Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2021 Úrskurður

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun L um að ráða konu í tímabundið starf saksóknarfulltrúa hjá embættinu. Að mati nefndarinnar hafði ekki verið sýnt fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Var því ekki fallist á að L hefði gerst brotlegur við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 25. ágúst 2021 er tekið fyrir mál nr. 3/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 1. mars 2021, kærði A ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um ráðningu B í tímabundið starf saksóknarfulltrúa hjá embættinu. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 9. mars 2021. Greinargerð kærða ásamt fylgigögnum barst með tölvubréfi 11. maí 2021 og voru gögnin send kæranda sama dag. Athugasemdir kæranda eru dags. 14. maí, 15. júní, 3. júlí og 10. ágúst 2021 og kærða dags. 11. júní, 30. júní og 22. júlí 2021.
 4. Þess ber að geta að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru felld úr gildi með nýjum lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem tóku gildi 6. janúar 2021 ásamt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 151/2020 féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þar sem atvik í máli þessu áttu sér stað í tíð eldri laga gilda lög nr. 10/2008 um efnislegan ágreining fyrir nefndinni en um málsmeðferðina fer samkvæmt lögum nr. 151/2020.

  MÁLAVEXTIR

 5. Hinn 5. nóvember 2020 auglýsti lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra laust til umsóknar tímabundið starf saksóknarfulltrúa við embættið með starfsstöð á Akureyri. Í auglýsingunni kom fram að starfið fælist einkum í afgreiðslu lögreglumála, aðstoð við ákvörðun um saksókn, umsjón með sektargerðum, samningu ákæra og greinargerða. Þá fælist í starfinu náið samstarf við lögreglu, skipulag verkefna, aðstoð við rannsóknir á rannsóknarstigi og fyrir dómi, málsmeðferð og flutningur sakamála fyrir dómi, umsagnir um útgáfu leyfa og útgáfa þeirra auk annarra tilfallandi verkefna. Eftirtaldar hæfni- og menntunarkröfur voru tilteknar í auglýsingunni: Embættis- eða meistarapróf í lögfræði, góð þekking á sakamálaréttarfari, starfsreynsla á sviði sakamála kostur, þekking eða reynsla á sviði stjórnsýslu kostur, mjög gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti og gott vald á ensku. Þá var gerð krafa um frumkvæði, sjálfstæði, skipulagshæfni, jákvæðni og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og hæfni til að starfa í hóp.
 6. Tólf umsóknir bárust um starfið, frá sjö körlum og fimm konum. Ákveðið var að bjóða í viðtal fjórum umsækjendum sem voru taldir uppfylla menntunarskilyrði og höfðu starfsreynslu sem lögfræðingar. Var kærandi einn þeirra en einn þessara fjögurra umsækjenda dró umsókn sína til baka áður en til viðtals kom. Að loknum viðtölum í gegnum fjarfundabúnað við þá þrjá sem eftir stóðu og eftir að leitað hafði verið umsagna umsagnaraðila var það niðurstaðan að bjóða konu starfið sem hún þáði.
 7. Hinn 10. janúar 2021 óskaði kærandi eftir að fá ákvörðunina rökstudda og var rökstuðningur veittur 22. janúar.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 8. Kærandi telur að sér hafi verið mismunað á grundvelli kyns þar sem hann sé hæfari en sú sem var ráðin til að gegna starfinu. Telur hann sig uppfylla betur skilyrði um menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða aðra sérstaka hæfileika sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu sem taka beri mið af við mat á því hvort jafnréttislög hafi verið brotin, sbr. 5. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 í þessu máli.
 9. Bendir kærandi á að hann uppfylli allar þær menntunarkröfur sem gerðar voru í auglýsingu auk þess að vera með meiri menntun en sú sem var ráðin á sviði sakamálaréttarfars og stjórnsýsluréttar. Hann hafi lokið fleiri einingum á sviði sakamálaréttarfars í laganáminu auk þess að hafa lokið námskeiði á því sviði í Tollskóla ríkisins. Þá hafi hann sérhæft sig á sviði stjórnsýsluréttar í laganáminu en hann hafi skrifað meistararitgerð sína í lögfræði á því sviði. Auk þessa hafi hann aflað sér lögmannsréttinda. Hann stundi nú MBA-nám sem einnig ætti að nýtast vel í starfi saksóknarfulltrúa, sbr. að skipulag verkefna er sérstaklega kennt í því námi sem sé eitt af þeim verkefnum sem felast í umræddu starfi. Kærandi telur að með tilliti til alls þessa sé óskiljanlegt að hann og sú sem ráðin var til starfans hafi fengið jafnmörg stig fyrir menntunarþáttinn.
 10. Varðandi mat á starfsreynslu tilgreinir kærandi að hann hafi rúmlega sex ára starfsreynslu á sviði stjórnsýslu og sakamála. Störf þessi hafi verið fjölbreytt en eigi það sameiginlegt að tilheyra réttarvörslukerfinu. Hann hafi starfað hjá lögreglunni á árunum 2011–2016, hjá tollstjóra á árunum 2016–2020 og sumarið 2020 hjá fangelsismálayfirvöldum. Hafi hann sinnt almennum löggæslu-, tollgæslu- og fangavörslustörfum, landamæraeftirliti, greiningarstörfum, saksóknarstörfum auk þess sem hann hafi tekið stjórnvaldsákvarðanir og kveðið upp úrskurði í skattamálum, sótt fjölda innlendra og erlendra funda, skrifað skýrslur í ýmsum málaflokkum og farið með verkefnastjórnun í ýmsum málum sem hafi verið tengd réttarvörslukerfinu. Nánar tiltekið tekur kærandi fram að hann hafi starfað í einn mánuð á lögfræðisviði lögreglustjórans á Suðurnesjum þar sem hann hafi komið að gerð sektargerða, ákæra og kröfugerða sem lögð voru fram fyrir dómi. Þar að auki hafi hann starfað í sex mánuði í endurskoðunardeild tollstjóra þar sem hann hafi kveðið upp úrskurði í skattamálum, í sumum tilfellum með stjórnvaldssektum. Þá hafi hann starfað í greiningarvinnu hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og í greiningardeild hjá tollstjóra. Mörg þau mála sem hann vann að hafi verið á meðal stærstu sakamála sem hafi komið upp á Íslandi.
 11. Tekur kærandi fram að hans stærsta verkefni í verkefnastjórnun hafi haft að markmiði að bæta eftirlitsgetu tollstjóra með tilteknum vöruflokki auk þess sem hann var skipaður sérfræðingur tollstjóra í lyfjamálum og í nefnd fulltrúa frá öllum greiningardeildum á Norðurlöndunum. Þá sé hann í MBA-námi þar sem kennd sé verkefnastjórnun.
 12. Bendir kærandi á að starfsreynsla úr bankageiranum eigi ekkert sameiginlegt með þeim verkefnum sem saksóknarfulltrúa er ætlað að sinna samkvæmt auglýsingum um starfið. Telur kærandi því að hann hafi mun meiri starfsreynslu en sú sem var ráðin, sbr. að hann hafi rúmlega sex ára starfsreynslu á sviði stjórnsýslu og sakamála samborið við enga starfsreynslu hennar. Þá hafi hann yfirgripsmikla þekkingu á öllu réttarvörslukerfinu, allt frá upphafi sakamála til afplánunar dóma, og hafi starfsreynslu í öllum þeim verkefnum sem saksóknarfulltrúa er sérstaklega gert að sinna samkvæmt starfsauglýsingu.
 13. Kærandi kveðst hafa komið að rannsóknum á hundruðum lögreglumála á þeim tíma sem hann starfaði hjá lögreglu og tollstjóra á árunum 2011–2020. Í greiningarvinnu hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og hjá tollstjóra hafi hann átt náið samstarf við lögreglumenn í öllum lögregluumdæmum landsins. Þá hafi hann flutt eitt prófmál fyrir héraðsdómi þar sem hann hafi komið að öflun sönnunargagna og undirbúið málflutningsræðu en sú sem ráðin var hafi enga reynslu af slíku og hafi ekki málflutningsréttindi.
 14. Tekur kærandi fram að fyrri störf hans hafi krafist mikils frumkvæðis, sjálfstæðis, skipulagshæfni, jákvæðni, samskiptahæfni og hæfni til að vinna í hóp. Standi hann því þeirri sem ráðin var framar hvað varðar þessa hæfileika. Þessu til staðfestingar vísar kærandi til niðurstöðu úr persónuleikaprófi Hogans sem hann hafi látið fylgja umsókninni. Kærandi telur enn fremur líklegt að hann hafi meiri færni í ensku en sú sem ráðin var þar sem hann hafi bæði búið í Bandaríkjunum og Bretlandi.
 15. Þá telur kærandi að ekkert samhengi sé á milli hæfnikrafna sem sérstaklega eru tilgreindar í auglýsingunni og matsrammans sem notaður var í ráðningarferlinu. Þannig hafi starfsreynsla á sviði sakamála ekki verið metin heildstætt heldur valdir úr einstaka þættir sakamála. Þá séu matsþættirnir mun þrengri en í auglýsingunni, óljóst sé hvað verið er að meta í hverjum þætti fyrir sig, auk þess sem stigagjöfin sé ekki í samræmi við raunveruleikann.
 16. Kærandi gerir athugasemdir við staðhæfingu kærða í greinargerð hans þess efnis að sú sem starfið hlaut hafi staðið kæranda framar varðandi menntun. Þetta sé ekki í samræmi við stigagjöf í matstöflu þar sem þau hafi fengið jafnmörg stig fyrir menntunarþáttinn. Kærandi telur enn fremur að kærði hafi látið vægi menntunar á sviði refsiréttar hafa meira vægi en menntun kæranda á sviði sakamálaréttarfars og stjórnsýsluréttar. Jafnframt telur kærandi að kærði hafi vanmetið þekkingu sína á sviði refsiréttar sem hann öðlaðist á sex ára tímabili við störf innan lögreglu, tollstjóra og hjá fangelsismálayfirvöldum. Það sama á við um þekkingu hans á sakamálaréttarfari en á sama tíma hafi kærði ofmetið hæfni hennar sem hlaut starfið.
 17. Kærandi mótmælir þeirri staðhæfingu að hann hafi átt í erfiðleikum með að svara spurningum kærða í starfsviðtali um sakamálaréttarfar. Samkvæmt kæranda virðast svörin ekki hafa verið skráð niður svo sem skylt sé þar sem þetta atriði hafi haft þýðingu í ráðningarmálinu, sbr. 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga.
 18. Kærandi gerir athugasemdir við að kærði rökstyðji ekki fullyrðingar sínar um að kærandi hafi ofmetið starfsreynslu sína innan réttarvörslukerfisins. Að mati kæranda lýsi kærði með röngum hætti málsatvikum sem tengjast störfum hans á sviði sakamála, bæði sem afleysingamanns í lögreglu og í flugstöðvardeild þar sem hann hafi meðal annars sinnt greiningarvinnu við yfirferð farþegalista með það að leiðarljósi að rannsaka og sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Varðandi starfsreynslu sína á ákærusviði lögreglunnar á Suðurnesjum bendir kærandi á staðfestingu frá yfirlögfræðingi lögreglustjóraembættisins þar sem fram kom að hann hafi sinnt sektargerðum, ákærum og komið að undirbúningi krafna um nálgunarbann. Verkefni kæranda hjá tollstjóra hafi einnig verið á sviði sakamála og því sé um vanmat á reynslu kæranda að ræða þegar sú starfsreynsla er metin sem önnur reynsla sem nýtist í starfi.
 19. Kærandi tekur fram að hann hafi aldrei starfað sem landamæravörður. Þá gerir hann athugasemdir við fullyrðingar kærða um að hann hafi farið með ósannindi í umsókninni og hafnar fullyrðingum kærða um aðfinnsluverða framkomu í viðtali auk ummæla sem eftir honum voru höfð í viðtalinu. Jafnframt vísar kærandi til þess að umsagnaraðilar hafi gefið honum bestu meðmæli þegar kemur að hæfni í mannlegum samskiptum.
 20. Kærandi telur að frumkvæði og sjálfstæði hafi verið metið með afar þröngum hætti þar sem tekið var tillit til þess hvort umsækjendur hefðu kynnt sér embætti kærða fyrir viðtalið og sýnt áhuga á að afla upplýsinga um það í viðtali.
 21. Þá telur kærandi að kærði láti sig gjalda þess að hafa tvisvar lagt fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis í tengslum við fyrri störf lögreglustjóra hjá embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum en slíkt sé óheimilt.
 22. Telur kærandi sig því hafa leitt nægar líkur að því að við ráðninguna hafi sér verið mismunað á grundvelli kyns í skilningi jafnréttislaga.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 23. Kærði tekur í upphafi fram að um hafi verið að ræða matskennda stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það sé veitingarvaldshafa almennt játað nokkurt svigrúm við mat á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og hvaða umsækjendur falla að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir svo að slíkt mat geti farið fram.
 24. Kærði bendir á að ekki sé hægt að gera viðhlítandi grein fyrir öllum þeim sjónarmiðum sem stjórnvaldi er heimilt að byggja á við ráðningar og að samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins hafi veitingarvaldið ákveðið svigrúm til að meta þau málefnalegu sjónarmið sem lögð eru til grundvallar við samanburð á umsækjendum. Að mati kærða voru þeir þættir sem horft var til við ráðninguna málefnalegir og miðuðu að því að finna hæfasta umsækjandann.
 25. Lítur kærði svo á að aðferðafræðin við ákvörðunartökuna hafi verið málefnaleg enda hafi þau viðmið sem lögð voru til grundvallar verið málefnaleg og ekki til þess fallin að gera einum umsækjendahópi hærra undir höfði en öðrum. Lagt hafi verið mat á hlutlæga þætti í umsóknargögnum að teknu tilliti til skýringa umsækjenda í viðtölum og í viðtölum hafi verið lagt mat á þær hæfnikröfur sem byggðu á huglægu mati. Í báðum þessum flokkum hafi verið byggt á þeim kröfum sem komu fram í auglýsingu.
 26. Samhliða gerð auglýsingar hafi verið unnið að drögum að matsramma og vægi hæfniviðmiða þar sem höfð var hliðsjón af auglýsingunni, eðli starfsins og að um tímabundið starf hafi verið að ræða. Hæfniviðmið ásamt undirþáttum og vægi þeirra hafi verið ákveðin þannig að menntun hafi vegið 15%, starfsreynsla á sviði sakamála 15%, þekking/reynsla varðandi stjórnsýslu 15%, tölvukunnátta 5%, tungumálakunnátta 5%, önnur reynsla sem nýtist 15% og persónubundnir þættir hafi samtals vegið 30%.
 27. Tekur kærði fram að mest hafi verið hægt að fá 24 stig fyrir hlutlæga hæfniþætti. Persónubundnir þættir skyldu metnir í viðtali þar sem sömu spurningarnar voru lagðar fyrir umsækjendur. Mest hafi þessi þáttur gefið 12 stig, þ.e. 4 stig fyrir hvern persónubundinn matsþátt. Samtals hafi því verið hægt að fá 36 stig fyrir alla hæfni- og persónubundna þætti. Tekið er fram að vægi stiga hafi verið mismikið en hlutfallslega í samræmi við vægi hvers hæfniþáttar í heildarmati.
 28. Kærði tekur fram að við ráðningu starfsmanna lögreglu verði að áskilja að viðkomandi hafi þá menntun sem sé áskilin í lögum en mikilvægasti þátturinn í fari starfsmanna sé engu að síður hæfni í mannlegum samskiptum og hæfni til að starfa í hóp. Þá sé nauðsynlegt að treysta megi saksóknarfulltrúum til að gæta í hvívetna vandaðrar framkomu og fagmennsku.
 29. Önnur reynsla og þekking, þ.m.t. á sviði sakamála og stjórnsýslu, var tiltekin sem kostur í auglýsingu og hafi þá einkum verið litið til reynslu sem kæmi til með að nýtast beint í þeim verkefnum sem starfinu tilheyra þar sem um tímabundna ráðningu væri að ræða. Þá var einnig lögð áhersla á frumkvæði og sjálfstæði í starfi, skipulagshæfni og nákvæmni í vinnubrögðum og jákvæðni. Auk þess liggi í hlutarins eðli að starfið útheimti vissa kunnáttu á helstu tölvukerfum auk kunnáttu í íslensku og ensku.
 30. Kærandi og sú sem var ráðin höfðu bæði lokið meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Að mati kærða stóðu þau nokkuð jafnt að vígi hvað menntun varðar þótt sú sem var ráðin hafi staðið kæranda framar og þá einkum sökum áherslna í laganáminu á sakamálaréttarfar og refsirétt. Þegar starfsreynsla umsækjendanna tveggja sem lögfræðinga var metin kom í ljós að sú sem starfið hlaut hafði starfað sem lögfræðingur í um tvö og hálft ár. Kærandi hafði starfað um sex mánaða skeið sem lögfræðingur hjá tollstjóra í tímabundnu starfi. Starfsreynsla hennar sem var ráðin sem lögfræðingur var því nokkuð lengri. Hvorugt þeirra hafði reynslu af saksóknarastörfum. Í því sambandi bendir kærði á að starfskynning kæranda um mánaðarskeið á ákærusviði lögreglustjórans á Suðurnesjum, þegar hann var enn í laganámi, jafngildi ekki starfsreynslu af slíkum störfum. Þá hafi við yfirferð á umsóknargögnum kæranda auk viðtals við hann komið í ljós ofmat á eigin reynslu og þekkingu.
 31. Kærði tekur fram að starfsreynsla umsækjendanna hafi verið mjög ólík en kærði hafi þó talið að reynsla beggja gæti nýst í starfinu. Þannig hafi starfsreynsla kæranda hjá lögreglunni á árunum 2011–2016 þar sem hann gegndi starfi ófaglærðs afleysingamanns verið metin sem önnur reynsla sem nýtist í starfi. Það sama hafi átt við um starfsreynslu hans hjá greiningardeild tollstjóra á árunum 2016–2019 og starf sem fangavörður á Litla-Hrauni og Sogni. Að mati kærða telst ofangreind starfsreynsla kæranda ekki til starfsreynslu á sviði sakamála. Starfsreynsla kæranda sem lögfræðingur á endurskoðunardeild tollstjóra um sex mánaða skeið var metin sem reynsla af opinberri stjórnsýslu. Þá hafi sú sem var ráðin starfað sem lögfræðingur innan bankageirans í um tvö og hálft ár og hafi sú reynsla verið metin sem önnur reynsla sem nýtist í starfi. Það sama hafi átt við um störf hennar í banka áður en hún lauk námi, stjórnarstörf í sumarbúðum um sex ára skeið, stjórnarstörf í íþróttafélagi og sem hóptímakennari í leikfimistöð. Þá hafi þekking kæranda á lögreglukerfinu LÖKE verið metin sérstaklega en bæði fengu stig fyrir almenna tölvukunnáttu og fullt hús stiga fyrir íslenskukunnáttu og þekkingu á öðrum tungumálum.
 32. Persónubundnir þættir voru samtals 30% af heildarmati á umsækjendum sem skiptust í mat á frumkvæði og sjálfstæði (5%), skipulagshæfni og nákvæmni (5%) og mannleg samskipti og hæfni til að starfa í hóp og jákvæðni (20%).
 33. Sú sem var ráðin kom að mati kærða mjög vel fyrir í viðtali. Viðmót og framkoma var til fyrirmyndar og var hún áhugasöm um starfið. Fram kom að hún teldi að helsta áskorun sín í starfinu yrði málflutningur þar sem hún hefði enga reynslu á því sviði. Hún hafi óhikað svarað spurningum um sakamálaréttarfar. Enn fremur hafði hún kynnt sér embættið og sýndi áhuga á starfseminni. Aðspurð um samskiptahæfni og hæfni til að starfa í hóp sagði hún að samskipti hefðu gengið vel, hún væri mikil félagsvera og með áhuga á fólki. Mikið hafi reynt á samskipti í störfum hennar í bankanum og einnig í störfum fyrir sumarbúðirnar.
 34. Kærandi kom að mati kærða illa fyrir í viðtalinu. Hann mætti of seint og ítrekað þurfti að biðja hann um að laga myndavél og hljóð. Kærandi hafi virst þrætugjarn og í vörn þegar borin voru undir hann atriði úr umsókn. Jafnframt hafi borið á ofmati á þekkingu og reynslu. Spurður um helstu áskoranir í starfi saksóknarfulltrúa nefndi kærandi að hann óttaðist að standa ekki undir eigin væntingum þar sem hann gerði miklar kröfur til sjálfs síns. Einnig hefði hann áhyggjur af því að starfið væri ekki nægilega krefjandi og of einhæft. Varðandi málflutningsreynslu kom fram að hann hefði ekki flutt mál sjálfur fyrir dómi heldur verið viðstaddur málflutning en hann hefði aðstoðað við undirbúninginn. Kærandi gat ekki svarað annarri af tveimur spurningum um sakamálaréttarfar og átti erfitt með að svara hinni. Hann hafði ekki kynnt sér starfsemi embættisins fyrir viðtalið en kvaðst hafa áhuga á stefnumótun og framtíðarsýn embættisins. Kærandi kvaðst hafa góða samskiptahæfni og að sér gengi vel að vinna undir stjórn annarra en það gengi þó betur þegar hann fengi að stjórna sjálfur. Hann gæti unnið með öðrum en gengi hraðar ef hann fengi að stjórna. Hann væri sjálfstæður í störfum og ynni best væri honum treyst í stað þess að vera sagt til.
 35. Að mati kærða sýndi sú sem var ráðin meira frumkvæði og sjálfstæði í viðtalinu auk þess sem störf hennar voru talin bera þess vitni. Hvað varðar matsþáttinn skipulagshæfni og vönduð vinnubrögð var byggt á upplýsingum úr umsóknum og viðtölum og komist að þeirri niðurstöðu að þau hefðu bæði til að bera færni á þessu sviði. Að mati kærða stóð sú sem var ráðin kæranda mun framar í matsþættinum mannleg samskipti og hæfni til að starfa í hóp. Var sú niðurstaða byggð á mati á frammistöðu í viðtölum, umsögnum og tölvupóstsamskiptum í aðdraganda ráðningar. Kærði bendir á að honum hafi ekki verið fært að taka tillit til persónuleikaprófs kæranda enda feli það ekki í sér neina staðfestingu á persónulegum eiginleikum hans. Niðurstaða kærða er að kæranda hafi skort hæfni á þessu sviði. Hafi það ekkert með kyn kæranda að gera heldur mat hans á þessum þáttum.
 36. Kærði áréttar að mat á umsækjendum hafi verið tvíþætt. Annars vegar hafi farið fram mat á umsækjendum samkvæmt umsóknargögnum sem var lagt til grundvallar þegar boðað var í viðtöl. Að loknum viðtölum hafi farið fram ítarlegra mat á umsækjendum í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í viðtölum og mat á persónubundnum hæfniþáttum. Lokaniðurstaðan í matsramma hafi verið að meta menntun hennar sem var ráðin og kæranda til jafnmargra stiga. Þá hafi þau fengið jafnmörg stig fyrir aðra reynslu sem nýtist í starfi en auk þess fékk kærandi stig fyrir reynslu af rannsóknum sem lögreglumaður og fyrir reynslu af stjórnsýslustörfum. Önnur reynsla hafi verið metin sjálfstætt til stiga en fyrir lá að sú sem var ráðin hafði meiri reynslu af lögfræðistörfum þar sem hún hafði starfað sem lögfræðingur í tvö og hálft ár en kærandi einungis í um sex mánuði.
 37. Þá bendir kærði á að framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og hæfni til að starfa í hóp hafi verið meðal þeirra hæfniþátta sem tilgreindir voru í auglýsingu. Það er mat kærða að kæranda hafi skort hæfni á þessum lykilsviðum og að skortur á þeirri hæfni verði ekki veginn upp með færni á öðrum sviðum. Telur kærði vandséð hvernig kærunefndin geti komist að niðurstöðu um að ályktun kærða um huglæga hæfniþætti sé ekki byggð á mjög traustum grunni í ljósi fyrirliggjandi gagna.
 38. Að lokum hafnar kærði fullyrðingum kæranda þess efnis að hann sé látinn gjalda þess að hafa í tvígang lagt fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna starfa lögreglustjóra.
 39. Áréttar kærði að ákvörðun um ráðningu í starfið hafi verið byggð á heildstæðu mati á umsækjendum með málefnalegum hætti þar sem sú sem ráðin var hafi verið talin hæfari en kærandi. Hafi kæranda því ekki verið mismunað á grundvelli kyns í skilningi jafnréttislaga.

  NIÐURSTAÐA

 40. Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. núgildandi 19. gr. laga nr. 150/2020, við ráðningu í tímabundið starf saksóknarfulltrúa hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
 41. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
 42. Í 1. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 26. gr. kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framan­greindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
 43. Í matsreglu 5. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
 44. Í auglýsingunni um starfið kom fram að helstu verkefni saksóknarfulltrúa vörðuðu afgreiðslu lögreglumála, aðstoð við ákvörðun um saksókn, umsjón með sektargerðum, samningu ákæra og greinargerða. Í starfinu fælist náið samstarf við lögreglu, skipulag verkefna, aðstoð við rannsóknir á rannsóknarstigi og fyrir dómi, málsmeðferð og flutningur sakamála fyrir dómi, umsagnir um útgáfu leyfa og útgáfa þeirra auk annarra tilfallandi verkefna.
 45. Gerð var krafa um embættis- eða meistarapróf í lögfræði og góða þekkingu á sakamálaréttarfari. Jafnframt var starfsreynsla á sviði sakamála og þekking eða reynsla á sviði stjórnsýslu talin kostur. Að auki var gerð krafa um framúrskarandi samskiptahæfni, mjög góða kunnáttu í íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti og gott vald á ensku. Gerð var krafa til umsækjenda um frumkvæði, sjálfstæði, skipulagshæfni og jákvæðni.
 46. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni embættisins að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar. Í því sambandi bendir kærunefndin á að í auglýsingu var ekki áskilið að umsækjandi hefði starfsreynslu á sviði sakamála eða stjórnsýslu þó að hún hafi verið talin kostur. Er því ekkert sem bendir til þess að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að umsækjendur, sem ekki voru með slíka reynslu, hafi verið taldir uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til starfsins.
 47. Kærði hefur gert grein fyrir því að kærandi og sú sem var ráðin hafi staðið nokkuð jafnt að vígi við mat á menntun og starfsreynslu. Af matsblaði sem liggur fyrir í málinu má ráða að þau hafi fengið jafnmörg stig varðandi menntun og aðra reynslu sem nýtist í starfi en að kærandi hafi staðið aðeins framar varðandi tiltekna reynslu. Að mati kærunefndar verður ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvaða menntun og starfsreynsla félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Í því sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf vegna starfsreynslu og eftir atvikum menntun er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
 48. Þá hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni þessara tveggja umsækjenda hafi verið mat á persónubundnum þáttum þar sem sú sem var ráðin hafi staðið kæranda framar. Af matsblaði sem liggur fyrir í málinu kemur fram að sú sem fékk starfið hafi staðið kæranda framar í þessum matsþáttum. Um hafi verið að ræða hæfni í mannlegum samskiptum, hæfni til að starfa í hóp, jákvæðni, frumkvæði og sjálfstæði. Byggði kærði mat sitt einkum á framkomu og viðmóti umsækjenda í viðtali, faglegri þekkingu og frammistöðu að öðru leyti. Að auki var lagt mat á umsagnir þeirra sem umsækjendur höfðu tilnefnt sem meðmælendur.
 49. Fyrir liggur að við mat á frammistöðu í viðtölum voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækjendur. Þau sjónarmið sem komu fram í viðtölum, og lutu einkum að samskiptahæfni, viðmóti, faglegri þekkingu og viðhorfi til umrædds starfs, fengu þannig vægi í mati kærða. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að frammistaða umsækjenda í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða að ómálefnalegt hafi verið að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram. Nánar tiltekið byggði heildarmat á umsækjendum á menntun, starfsreynslu og öðrum atriðum eins og samskiptahæfni, og þá meðal annars með hliðsjón af því hvað kom fram í umsögnum og hvernig umsækjendur komu út í viðtölum og þar með hæfni þeirra og afstöðu í víðara samhengi sem gat haft þýðingu fyrir störf saksóknarfulltrúa. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem fékk starfið hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ágreiningur um það hvað fór á milli aðila í viðtali telst ekki þess eðlis að hann hafi áhrif á þessa niðurstöðu.
 50. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þessi svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í tímabundið starf saksóknarfulltrúa við embættið hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 10/2008.
 51. Samkvæmt því verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í tímabundið starf saksóknarfulltrúa, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 10/2008.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í tímabundið starf saksóknarfulltrúa við embættið.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira