Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðadagur æskunnar í dag

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Helmingur mannkyns er yngri en þrjátíu ára og þetta hlutfall verður komið í 57 prósent árið 2030. Í dag, á alþjóðlegum degi æskunnar, hvetja Sameinuðu þjóðirnar til þátttöku allra þjóðfélagshópa og lýsa áhyggjum sínum yfir því að jafn stór hópur ungs fólks hafi jafn lítil áhrif og raun ber vitni í alþjóða stjórnmálum.

António Guterra aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að ungt fólk taki þátt í ákvörðunum, sérstaklega í loftslagsmálum. Hann bendir á að til þess að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þurfi heimurinn að virkja alla möguleika allra kynslóða. Samstaða kynslóðanna sé lykillinn að sjálfbærri þróun.

Á Íslandi starfar ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Það samanstendur af tólf fulltrúum, frá öllum landshlutum, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið kemur saman sex sinnum á ári og fundar þess á milli í gegnum fjarfundabúnað. Þá fundar ungmennaráðið árlega með ríkisstjórn og á jafnframt áheyrnarfulltrúa í verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmiðin. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um heimsmarkmiðin ásamt því að koma sínum áherslumálum á framfæri og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir jafnframt stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna.

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna, UNRIC, vekur athygli á því í tilefni dagsins að hlutur ungs fólks í stjórnmálum á Norðurlöndum sé tiltölulega góður miðað við veröldina í heild. Þróunin hafi verið í þá átt að meðalaldur hafi fari lækkandi á þjóðþingum, en það gildi reyndar síður um Ísland og Danmörku.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

10. Aukinn jöfnuður
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum