Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 243/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 243/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16110043

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. nóvember 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. nóvember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Austurríkis.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, með vísan til 45. gr. og 2. mgr. 46. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002.

Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. október 2016. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 5. október 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Austurríki. Þann 14. október 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda Austurríki, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 20. október 2016 barst svar frá austurískum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 7. nóvember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Austurríkis. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 15. nóvember 2016 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 16. nóvember 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 28. nóvember 2016. Viðbótargögn bárust kærunefnd 5. desember 2016.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Austurríkis. Lagt var til grundvallar að Austurríki virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Austurríkis ekki í sér brot gegn 33. gr. flóttamannasamningsins, 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Austurríkis, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Austurríki en hafi verið synjað og honum hafi verið gert að snúa aftur til [...]. Kærandi beri vist sinni í Austurríki í raun ekki illa söguna en honum stafi ógn af fjölskyldu sinni þar í landi. Þá óttist hann mjög að verða endursendur til [...].

Krafa kæranda um að verða ekki endursendur aftur til Austurríkis byggir aðallega á því að þangað megi ekki endursenda hann vegna non-refoulement reglu þjóðaréttar. Vísað sé til 45. gr. þágildandi laga um útlendinga sem mæli fyrir um bann við að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu eða eigi í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Miðað við lýsingu og aðstæður kæranda muni endursending hans til [...] leiða af sér, beint eða óbeint, brot á 1. mgr. 45. gr. sömu laga en honum hafi verið hótað lífláti snúi hann aftur til [...]. Þá geisi nú heiftúðugt stríð í [...] landsins og sé ómögulegt fyrir kæranda að fá vernd yfirvalda í heimahéraði sínu.

Í greinargerð kæranda er almenn umfjöllun um ástandið í austuríska hæliskerfinu. Mikið álag hafi verið á stjórnvöldum í Austurríki 2016 vegna umsókna um alþjóðlega vernd en árið 2015 hafi alls 88.340 manns lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í þar í landi og hafi umsókn kæranda lent í þessu flóði. Hafi austurrísk stjórnvöld legið undir nokkurri gagnrýni vegna hinnar miklu aukningar í umsóknum. Þannig hafi skráning umsækjenda um alþjóðlega vernd og fyrstu viðtöl dregist langt úr hófi fram og uppi séu vísbendingar um að ferli umsókna á stjórnsýslustigi sé langtum lengra en stjórnvöld hafi sjálf sett sér markmið um. Þessi dráttur á fyrstu skráningu geti haft mikil og neikvæð áhrif á alla fjárhagslega aðstoð fyrir umsækjendur. Hafi mikill fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd frá tiltölulega fáum heimaríkjum reynt verulega á úrræði austurrískra stjórnvalda og séu mörg tilfelli um rangar túlkanir á svörum og/eða ummælum úr viðtölum umsækjenda, þar á meðal umsækjenda frá [...]. Þá sé fyrirkomulag lögfræðilegrar aðstoðar við umsækjendur um alþjóðlega vernd í Austurríki engan veginn til þess fallin að tryggja réttaröryggi þeirra. Í fyrsta lagi séu dvalarstaðir umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki iðulega á afskekktum stöðum og fjarri skrifstofum lögfræðinga og stjórnvalda. Einnig veki það athygli að samkvæmt fyrirmælum frá stjórnvöldum skuli lögfræðiaðstoðin veitt í samstarfi við stjórnvöld og skuli lögfræðingar sem bjóða slíka aðstoð að auki gert að uppfylla tilteknar skyldur gagnvart stjórnvöldum en það stefni hagsmunum umsækjenda augljóslega í hættu. Þá séu þeir sem veiti lögfræðiaðstoð án endurgjalds sjaldnast viðstaddir viðtöl umsækjenda á fyrsta stjórnsýslustigi. Við ákvörðun á fyrsta stigi og á kærustigi eigi að veita umsækjendum gjaldfrjálsa lögfræðilega ráðgjöf en í reynd sé þessi ráðgjöf bæði takmörkuð og fjársvelt. Kærandi hafi til að mynda ekki fengið neina lögfræðilega aðstoð við kæru á máli sínu í Austurríki og hafi hann í öllu ferlinu aðeins einu sinni fengið aðstoð lögfræðings.

Þá kemur einnig fram í greinargerð kæranda að þegar hafðar séu í huga viðvaranir sem fram hafi komið hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna undanfarin ár varðandi endursendingar til [...] þá sé það mikið áhyggjuefni hversu margir [...] hafi fengið synjun á umsóknum um alþjóðlega vernd í Austurríki. Hafi til að mynda [...]% af umsóknum frá [...] ríkisborgurum sem teknar voru til skoðunar á fyrstu 11 mánuðum ársins 2016 verið synjað en árið 2015 hafi hlutfall synjana verið enn hærra eða um [...]%. Kærandi vilji af þessu tilefni benda á skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá því í [...] en stofnunin hafi í skýrslunni mælt eindregið gegn því að ríki sendi einstaklinga, sem eru frá átakasvæðum í [...], aftur til þeirra svæða eða annarra svæða í [...].

Kærandi telur með tilliti til ofangreinds að kærunefnd útlendingamála beri skylda til að tryggja að honum verði ekki gert að snúa aftur til heimaríkis hans en austurrískum stjórnvöldum sé ekki treystandi til þess að vernda þá [...] sem til þeirra leita enda hafi þarlend stjórnvöld áform um að endursenda tugþúsundir umsækjenda um alþjóðlega vernd aftur til heimaríkja, m.a. til [...].

Að öllu framangreindu virtu telji kærandi að ljóst sé að hann verði settur í mikla hættu verði hann endursendur til Austurríkis þar sem austurrísk stjórnvöld muni ekki tryggja þau grundvallarréttindi hans sem þeim beri að gera. Kærandi telji að hann standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð sem brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hann sendur til Austurríkis og að endursending hans þangað brjóti þar með gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement sem lögfest hafi verið í 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga. Að auki myndi slík endursending brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Verði ekki fallist á það af hálfu íslenskra stjórnvalda að endursending kæranda til Austurríkis brjóti í bága við framangreind ákvæði alþjóðasamninga og íslenskra laga um bann við ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð þá telji kærandi að sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 46. gr. þágildandi laga um útlendinga mæli með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Til vara er gerð sú krafa að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og stofnuninni gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. Kærandi telji að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant og skortur hafi verið á rökstuðningi stofnunarinnar fyrir ákvörðun sinni þar sem ákvörðunin sé ekki studd nægilegum gögnum. Verði að gera þá kröfu, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn og 22. gr. sömu laga um efni rökstuðnings, að Útlendingastofnun vísi til heimilda máli sínu til stuðnings. Skortur á heimildum geti ekki talist nægur grundvöllur fyrir jafn íþyngjandi ákvörðun og raun ber vitni í máli kæranda. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Í reglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Vísar kærandi til III. kafla bréfs umboðsmanns Alþingis til forstjóra Útlendingastofnunar frá 5. ágúst 2016 en þar segi að þegar komi að samspili reglna stjórnsýsluréttarins um rannsókn mála, andmælarétt og leiðbeiningarskyldu stjórnvalds sé ábyrgð þess mikil við að undirbúa mál sín vel. Þá hafi Útlendingastofnun ekki rannsakað með nægjanlegum hætti hvort einstaklingsbundnar aðstæður kæranda leiði til þess að endursending hans myndi brjóta í bága við bann við óbeinni endursendingu þangað sem líf eða frelsi hans sé í hættu.

Verði ekki fallist á aðalkröfu eða varakröfu kæranda er sú þrautavarakrafa gerð að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að austurrísk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Austurríkis er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð Austurríkis, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: Austria (European Council on Refugees and Exiles, mars 2017)
  • Amnesty International Report 2016/17 – Netherlands (Amnesty International, 21. febrúar 2017),
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2015 (European Asylum Support Office, 8. júlí 2016),
  • Austria 2016 Human Rights Report (United States Department of State, mars 2017)
  • Freedom in the World 2016 – Austria (Freedom House, 18. ágúst 2016),
  • Upplýsingar af vef Caritas – hjálparsamtökunum (www.caritas.at)
  • Upplýsingar af vef austurríska innanríkisráðuneytisins (www.bmi.gv.at)

Umsækjandi um alþjóðlega vernd í Austurríki getur lagt fram umsókn hjá lögreglunni annað hvort á landamærunum eða inni í landinu. Öll gögn varðandi umsækjanda sem lögregla aflar eru síðan send til yfirvalda í útlendingamálum sem skrá umsóknina og taka síðan persónulegt viðtal við umsækjanda. Túlkaþjónusta er í boði fyrir umsækjendur í þessum viðtölum.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að austurríska útlendingastofnunin (a. Bundesamt für Fremdenwesen und asyl) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (a. Bundewervaltungsgericht) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunarstjórnsýsludómstóls (a. Verwaltungsgerichtshof). Einnig er hægt að áfrýja til stjórnskipunardómstóls (a. Verfassungsgerichtshof) telji umsækjandi að brotið sé á stjórnarskrárvörðum rétti hans. Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd endanlega synjun á umsókn sinni á hann möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd og tekur stjórnsýsludómstóllinn ákvörðun um hvort hún verði tekin til skoðunar hjá útlendingastofnuninni. Ef nýjar upplýsingar eða gögn eða aðstæður hafa breyst í máli umsækjanda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Við málsmeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd í Austurríki á fyrsta stigi er í boði fyrir umsækjendur gjaldfrjáls lögfræðiráðgjöf í svæðisskrifstofum útlendingastofnunarinnar. Umsækjendur geta einnig leitað til hjálparsamtaka, t.d. samtaka er nefnast Caritas. Þessi samtök veita umsækjendum um alþjóðlega vernd í Austurríki ýmis konar aðstoð, þar á meðal lögfræðiaðstoð. Ef austurríska útlendingastofnunin synjar umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd fær umsækjandi skipaðan lögfræðing þegar ákvörðun stofnunarinnar er birt honum vilji hann bera synjunina undir stjórnsýsludómsstól. Slík lögfræðiráðgjöf er kostuð af ríkinu.

Austurríki er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir Evrópusambandsins er varða réttarúrræði og móttökuaðstæður fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Austurríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til í Austurríki brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Í því sambandi tekur kærunefnd fram að  gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda í Austurríki óttist hann að á honum verði brotið, þ.m.t. af fjölskyldumeðlimum sínum eða öðrum aðilum sem eru búsettir í Austurríki.

Í greinargerð kæranda vísar hann til þess að það sé mikið áhyggjuefni hversu margir [...] hafi fengið synjun á umsóknum um alþjóðlega vernd í Austurríki en aðeins [...]% umsókna [...] ríkisborgara hafi verið samþykktar á fyrstu 10 mánuðum ársins 2016. Kærunefnd hefur skoðað tölfræðileg gögn frá austurríska innanríkisráðuneytinu. Þar kemur fram að árið 2016 hafi [...] umsóknir frá [...] ríkisborgurum verið teknar til skoðunar af austurrískum stjórnvöldum. Fengu [...] af þeim umsóknum jákvæða niðurstöðu um alþjóðlega vernd en [...] neikvæða niðurstöðu. Þá hlutu [...] umsóknir önnur málalok. Af þessum tölum má sjá að á árinu 2016 hafa austurrísk útlendingayfirvöld talið að forsendur væru fyrir því að samþykkja [...]% umsókna [...] ríkisborgara um alþjóðlega vernd. Framangreindar upplýsingar eru í samræmi við skýrslur sem kærunefnd hefur kynnt sér sem benda eindregið til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð raunhæf úrræði til að leita réttar síns í Austurríki, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Kærandi vísar einnig í greinargerð sinni í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá því í [...]. Stofnunin hafi í skýrslunni mælt eindregið gegn því að ríki sendi einstaklinga, sem eru frá átakasvæðum í [...], aftur til þeirra svæða eða annarra svæða í [...]. Þar sem að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni í Austurríki standi hann frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð sem brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hann sendur til Austurríkis og að endursending hans þangað brjóti gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement.

Kærunefnd sendi af þessu tilefni fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þann 1. desember 2016. Leitað var eftir frekari upplýsingum um afstöðu stofnunarinnar til endursendinga á [...] sem fengið höfðu synjanir á umsóknum sínum um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum Dyflinnarsamstarfsins. Þá óskaði kærunefnd eftir leiðbeiningum frá stofnuninni um hvernig best væri að fara með mál þar sem einstaklingur frá [...] hefði fengið synjun á umsókn sinni í öðru ríki Dyflinnarsamstarfsins, í ljósi afstöðu Flóttamannastofnunar varðandi endursendingar til [...], sem fram kom í framangreindri skýrslu. Svar barst kærunefnd frá Flóttamannastofnuninni þann 6. febrúar 2017. Í svarinu kemur fram að þau telji sig ekki geta bætt við það sem fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar.

Kærunefnd sendi jafnframt þann 14. febrúar 2017, af sama tilefni, erindi til Útlendingastofnunar. Annars vegar fyrirspurn um það hvernig matið fer fram hjá stofnuninni þegar skoðað sé hvort tryggt sé að einstaklingur, sem endursenda á til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, verði ekki áframsendur til svæðis þar sem hann hefur ástæður til að óttast ofsóknir eða vegna svipaðra aðstæðna sem greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Hins vegar óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um það hvernig matið skv. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga fari fram þegar viðtaka ríkis er á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og umsækjandi er ríkisborgari lands, s.s. [...], þaðan sem engum hafi verið synjað um alþjóðlega vernd hér á landi, en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Útlendingastofnunar hafi engum [...] umsækjenda, sem fengið hafði efnismeðferð á umsókn sinni hér á landi, verið synjað um alþjóðlega vernd árið 2016.

Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd þann 10. mars 2017. Í svarinu kom m.a. fram að við fyrri spurningu kærunefndar væri því til að svara að Útlendingastofnun kanni þær aðstæður sem bíði umsækjanda í viðtökulandi. Bæði almennar aðstæður, t.d. varðandi húsnæði, aðbúnað og þjónustu, og þau málsmeðferðarúrræði sem í boði eru. Við þessa rannsókn sé stuðst við upplýsingar úr alþjóðlegum skýrslum um viðtökulandið. Telji Útlendingastofnun tilefni til hafi hún samband við stjórnvöld í viðtökulandi til að fá frekari upplýsingar um málsmeðferðarúrræði eða þær aðstæður sem bíða umsækjanda við komuna til landsins. Sé hvert mál skoðað á einstaklingsgrundvelli og með tilliti til sérstakra aðstæðna í hverju máli. Varðandi síðari spurningu kærunefndar tók Útlendingastofnun m.a. fram að ef könnun Útlendingastofnunar leiðir í ljós að í viðtökulandi séu virk úrræði fyrir umsækjanda til að leita réttar síns eftir að hafa fengið synjun í máli sínu telur stofnunin, að öðrum þáttum gættum, ekkert því til fyrirstöðu að endursenda kæranda. Ef stofnunin telji tryggt að málsmeðferð í ábyrgu viðtökuríki sé fullnægjandi sé ekki skoðað frekar af hverju umsækjandi hafi fengið synjun í máli sínu þar í landi. Enda liggi fyrir að í viðtökulandi séu stjórnvöld sem hafi skoðað mál umsækjenda vegna aðstæðna hans í heimalandi og að umsækjandi hafi úrræði til að kæra til æðra stjórnvalds eða dómstóla. Hvað varði umsóknir [...] þá vilji Útlendingastofnun taka það fram að hvert mál sé skoðað á einstaklingsgrundvelli og með tilliti til þeirra sérstöku aðstæðna sem eiga við í hverju máli og séu mál er vörðuðu [...] umsækjendur árið 2016 engin undantekning á því. Hafi ekki verið tekin ákvörðun um að veita öllum frá [...] alþjóðlega vernd heldur sé hvert mál skoðað sérstaklega.

Í ofangreindri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að stofnunin leggist ekki gegn endursendingum [...] ríkisborgara til [...] en beinir m.a. þeim tilmælum til aðildarríkjanna að þvinga ekki [...] ríkisborgara til að snúa aftur til heimasvæða þeirra í [...] sem eru viðkvæm sökum stríðsátaka eða eru óörugg af öðrum ástæðum. Skuli það ríki sem skoði mál einstaklingsins meta efnislega hvort skilyrði séu fyrir endursendingu hans til [...]. Kærunefndin hefur skoðað málsmeðferð austurrískra stjórnvalda og telur nefndin að gögn málsins beri það með sér að í Austurríki sé veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísunum umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar geta átt á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi sé ógnað. Kærunefnd vill árétta að ekkert bendi til þess að [...] umsækjendum sé sjálfkrafa synjað um alþjóðlega vernd í Austurríki eða þeir sendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að endursending kæranda til Austurríkis brjóti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga.

Kærandi sem er ungur einstæður karlmaður kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 3. nóvember 2016 vera við góða heilsu en vera með útbrot á handlegg sem hann eigi til lyf við. Kærandi kvað andlegt heilsufar sitt vera gott. Í gögnum málsins er ekkert sem bendir til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 3. nóvember 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 5. október 2016.

Vegna athugasemda í greinargerð varðandi rannsókn málsins tekur kærunefnd fram að ekki fæst annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi byggt á nýjustu tiltæku skýrslum um aðstæður í Austurríki. Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Við töku ákvörðunar í máli kæranda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin niðurstöðu sína á gögnum sem aflað var við rekstur málsins auk þeirra gagna sem kærandi lagði fram og á nýjustu tiltæku skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki. Verður ekki annað séð á ákvörðun Útlendingastofnunar en að farið hafi fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda. Kærunefndin fær ekki séð að skort hafi á rannsókn máls kæranda hjá Útlendingastofnun og getur því ekki fallist á það með kæranda að rannsókn sem var grundvöllur niðurstöðu máls hans hafi ekki verið fullnægjandi og í samræmi við stjórnsýslulög og lög um útlendinga.

Kærandi krafðist þess til þrautavara að sér yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, nú 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í lokamálslið 1. mgr. 74. gr. laganna segir að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr. Í máli þessu var tekið til skoðunar hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og taka hana til efnislegrar meðferðar, en ekki fjallað efnislega um mál hans. Kemur ákvæði 74. gr. laga um útlendinga því ekki til álita í málinu.

Í máli þessu hafa austurrísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Austurríkis með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                         Erna Kristín Blöndal

                                                                                        

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum