Hoppa yfir valmynd
30. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnumál fatlaðra færast til Vinnumálastofnunar

Á vettvangi félags- og tryggingamálaráðuneytisins er nú unnið að því að færa umsjón með vinnumálum  fatlaðra, sem rekin hefur verið af svæðisskrifstofum og öðrum þjónustuaðilum, til Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir því að þessi breyting geti átt sér stað um næstu áramót sagði Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra þegar hún ávarpaði ráðstefnuna „Að vita sjálfur hvar skórinn kreppir“ sem haldin var af félaginu Fræðsla fyrir fatlaða og aðstandendur 27. september síðastliðinn.

Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra einnig um mikilvægi þess að opin umræða færi fram um kosti og galla notendastýrðrar þjónustu og lagði áherslu á að Íslendingar lærðu af reynslu nágrannaþjóðanna þegar næstu skref í þróun þjónustunnar yrðu tekin.

„Ég vil að við skoðum þjónustuna meðal annars út frá því að þjónusta við fatlaða verði flutt frá ríki til sveitarfélaga. Ég tel að þau sveitarfélög sem hafa undanfarið tekið að sér þjónustu við fatlaða hafi sýnt mikið frumkvæði í þróun þjónustunnar og sýnt fram á það hve miklu sveigjanleiki í þjónustu fær áorkað í þágu notenda hennar. Við erum öll ólík með ólíkar þarfir frá einum tíma til annars. Hvorki þjónustan né starfsfólkið sem veitir hana á að byggjast á forsendum kerfis sem ekki má hrófla við. Þjónustan á að snúast um þá sem hennar njóta. Því megum við aldrei gleyma.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra á ráðstefnunni „Að vita sjálfur hvar skórinn kreppir“ 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum