Hoppa yfir valmynd
16. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Neyðarsöfnun UNICEF: Samstaða og meðbyr í samfélaginu

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Yfir 12 milljónir hafa safnast í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Jemen. Þar af söfnuðust um fimm milljónir í vel heppnuðu skákmaraþoni Hrafns Jökulssonar og Hróksins sem fór fram í Pakkhúsinu um síðustu helgi.

UNICEF á Íslandi hóf neyðarsöfnun fyrir Jemen undir yfirskriftinni „Má ég segja þér soldið?“ síðasta miðvikudag. Um 200 manns mættu þá í Hafnarhúsið til að heyra sögur jemenskra barna í áhrifamiklu myndbandi sem sjá má hér.

Greinilegt er að almenningi er umhugað um að hjálpa börnum í Jemen, en hátt í 2000 manns hafa stutt neyðarsöfnunina. Söfnunin er í fullum gangi og hægt er að leggja henni lið hér.

„Það er ómetanlegt að finna þessa samstöðu og þennan meðbyr í samfélaginu. Við viljum koma fram miklum þökkum til þeirra sem hafa stutt söfnunina með framlögum, með því að mæta á viðburðinn okkar, tefla við Hrafn og styðja málstaðinn með einum eða öðrum hætti,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Börn eru búin að þjást í Jemen allt of lengi, þau hafa misst heimili sín og fjölskyldur og eru beinlínis að deyja úr hungri. Þau hafa deilt sögum sínum með okkur og það er skylda okkar að hlusta og hjálpa þeim.“

Líf barna eru í húfi

Jemen hefur verið lýst sem einu versta landi í heimi til að vera barn. Neyðin er gífurleg og eftir margra ára átök þarfnast næstum hvert einasta barn í Jemen neyðaraðstoðar.  Bara á þessu ári hafa 220 börn látist í átökum og yfir 330 börn slasast alvarlega. Milljónir barna svelta, hafa ekki aðgengi að hreinu drykkjarvatni og látast úr sjúkdómum á borð við kóleru og niðurgangspestir. Börn eiga aldrei sök í stíði en engu að síður eru það þau sem bera mestan skaða af átökunum.

„Þó að ástandið virðist yfirþyrmandi megum við ekki gefast upp á meðan líf barna eru í húfi,“ segir Bergsteinn. „UNICEF er á staðnum og hefur náð að veita milljónum barna hjálp síðan átökin brutust út við mjög erfiðar aðstæður. Nú biðlum við til almennings og fyrirtækja á Íslandi að hjálpa okkur að bregðast við neyð barna í Jemen, líf fjölmargra þeirra hanga á bláþræði.“

Framlögin munu veita börnum í Jemen lífsnauðsynlega hjálp, m.a að meðhöndla börn gegn vannæringu, tryggja vatns- og hreinlætisaðstöðu til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma, bólusetja börn gegn mænusótt, dreifa skólagögnum og setja upp barnvæn svæði þar sem kennsla getur farið fram og hægt er að veita börnum sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum sínum. 

Á síðasta ári hafa UNICEF og samstarfsaðilar meðal annars náð að:

  • Bólusetja 4.8 milljón börn gegn mænusótt;
  • Meðhöndla 82.000 börn við alvarlegri bráðavannæringu;
  • Tryggja milljónum manna aðgengi að hreinu drykkjarvatni;
  • Veita hundruð þúsunda barna sálræna aðstoð;
  • Komið upp barnvænum svæðum þar sem bráðabirgðaskólar hafa verið settir upp.

UNICEF kallar auk þess á alla aðila að átökunum sem og alþjóðasamfélagið að vinna tafarlaust að friðsamlegri lausn og binda enda á ofbeldið gegn börnum í Jemen.

Hægt er að styðja söfnunina hér eða með því að senda SMS-ið JEMEN í númerið 1900 og gefa þannig 1900 krónur til neyðaraðgerða UNICEF í Jemen. 

Fyrir 1900 krónur er sem dæmi hægt að veita barni rúmlega tveggja vikna meðferð við vannæringu. Með réttri meðhöndlun í tæka tíð má koma í veg fyrir 99% dauðsfalla hjá vannærðum börnum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira