Hoppa yfir valmynd
26. september 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um flugafgreiðslu til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1186/2008 um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum. Unnt er að senda athugasemdir til ráðuneytisins til og með 9. október á netfangið [email protected].

Í reglugerðardrögunum eru gerðar breytingar á reglugerð nr. 1186/2008 um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum.

Reglugerðinni var breytt síðastliðið vor og í framhaldi af þeirri breytingu hefur komið í ljós að gildissvið hennar er of takmarkað en það nær í raun eingöngu til starfsemi flugafgreiðsluaðila á Keflavíkurflugvelli. Breytingin í vor fólst í því að krafa er nú gerð til þeirra flugafgreiðsluaðila, sem starfa á flugvöllum sem reglugerðin nær til, að þeir afli samþykkis Flugmálastjórnar Íslands áður en veiting þjónustu hefst. Flugafgreiðsluaðili þarf að uppfylla ýmis skilyrði tengd öryggismálum og fjárhagsstöðu til að hljóta samþykki með tilheyrandi kostnaði. Umfang starfsemi flugvallar þarf hins vegar ekki að endurspegla umfang starfsemi þeirra flugafgreiðsluaðila sem þar starfa. Þannig má nefna sem dæmi að á Reykjavíkurflugvelli starfar flugafgreiðsluaðili með sambærilega starfsemi að umfangi og stærð og flugafgreiðsluaðili á Keflavíkurflugvelli. Þetta skekkir samkeppnisstöðu þeirra sem hafa starfsemi á Keflavíkurflugvelli á móti þeim sem starfa á öðrum flugvöllum. Einnig er öryggi þeirra sem starfa hjá eða þiggja þjónustu flugafgreiðsluaðila á Keflavíkurflugvelli betur tryggt þar sem ýtarlegri öryggiskröfur eru gerðar til þeirra. Með hliðsjón af framangreindu er gildisvið reglugerðarinnar breytt þannig að hún nái einnig til annarra millilandaflugvalla hérlendis þ.e. Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvallar.

Að auki er gerð breyting á 1. mgr. 14. gr. a en þar er fjallað um þær reglur og stöðluðu skilyrði og tækniforskriftir sem rekstraraðilar flugvalla skulu setja þeim sem starfa vilja á flugvellinum. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að stöðluðu skilyrðin eða tækniforskriftirnar skuli hljóta samþykki ráðherra. Þar sem yfirferð á slíku efni krefst sérfræðiþekkingar sem frekar er að finna hjá Flugmálastjórn Íslands en hjá ráðherra er sú breyting gerð að reglurnar skuli samþykktar af stofnuninni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira