Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2016 Innviðaráðuneytið

Sveitarstjórnarráðherrar fjölluðu um lýðræðisþróun og samráð við íbúa

Fulltrúar Norðurlandanna sátu fund sveitarstjórnarráðherra í Reykjavík í dag. - mynd
Lýðræðisþróun í sveitarfélögum, samráð við íbúa og hvernig sveitarfélög geta sem best sinnt verkefnum sínum voru meðal helstu umfjöllunarefna á fundi sveitarstjórnarráðherra Norðurlanda í Reykjavík í dag. Fulltrúar ríkjanna röktu til dæmis hvernig háttað er lýðræðisþróun í sveitarfélögum á Norðurlöndum.

Fulltrúar og frá hverju og einu Norðurlandanna gerðu grein fyrir hvernig málum á þessum sviðum væri háttað hjá þeim. Fram kom á fundinum að löndin fara nokkuð ólíkar leiðir þegar viðhafa á samráð við íbúa og t.d. þarf hlutfall milli 20% og 33% íbúa sveitarfélaga á Íslandi til að krefjast íbúakosninga en hlutfallið er lægra á hinum Norðurlöndunum. Þá geta íbúar sveitarfélaga í Svíþjóð sent tillögur til sveitarstjórna til að fá umfjöllun og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum skal viðkomandi sveitarstjórn taka slíkar tillögur til meðferðar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra stýrði fundinum.

Fram kom að með nýjum sveitarstjórnarlögum á Íslandi hafi verið komið til móts við óskir um aukna þátttöku íbúa og aukið samráð milli kjörinna fulltrúa og íbúa sveitarfélaga og er til umræðu að styrkja þennan þátt enn frekar m.a. í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Við umfjöllun um getu sveitarfélaga til að takast á við verkefni sín óháð stærð og staðsetningu lagði Ólöf Nordal áherslu á að mikilvægt væri að virða annars vegar sem mest sjálfsforræði sveitarfélaga og hins vegar sjónarmiðin um aukið samræmi, jafnræði borgaranna og gæði félagsþjónustu. Sjálfsforræði sveitarfélaga á Íslandi væri mikið og ríkisvaldið hefði ekki þvingað sveitarfélög til sameiningar, meirihluti íbúa hefði ákvörðunarvaldið.

Fundinn sátu sveitarstjórnarráðherrar Noregs, Svíþjóðar, Álandseyja og Íslands ásamt sendinefndum og fulltrúar ráðherra frá hinum Norðurlöndunum, alls kringum 30 manns.

Á myndinni að neðan eru frá vinstri: Jan Tore Sanner frá Noregi, Jari Partanen frá Finnlandi, Hans B. Thomsen frá Danmörku, Ardalan Shekarabi frá Svíþjóð, Nina Fellman frá Álandseyjum, og Ólöf Nordal innanríkisráðherra.

Fundinum lauk með heimsókn í Safnahúsið í Reykjavík.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum