) til að hann uppfylli skilyrði 4. tölul. 2. gr. laganna.

Í athugasemdum með 2. gr. laganna komi fram að sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða áverka. Verði engu slegið föstu um orsök tjóns verði að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. Þá segir: „Ef niðurstaðan verður sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Sama gildir ef ekkert verður sagt um hver sé líklegasta orsök tjóns.“ Það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann hafi gengist undir.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi bótaskyldu verið synjað þar sem skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt.

Sú sýking sem kærandi hafi fengið, þ.e. [.….], sé sjaldgæf […]. Ekkert af þessu hafi átt við um kæranda. Þekkt sé að slík sýking geti verið blóðborin sem að mati stofnunarinnar hafi verið líklegasta skýringin í tilviki kæranda enda hafi hann fengið tvær alvarlegar sýkingar á mismunandi staði (vinstra megin í grindarholi og í hægra hné). Líkt og fram komi í bréfi F til stofnunarinnar hafi ekki verið hægt með vissu að segja til um hvar sýkingin hafi átt uppruna sinn. Umrædd sýking, [...], sé sjaldgæf og einkenni hennar mjög ósértæk. Öll gögn málsins hafi bent til þess að rétt hafi verið staðið að þeirri meðferð sem kærandi hafi hlotið við komu á Landspítala X. Rétt sé að hafa í huga að sérstaklega sé tekið fram í dagnótu þann dag að kærandi hafi ekki verið með nein merki sýkingar samkvæmt klínískri skoðun. Af gögnum að dæma virðist kærandi hafa fengið góða skoðun við fyrstu komu.

Að mati stofnunarinnar hafi ekki verið hægt að gera þær kröfur að grunur um [...] hafi átt að koma upp við fyrstu komu eða að greining hefði átt að nást. Ekki sé heldur rétt að gera kröfu um að frekari rannsóknir hefði átt að gera en það sé til að mynda ekki gagnreynd læknisfræði að framkvæma hitamælingu og blóðprufur við fyrstu komu vegna bakverkja. Þá sé rétt að taka fram að það liggi ekki fyrir að kærandi hafi verið kominn með umrædda sýkingu X og því sé óljóst hvort frekari rannsóknir hefðu leitt til þess að sýkingin hefði greinst.

Að mati stofnunarinnar hafi því eðlilega verið staðið að skoðun kæranda umræddan dag sem og að greiningu og meðferð. Sérstaklega verði að líta til þess að við útskrift af bráðamóttöku hafi kæranda verið ráðlagt að koma aftur ef ástandið myndi versna. Hann hafi aftur á móti valið sjálfur að snúa ekki á bráðamóttöku þótt ástandið virðist hafa farið versnandi. Þá beri gögn málsins með sér að rétt hafi verið staðið að meðferð kæranda eftir að hann hafi leitað til G.

Með vísan til framangreinds hafi það verið mat stofnunarinnar að skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt og bótaskyldu því verið hafnað.

Í kæru komi fram að kærandi hafi leitað sárkvalinn á Landspítala X. Kærandi hafi ekki getað gengið og þurft að notast við hjólastól til að komast í skoðunarherbergi. Þá hafi hann ekki fengið ítarlega skoðun og einungis verið ráðlagt að taka verkjalyf. Þá hafi kærandi þurft að glíma við langvarandi verki í kjölfar meints sjúklingatryggingaratburðar og komast hefði mátt hjá því líkamlega tjóni hefði rétt verið staðið að sjúkdómgreiningu umrætt sinn.

Gögn málsins hafi ekki stutt þessa fullyrðingu kæranda en í sjúkraskrárgögnum sé ástandi kæranda lýst með greinargóðum hætti og ljóst að skoðun hafi verið ítarleg. Í gögnunum komi fram að kærandi hafi hvorki verið meðtekinn né bráðveikindalegur við komu á bráðamóttöku X. Fram komi að kærandi hafi vaknað um morguninn með bakverk sem hafi verið verri vinstra megin og honum fundist sem verkurinn leiddi niður í vinstri rasskinn. Fram komi að kærandi hafi neitað máttminnkun eða dofa í ganglimum. Hvorki hafi verið dofi við endaþarm né vandræði við þvaglát og hafi kærandi lýst því að hann hafi ekki áður fengið viðlíka verki. Þá hafi verið tekið fram að kærandi hafi upplýst um að hann hafi hvorki orðið fyrir nýlegum áverka né öðru sem hann hafi tengt við upphaf verkjanna. Auk þess hafi hann lýst því að honum þætti betra að sitja en versnaði við gang eða aðra hreyfingu.

Í sjúkraskrárgögnum sé jafnframt tekið fram að kærandi hafi verið stífur við að reisa sig upp af sjúkrabekk en þó gert það án aðstoðar. Hann hafi verið aumur við þreifingu í langlægum bakvöðvum neðst í baki og einnig hafi verið eymsli og bólguhnúðar við skjaldlið vinstra megin. Taugaþanspróf hafi verið neikvætt, kraftar og skyn í ganglimum verið eðlilegt og göngulag eðlilegt. Tekið hafi verið fram að hann hafi ekki verið með merki um sýkingu eða mænutaglsheilkenni og því hafi niðurstaðan verið stoðkerfisverkir. Kærandi hafi útskrifast með verkja- og bólgueyðandi lyf og ráðleggingu um að koma aftur ef illa gengi.

Af framangreindu sé ljóst að kærandi hafi fengið ítarlega skoðun sem hafi verið í samræmi við gagnreynda læknisfræði við komu á bráðamóttöku á Landspítala X og að mati stofnunarinnar sé ekki hægt að taka undir fullyrðingar kæranda um annað. Að framangreindu virtu sé því jafnframt ekki hægt að taka undir þær fullyrðingar kæranda að þeir langvinnu verkir sem hann hafi þurft að glíma við í kjölfar umræddrar sýkingar sé að rekja til vangreiningar við komu á bráðamóttöku Landspítala X.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna meintrar vangreiningar á slysa- og bráðadeild Landspítalans X.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka þá skal að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Í kæru segir að kærandi hafi leitað sárkvalinn á bráðamóttöku Landspítala X. Hann hafi varla getað gengið og þurft að nota hjólastól til að komast í skoðunarherbergi. Engin ítarleg skoðun hafi verið gerð á kæranda þennan dag og honum einungis ráðlagt að taka verkjalyf. Umrædd sýking hafi síðan komið í ljós X. Kærandi telur því að ekki hafi verið rétt staðið að sjúkdómsgreiningu X á slysa- og bráðadeild Landspítala og það hafi leitt til líkamstjóns. Í máli þessu kemur því til skoðunar hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð kæranda, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Fyrir liggur að kærandi leitaði á slysa- og bráðadeild Landspítala X og er sögu, skoðun og greiningu þann dag lýst svo í bráðamóttökuskrá bráðadeildar þann dag:

„Saga

A er X ára karlmaður sem leitar á BMT vegna verks í mjóbaki. Vaknar með verkinn í morgun, verri vi megin og finnst verkurinn leiða niður í vinstri rasskinn. Neitar máttminnkun eða dofa í ganglimum. Ekki dofi við perineal svæði. Ekki vandamál með þvaglát. Ekki fengið svona áður. Ekki nýlegt trauma eða annað sem hann getur tengt við upphaf verkja. Tók Ibufen í morgun sem ekki sló á verk en fékk tvær Parkodín í triage sem virkuðu betur. Finnst best að sitja en vernar við gang eða aðra hreyfingu.

Skoðun

Almennt: ekki meðtekinn eða bráðveikindalegur. Stífur við að reisa sig upp í sjúkrabekk en gerir það þó án aðstoðar.

Bak: ekki mar, sár eða bólgumerki. Þreifa bólguhnúða yfir SI-ligament vinstra megin. VÆg palpeymsli þar yfir sem og yfir paraspinal vöðvum, meira vi. megin.

Laseque er neikvætt bilateralt. Kraftar og skyn gróft metið eðlilegt. Eðlilegt göngulag.

Greiningar

· Festumein í hrygg, M46.0+

Umræða og afdrif

Líklegast bakverkur frá stoðkerfi. (sacroilitis). Engin merki um sýkingu, brottfallseinkenni eða mænutaglsheilkenni nú. Er óhætt að fari heim. Fær ráðleggingar varðandi líkamsbeitingu og verkjalyf. Endurkoma hingað er ráðlögð án tafar ef fram koma lömunareinkenni í fótleggjum, dofi við kynfæri eða erfiðleikar við losun á þvagi eða hægðum. Fær atvinnurekendavottorð og lyfseðil fyrir Parkodín og Voltaren.“

Í greinargerð meðferðaraðila til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. desember 2015, kemur fram að í framhaldi af komu kæranda á bráðamóttöku hafi kærandi verið með vaxandi einkenni og fengið bólgu undir hægra hné. Vegna þessa hafi hann símleiðis haft samband við heila- og taugaskurðlækni sem hafi sent hann í segulómun af hrygg X. Þá hafi greinst […] sem hafi verið metinn nánar með tölvusneiðmynd X. Í kjölfar þess hafi kærandi farið á bráðadeild Landspítala á nýjan leik og fengið mat bæklunarsérfræðinga. Þá hafi komið í ljós að hann væri með sýktan lið auk […].

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að kærandi var greindur með sjaldgæfa sýkingu, [...], X, en hafði áður leitað á slysa- og bráðadeild Landspítala X vegna verkjar í mjóbaki. Í framangreindri bráðamóttökuskrá spítalans kemur fram að engin merki hafi verið um sýkingu þann dag. Úrskurðarnefnd fær ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum þessa máls en að kærandi hafi fengið viðeigandi meðferð við einkennum sínum á Landspítala X. Nefndin telur því að rannsókn og meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hefði verið við þær aðstæður sem um ræðir og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaskylda sé ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. desember 2016, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum