Hoppa yfir valmynd
15. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

EFTA/EES-ríkin meta sameiginlega hagsmuni vegna Brexit

Ine Marie Eriksen Søreide og Aurelia Frick brugðu sér í íslenskar landsliðstreyjur að fundi loknum.  - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti fund með þeim Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, og Aureliu Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein í Ósló í morgun. Ákveðið var á fundinum að ríkin þrjú myndu hefja sameiginlega kortlagningu á hagsmunum sínum vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 

„Við höfum lagt á það áherslu að EFTA-ríkin þrjú sem eiga aðild að EES móti sér sjálfstæða stefnu gagnvart Bretlandi og ESB þar sem hagsmunir ríkjanna þriggja væru í fyrirrúmi. Niðurstaða fundarins í dag er stór áfangi í þeirri vinnu,“ sagði Guðlaugur Þór að fundinum loknum. 

Síðdegis opnaði utanríkisráðherra íslenskan markað, fullveldishátíð og fótboltaveislu í miðborg Oslóar sem standa mun alla helgina. Dagskráin, sem ber yfirskriftina ,, Með allt á hreinu á SALT – Íslenskir sumardagar“ er skipulögð af sendiráði Íslands í Osló í samstarfi við Íslandsstofu og Íslendingafélagið í Osló. Hún fer fram á útisvæðinu SALT sem er á hafnarbakkanum gegnt Óperuhúsinu og verður þar efnt til íslensks markaðar sem standa mun alla helgina. 

Frá opnun fullveldishátíðarinnar í Ósló

Yfirskrift dagskrárinnar er sótt í kvikmyndina ,,Með allt á hreinu“sem verður sýnd á risaskjá á svæðinu tvisvar í dag. Fyrir sýningarnar heldur Stuðmaðurinn Valgeir Guðjónsson stutta tónleika og segir frá gerð myndarinnar. 

Íslenskum sumardögum lýkur á sunnudeginum þegar efnt verður til hátíðarhalda í tilefni þjóðhátíðardagsins. Hátíðin er skipulögð af Íslendingafélaginu í Osló og hefst með barnaskrúðgöngu frá Ráðhústorginu á SALT þar sem meðal annars verður flutt ávarp fjallkonunnar og sendiherra Íslands í Osló, Hermann Ingólfsson, ávarpar samkomuna. Að lokinni dagskrá tekur við margskonar skemmtun fyrir börn og fullorðna 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira