Hoppa yfir valmynd
9. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Tilraunaverkefni um starfsendurhæfingu innan heilsugæslunnar

Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið hefur samið við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilsugæsluna í Salahverfi um starfsendurhæfingu allt að 150 sjúklinga sem hafa verið frá vinnu vegna veikinda í 8-12 vikur og taldir eru í þörf fyrir endurhæfingu. Það var Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra sem ritaði undir samninginn fyrir hönd ráðuneytisins en fyrir hönd heilsugæslu-stöðvanna skrifuðu undir samninginn þeir Guðmundur Einarsson, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Böðvar Örn Sigurjónsson, Heilsugæslunni í Salahverfi. Samningurinn er í samræmi við þær áherslur sem ráðherra hefur kynnt um að efla grunnþjónustu heilsugæslunnar.

Samningurinn er þverfaglegt tilraunaverkefni til þriggja ára og tekur til fjögurra heilsugæslustöðva, en það eru: Heilsugæslan í Glæsibæ, Heilsugæslan í Garðabæ, Heilsugæslan í Efra-Breiðholti og Heilsugæslan í Salahverfi. Einnig verður haft samstarf við Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins. Verkefnið miðar að því að grípa snemma inn hjá þeim sem nýlega hafa hætt að geta stundað vinnu vegna sjúkleika og freista þess að snúa við ferli sem mögulega gæti endað í örorku ef ekkert er að gert.

Heilsugæslustöðvarnar munu meðal annars veita sjúklingunum sálfræðiþjónustu og tryggja aðkomu sjúkraþjálfara og annarra fagaðila eftir þörfum. Að tilraunatímabilinu loknu verður árangur verkefnisins metinn og ákvörðun tekin um framhald. Kostnaður vegna verkefnisins er 17 milljónir króna en heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mun hafa eftirlit með framkvæmd samningsins og Landlæknir hafa faglegt eftirlit með störfum samningsaðila.

Skrifað undir samning um starfsendurhæfingu

Frá undirritun samnings um starfsendurhæfingu, frá vinstri: Guðmundur Einarsson, Siv Friðleifsdóttir og Böðvar Örn Sigurjónsson.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum