Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 271/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 271/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060009

 

Beiðni [...] og barns um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 2. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 17. október 2019 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), og barni hennar [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A) um fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Byggir kærandi á því að hún sé eiginkona [...] (hér eftir M), sem hefur stöðu flóttamanns hér á landi.

Niðurstaða kærunefndar var send með bréfi til lögmanns kæranda þann 3. apríl 2020. Þann 5. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins, ásamt fylgigögnum. Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar og barns hennar byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í beiðni kæranda kemur fram að framlögð læknisgögn ætlaðs eiginmanns hennar, M, séu forsenda fyrir endurupptöku máls sem og myndir sem hafi verið teknar á degi hjónavígslu þeirra, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Um dagsetningar og ártöl varðandi dvöl M í Grikklandi er vísað til greinargerðar sem lögð var fram vegna umsóknar kæranda, dags 25. febrúar 2020. Þar komi fram að frásögn M um komutíma hans til Grikklands og um kæranda og barn hennar hafi ekki tekið breytingum fyrr en í viðtali sem hafi verið tekið af honum vegna umsóknar kæranda og barns hennar um fjölskyldusameiningu. Enn fremur er vísað til framlagðra læknisfræðilegra gagna um M frá tímabilinu 28. janúar 2019 til 2. mars 2020 en gögnin sýni að hann glími við alvarleg geðræn vandamál sem geri það m.a. að verkum að hann geti villst á stað og stund. Gögnin sýni að M hafi notað lyf vegna veikinda sinna og hafi sjálfur ekki munað á hvaða lyfjum hann hafi verið. Í ljósi þess að misræmi í frásögn M hafi að miklu leyti legið til grundvallar úrskurðar kærunefndar verði að telja að framangreindar upplýsingar hafi haft áhrif á lokaniðurstöðuna. Sérstaklega beri að taka tillit til þess að um sé að ræða ákvörðun sem sé verulega íþyngjandi og leiði til varanlegs aðskilnaðar fjölskyldunnar. Í ljósi þess hve mikla þýðingu læknisfræðilegu gögnin hafi, verði að telja að úrskurður kærunefndar hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga liggi ljóst fyrir að ekki hafi verið aflað allra gagna sem gætu hafa varpað ljósi á málið til að hægt hafi verið að taka nægilega ígrundaða ákvörðun í málinu.

Þá hafi kærandi lagt fram myndir og myndband af sér og M í tengslum við áðurnefnda hjónavígsluathöfn. Kærandi hafi aflað gagnanna frá gestum brúðkaupsins enda hafi hús kæranda verið eyðilagt eftir sprengingu hryðjuverkamanna. Allar eigur kæranda hafi eyðilagst, þ.m.t. fjölskyldumyndir. Myndbandið sýni hjónasvítu þeirra sem þau hafi deilt eftir athöfnina og skjáskot úr myndbandinu sýni sömu púða og gardínur og sjáist á bakvið kæranda á mynd af kæranda og M.

Í greinargerð kæranda segir að kærandi hafi gert allt sem í hennar valdi hafi staðið til að upplýsa mál sitt fyrir íslenskum stjórnvöldum. Auk þess hafi íslensk stjórnvöld ekki borið fyrir sig að frumskjölin sem kærandi hafi lagt fram séu fölsuð gögn, þ.m.t. fæðingarvottorð og hjúskaparvottorð. Í því ljósi verði að telja niðurstöðu kærunefndar verulega íþyngjandi fyrir kæranda og fjölskyldu hennar. Beri að líta til þess að í hjúskaparvottorðinu komi fram að kærandi og eiginmaður hennar hafi gift sig árið 2012. Kærandi telji að þegar litið sé til alvarlegrar andlegrar vanheilsu M sé brýnt að fjölskyldusameining nái fram að ganga.

Kærandi telur jafnframt að kærunefnd hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem mál hennar hafi ekki verið afgreitt með sambærilegum hætti og önnur sambærileg mál. Það hjúskaparvottorð sem kærandi hafi lagt fram sé sambærilegt og önnur hjúskaparvottorð í öðrum sambærilegum málum. Stjórnvöld hafi brotið gegn jafnræðisreglunni með því að taka ekki tillit til löggilds hjúskaparvottorðs.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd. Mælt er fyrir um réttaráhrif alþjóðlegrar verndar í 45. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins á maki eða sambúðarmaki einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 2. apríl 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún sé maki M og eigi þar með rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Vísaði nefndin m.a. til framburðar M í viðtölum hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd þar sem hann kvaðst hafa yfirgefið Grikkland um áramótin 2011/2012, en gögn frá grískum yfirvöldum bendi til þess að hann hafi komið til landsins undir lok árs 2010. Hafi því verið verulegt misræmi milli frásagnar M og framlagðra gagna um stofnun hjúskapar þeirra, sem þau kveða að hafi átt sér stað árið 2012. Þá var það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að A sé barn M og að A eigi þar með rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli síðastnefnds ákvæðis. Í því sambandi horfði kærunefnd til þess að M kvaðst hafa verið í Grikklandi á þeim tíma sem getnaður hafi átt sér stað, auk misræmis í framburði hans um aldur og nafn A.

Kærandi byggir endurupptökubeiðni sína einkum á því að ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kærandi lagði fram læknisfræðileg gögn varðandi M og ljósmyndir og myndband frá ætlaðri hjónavígslu kæranda og M.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á þeim úrskurði ásamt þeim gögnum sem bárust kærunefnd með beiðninni. Að mati kærunefndar bera framlögð gögn með sér að M glími við andleg vandamál. Hins vegar er ekki talið að gögnin gefi tilefni til að hnekkja mati kærunefndar er fram kom í úrskurði, dags. 2. apríl 2020, varðandi upplýsingar um dagsetningar frá grískum yfirvöldum um að kærandi hafi verið þar í landi í lok árs 2010. Kom einnig fram af hálfu M, í viðtölum hjá Útlendingastofnun á árunum 2016 og 2017, vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd hér á landi, að hann hefði yfirgefið heimaríki í lok árs 2011. Þá hvílir á kæranda að sýna fram á, með gögnum þess efnis, að hún sé í hjúskap með M til að hún geti átt rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Eins og áður hefur komið fram hefur kærandi nú lagt fram myndir og myndband því til stuðnings. Að mati kærunefndar breyta framlögð gögn kæranda ekki fyrra mati kærunefndar um að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún og M séu hjón og að A sé barn M.

Kærunefnd fellst því ekki á það með kæranda að úrskurður nefndarinnar frá 2. apríl 2020 hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá hefur kærunefnd yfirfarið þau læknisfræðilegu gögn sem lögð hafa verið fram um andlega heilsu M. Er það mat kærunefndar að framlögð gögn séu aðeins ítarlegri upplýsingar um heilsu M en lágu fyrir í fyrri úrskurðum kærunefndar er varða M, [...] og [...] en þau feli ekki í sér nýjar upplýsingar sem hafi ekki legið fyrir í málinu áður, í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Verður því ekki fallist á að aðstæður kæranda hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga frá því að nefndin úrskurðaði í máli hennar.

Eru því skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar hjá kærunefnd því hafnað.  

 

Úrskurðarorð

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er hafnað.

The appellant´s request for re-examination is denied.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                         Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum