Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2001 Heilbrigðisráðuneytið

27. janúar - 2. febrúar 2001

Fréttapistill vikunnar
27. janúar - 2. febrúar 2001



Sex umsækjendur um framkvæmdastjórastarf á Ísafirði

Sex sóttu um starf framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ. Umsækjendur eru: Gísli Halldór Halldórsson, viðskiptafræðingur, Ísafirði. Ólafur Als, rekstrarfræðingur, Reykjavík. Sigurður J. Hafberg, útgerðatæknir, Flateyri. Tómas Ibsen, forstöðumaður, Ísafirði. Vignir Þór Jónsson, B.Sc., verkefnisstjóri, Súðavík og Þröstur Óskarsson, BSc., fjármálastjóri, Akureyri. Þriggja manna hæfnisnefnd mun meta hæfni umsækjenda, líkt og kveðið er á um í lögum og skila heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra niðurstöðum sínum. Ráðherra skipar síðan í stöðuna til fimm ára, að höfðu samráði við stjórn stofnunarinnar.

Auknar bætur greiddar 676 öryrkjum
Tryggingastofnun ríkisins greiddi 1. febrúar sl. auknar bætur til öryrkja samkvæmt nýjum lögum um breytingar á lögum um almannatryggingar. Samhliða greiðslum fyrir febrúarmánuð voru greiddar leiðréttingar á bótum fyrir janúarmánuð. Nýju lögin höfðu áhrif á bótagreiðslur til 676 einstaklinga, 16 karla og 660 kvenna, en þessi hópur er um 10% öryrkja. Samtals hefði þessi hópur að óbreyttu fengið greiddar 3.804.003 kr. um mánaðamótin, en samkvæmt útreikningum í samræmi við breytt lög námu greiðslurnar 11.906.107 kr. Mismunurinn er 8.102.104 kr. Greiðslur til þeirra sem eiga rétt á leiðréttingum aftur í tímann fyrir árin 1997, 1998, 1999 og 2000 verða greiddar út 1. apríl nk.

Yfirlýsing vegna S - merktra lyfja
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Lyfjastofnun og Tryggingastofnunar ríkisins hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna villandi umræðu í kjölfar breytinga sem gerðar voru á fyrirkomulagi greiðslna fyrir S-merkt lyf. Í yfirlýsingunni er skýrt hvaða áhrif breytingin hefur í för með sér og að hvaða markmiðum er stefnt.
Sjá yfirlýsingu>

Mannariða og aðrir riðusjúkdómar
Á undanförnum árum og áratugum hafa greinst sérkennilegir smitandi hrörnunarsjúkdómar í miðtaugakerfi manna og dýra. Sjúkdómarnir ganga undir nafninu TSE (Transmissible Spongiform Encephalopathy) sem mætti kalla smitandi frauðkennda heilaskemmd eða einfaldlega smitandi riðusjúkdóma. Sóttvarnalæknir, Haraldur Briem, hefur tekið saman yfirlit um orsakir, einkenni og útbreiðslu mannariðu. Samantekt hans er aðgengileg á heimasíðu landlæknisembættisins.
Sjá samantekt>

Rekstur öldrunarstofnana - eyðublað á netinu
Stjórnendur öldrunarstofnana geta nú orðið sér út um eyðublað til útfyllingar vegna rekstrarkostnaðar, á heimasíðu ráðuneytisins. Eins og eyðublaðið ber með sér er ætlast til þess að stofnanir aðgreini umönnunarkostnað (sbr. RAI-mælingar) frá öðrum kostnaði. Vonast er til þess að stofnanir geti nýtt sér þessa nýjung á heimasíðu ráðuneytisins.
Sjá eyðublöð>

Rannsóknarstofur Landspítala - háskólasjúkrahúss verða sameinaðar
Rannsóknarstofnun Landspítalans við Hringbraut, rannsóknarstofa spítalans í Fossvogi, svo og rannsóknastofur í sýkla og veirufræði í Fossvogi verða sameinaðar í eina rannsóknarstofnun, samkvæmt samþykkt framkvæmdastjórnar spítalans þann 29. janúar sl. Stefnt er að því að endurskipulagningin leiði til 12% hagræðingar á árunum 2001 - 2002 borið saman við árið 2000.
Sjá nánar >

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
26. janúar 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum