Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Andlegt og líkamlegt heilbrigði

,,Andlegt og líkamlegt heilbrigði"
Ráðstefna haldin í tilefni alþjóða geðheilbrigðisdagsins
7. október á Hótel Loftleiðum

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Góðir gestir - ágætu forsvarsmenn þessarar ráðstefnu.

Það er vel við hæfi að efna til þessarar umræðu um geðheilbrigðismál í tengslum við alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin stendur fyrir ár hvert þann 10. október.

Lýsing á stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi í dag, umfjöllun um forvarnir á sviði geðheilsu og kynning á áhugaverðum úrræðum í geðheilbrigðismálum eru umfjöllunarefni dagsins.

Mér finnst ánægjulegt að sjá hvað nálgun umræðunnar hér í dag er jákvæð þegar horft er til þeirra málefna sem verða á dagskrá. Sjálfur er ég mikill talsmaður forvarna á sviði heilbrigðismála almennt og þar eru geðheilbrigðismálin síst undanskilin. Ég tel einnig að á sviði geðheilbrigðismála sé mikil þörf fyrir fjölbreytt verkefni, hvort sem um er að ræða forvarnir, stuðning við sjúka og aðstandendur þeirra, meðferð eða endurhæfingu.

Heilbrigðisráðherrar aðildarríkja Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunarinnar samþykktu sameiginlega yfirlýsingu á ráðstefnu stofnunarinnar um geðheilbrigðismál sem haldin var í Helsinki í janúar síðast liðinn. Þar segir meðal annars að við, þ.e. ráðherrar yfirlýsingarinnar, teljum meginmarkmið geiðheilbrigðismála að ,,stuðla að vellíðan fólks og starfshæfni með því að beina sjónum að styrkleika þess og getu, auka sveigjanleika og leggja áherslu á utanaðkomandi forvarnarþætti". Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að áhersla á geðheilbrigði, forvarnarstarf, meðferð og umönnun og endurhæfingu vegna geðrænna vandamála sé forgangsverkefni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Samhliða yfirlýsingu okkar ráðherranna var á fundinum í Helsinki samþykkt evrópsk aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum með yfirskriftinni ,,Leitað lausna á brýnum verkefnum". Áætlunin byggist á tólf skilgreinum meginmarkmiðum. Sum þeirra eru almenn og snúast um að bæta þekkingu, vinna gegn fordómum og breyta viðhorfum með aukinni fræðslu og upplýsingagjöf til almennings, fagfólks, sjúklinga og aðstandenda þeirra. Önnur eru sértækari, svo sem að:

  • ...efla starfsemi sem tekur mið af viðkvæmum lífsskeiðum...
  • koma í veg fyrir geðraskanir og sjálfsvíg...
  • tryggja góða geðheilbrigðisþjónustu hjá almennri heilsugæslu...
  • koma á þverfaglegu samstarfi...
  • sjá til þess að ekki skorti hæft starfsfólk...
  • leggja fram nægar fjárveitingar...
  • og að meta skilvirkni og koma nýrri þekkingu á framfæri.

Ég hef í starfi mínu sem heilbrigðisráðherra orðið var við ört vaxandi áhuga í samfélaginu á geðheilbrigðismálum. Á þetta jafnt við um almenning, fagfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu að ógleymdum ýmsum grasrótarsamtökum aðstandenda, sjúklinga og annarra sem láta sig þessi mál varða. Í raun má segja að um vakningu hafi verið að ræða og að hún hafi leitt til mun opnari umræðu um geðheilbrigði og geðheilbrigðisþjónustu en áður. Þessi umræða er tímabær og þörf - og af henni má einnig sjá að fordómar eru á hröðu undanhaldi.

Ég neita því ekki að mér hefur á stundum þótt umræðan nokkuð óvægin í garð heilbrigðisyfirvalda. Í versta falli höfum við verið gagnrýnd fyrir úrræðaleysi og stefnuleysi og fyrir að vanrækja málaflokkinn bæði faglega og fjárhagslega. - En járn brýnir járn og maður brýnir mann - og ég vil skoða hörkuna sem stundum hefur einkennt gagnrýnina í ljósi þess.

Mig langar að fara nokkrum orðum um markmið evrópsku aðgerðaáætlunina í geðheilbrigðismálum í ljósi þeirra verkefna sem við höfum unnið að á síðustu misserum.

Við höfum lagt áherslu á að bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og aðstandendur þeirra. Stækkun Barna- og unglingageðdeildar er í undirbúningi. Áhersla hefur verið lögð á að efla og auka hlutverk og þjónustu heilsugæslunnar á þessu sviði, m.a. með áherslu á aðkomu fleiri fagstétta, s.s. sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa. Verkefni við heilsugæsluna í Grafarvogi er byggt á þessari hugsun og fellur að markmiði aðgerðaáætlunarinnar um að koma á þverfaglegu samstarfi sem og því að tryggja góða geðheilbrigðisþjónustu hjá almennri heilsugæslu.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að efla og auka hlutverk og þjónustu heilsugæslunnar, meðal annars á sviði geðheilbrigðismála. Síðsumars staðfesti ég samning til tveggja ára milli Landspítala – háskólasjúkrahúss og heilbrigðisstofnana Ísafjarðarbæjar, Austurlands og Heilsugæsluna í Reykjavík sem miðar að því að efla sérhæfða sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar og fjölga úrræðum fyrir sjúklinga með geðraskanir. Með tilstyrk geðsviðs Landspítalans verður byggð upp aukin þekking innan heilsugæslustöðvanna á geðrænum vandamálum og starfsfólki veitt kennsla í að takast á við þau á viðeigandi hátt. Einnig tekur spítalinn að sér að veita sálfræðiþjónustu með hugrænni atferlismeðferð á heilsugæslustöðvunum.

Skelfilegasta afleiðing alvarlegra geðraskana eru sjálfsvíg og eitt markmiða evrópsku aðgerðaáætlunarinnar er að koma í veg fyrir þau. Undirbúningur verkefnisins Þjóð gegn þunglyndi hófst í ársbyrjun 2002 þegar ráðinn var til landlæknisembættisins verkefnisstjóri sjálfsvígsforvarna og skipað fagráð til að útfæra tillögur og hugmyndir um forvarnir. Ég tel að gildi þessa verkefnis hafi verið mikið og sama máli gegnir um verkefnið Geðrækt sem er fræðslu og forvarnarverkefni um geðheilsu og áhrifaþætti hennar.

Það gefst ekki tími hér til að telja einstök verkefni á sviði geðheilbrigðismála sem ráðist hefur verið í á síðustu misserum. Mestu varðar að það hefur verið lögð áhersla á að bæta þjónustu og fjölga úrræðum. Ríkisstjórnin hefur sýnt þessum málaflokki skilning og stórauknu fé hefur verið veitt til málaflokksins á síðustu fjórum árum.

Verkefni og fjárveitingar að undanförnu endurspegla áherslur mínar í málaflokknum, ekki síst áhersla á aukið þverfaglegt samstarf, eflingu heilsugæslunnar á þessu sviði, aukið samstarf á milli stofnana sem veita þjónustu á þessu sviði og viðleitni til að færa þjónustuna sem mest út fyrir stofnanirnar sjálfar sem næst notendunum og þeirra eðlilega umhverfi. Ég vil einnig eiga gott samstarf við grasrótarsamtök sjúklinga og aðstandenda og nýta drifkraft þeirra og þekkingu til að þróa ný úrræði.

Eins og fram er komið er eitt meginmarkmiða evrópsku aðgerðaáætlunarinnar að efla starfsemi sem tekur mið að viðkvæmum lífsskeiðum. Á síðustu misserum höfum við beint kröftum okkar mjög að málefnum barna og ungmenna með geðraskanir. Margt hefur verið unnið á þeim vettvangi sem til bóta horfir og við munum svo sannarlega halda því starfi áfram.

Í evrópsku aðgerðaáætluninni segir að ungbörn, börn og unglingar, sem og aldraðir séu einkum í áhættuhópi af völdum félagslegra, sálfræðilegra, líffræðilegra og umhverfistengdra þátta. Vegna varnarleysis síns eigi ungt fólk og aldrað að vera í algjörum forgangshópi varðandi framgang í geðheilbrigðismálum, forvarnarstarfi og umönnun geðsjúkra.

Ég tel þarft að sérstaklega sé tekið á málefnum aldraðra í aðgerðaáætluninni og í samræmi við það þurfum við að gefa aðstæðum aldraðra á þessu sviði meiri gaum en við höfum gerð hingað til.

Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka skýrt fram að aldraðir eiga auðvitað sama rétt til geðheilbrigðisþjónustu og aðrir aldurshópar. Oft er hins vegar þörf á annars konar þjónustu og úrræðum þar sem greining og meðferð geðsjúkdóma hjá öldruðum krefst í mörgum tilvikum sérþekkingar.

Við vitum að þunglyndi er nokkuð algengur sjúkdómur meðal aldraðra. Sé það ekki greint og meðhöndlað á réttan hátt skerðir það verulega lífsgæði fólks og neikvæðar afleiðingarnar geta verið margvíslegar, bæði andlegar, líkamlegar og félagslegar. Hér tel ég að heilsugæsla hafi verk að vinna og þarft að efla hana í því skyni.

Við þurfum einnig að meta þörf fyrir sérhæfð úrræði vegna alvarlegra geðsjúkdóma meðal aldraðra. Við þurfum að skoða hvernig við getum byggt þjónustuna á þeim stofnunum og úrræðum sem þegar eru til staðar og jafnframt að hvaða leyti við þurfum að bæta við nýjum úrræðum sem eru sérstaklega ætluð öldruðum. Og við þurfum að vera framsýn og sjá fyrir eins og kostur er hvernig best er að haga uppbyggingu á þessu sviði með hliðsjón af hækkandi meðalaldri þjóðarinnar.

Það er mér ánægja að segja frá því að ég hefi ákveðið að kalla til liðs við mig hóp fagfólks á þessu sviði og fela þeim hópi að gera tillögur til úrbóta. Á alþjóðageðheilbrigðisdaginn 10. október 2005 munu 10 fagaðilar úr hópi félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga, lækna og sálfræðinga, auk fulltrúa aldraðra, fá skipunarbréf frá mér til setu í þessum faghópi. Þessum hópi er ætlað að vinna mjög hratt og skila mér tillögum um áherslur í geðheilbrigðisþjónustu við aldraða innan þriggja mánaða.

Til að fylgja eftir evrópsku aðgerðaáætluninni í geðheilbrigðismálum hef ég átt viðræður við fjölda fagaðila og hagsmunaaðila um hvernig megi fylgja málum eftir og hrinda í framkvæmd stefnumiðum áætlunarinnar. Eins er nauðsynlegt að á grundvelli hennar verði markaðar skýrar áherslur í samræmi við íslenskar aðstæður og stöðu geðheilbrigðismála hér á landi. Til að svo megi verða mun ég áfram leita samstarfs við þá aðila sem best til þekkja og málið brennur heitast á. 

Það er mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að verja einum milljarði króna af söluandvirði Landssíma Íslands til að hefja nú þegar uppbyggingu búsetuúrræða fyrir geðfatlaða. Þetta er verkefni sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið munu standa að sameiginlega.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þau verkefni sem bíða okkar á þessu sviði. Þau eru ærin og tækifærin til góðra verka því óþrjótandi.

 ----------------------

(Talað orð gildir)

 

 

 

 

 

 

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira