Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2001 Heilbrigðisráðuneytið

10. - 16. febrúar 2001

Fréttapistill vikunnar
10. - 16. febrúar 2001



Samningur um sjúkraflug fyrir Norður- og Austurland

Samningur um sjúkraflug liggur fyrir milli Flugfélags Íslands annars vegar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins hins vegar. Stefnt er að undirritun hans nk. mánudag. Flugfélag Íslands mun sjá um allt sjúkraflug á Norður- og Austurlandi og verður miðstöð þess á Akureyri. Flugfélag Íslands mun skipuleggja sjúkraflugsvaktir flugmanna allan sólarhringinn. Sjúkraflutningamenn frá Slökkviliðinu á Akureyri hafa undanfarin ár farið í sjúkraflug og hefur sá háttur gefist vel. Einnig hefur Fjórðungssjúkrahúsið skipulagt vaktir lækna sem eiga að fara í sjúkraflug þegar þörf krefur. Þetta mun hafa í förn með sér verulega breytingu fyrir lækna í einmenningshéruðum, sem þurfa ekki lengur að yfirgefa héraðið. Þrjár flugvélar verða notaðar til að sinna sjúkrafluginu ásamt áætlunarflugi; ein Metro 3 SA227 og tvær Twin Otter DHc6 flugvélar. Samkvæmt samningnum greiðir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið kr. 46.760.000 á ári til reksturs sjúkraflugsins. Auk þess greiðir Tryggingastofnun ríkisins kr. 108.000.- fyrir hvert staðalsjúkraflug. Gildistími samningsins er 1. janúar 2001 - 31. desember 2003.

Staða framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands
Laus er til umsóknar staða framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Framkvæmdastjóri er skipaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til fimm ára. Umsækjendur skulu hafa háskólamenntun og reynslu af stjórnun og rekstri. Óskað er eftir að framkvæmdastjóri hefji störf sem fyrst. Launakjör eru samkvæmt ákvörðun kjaranefndar. Nánari upplýsingar um starfið veita Jóhannes Pálmason, formaður stjórnar Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, (s. 560-2961) og Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri (s. 560-9700). Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Laugavegi 116, 150 Reykjavík eigi síðar en 7. mars nk. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun hefur verið tekin.

Lyfjanotkun Íslendinga eykst stöðugt
Lyfjanotkun á Íslandi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin 7 ár, samkvæmt tölum sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur tekið saman. Frá árinu 1993 til ársins 2000 hefur heildarnotkun lyfja aukist um 40%. Hlutfallsleg aukning kostnaðar er hins vegar mun meiri, eða 69% á þessu árabili. Árið 1999 jókst lyfjanotkun um 5,2% frá fyrra ári. Aukningin var heldur minni árið 2000, eða 3,8% frá fyrra ári. Ef skoðaðir eru einstakir lyfjaflokkar hefur notkun tauga- og geðlyfja og notkun hjarta- og æðasjúkdómalyfja aukist hvað mest á því 12 ára tímabili sem samantektin nær til.
Lyfjanotkun-1989-2000 (pdf-skrá) >

Staða deildarstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
Staða deildarstjóra á skrifstofu heilsugæslu- sjúkrahúsa- og öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti er laus til umsóknar. Í starfinu felst almenn stjórnsýsla, eftirlit og umsjón með ýmsum málefnum á starfssviði skrifstofunnar, m.a. er varða tannheilsu. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst. Umsækjandi skal hafa hlotið háskólamenntun, gjarnan á sviði heilbrigðisþjónustu, og æskilegt er að hann hafi jafnframt reynslu af stjórnun eða starfi á vettvangi stjórnsýslu. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins. Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Laugavegi 116, 150 Reykjavík, eigi síðar en 26. febrúar n.k. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Nánari upplýsingar um starfið veita Ragnheiður Haraldsdóttir og Sveinn Magnússon, skrifstofustjórar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, í síma 560 9700.

Áherslur í starfi Landspítalans - Staða verkefna
Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur tekið saman yfirlit yfir stöðu verkefna sem gerð var grein fyrir í fyrri samantekt hans um Áhersluatriði í starfi Landspítala - háskólasjúkrahúss frá 5. sept. 2000. Þar hefur einnig verið bætt við upplýsingum um ný verkefni sem unnið er að innan sjúkrahússins.
Sjá nánar >

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
16. febrúar 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum