Hoppa yfir valmynd
18. maí 2007 Utanríkisráðuneytið

Ráðstefna um fjárfestingartækifæri í þróunarlöndum

Fjárfestingartækifæri í þróunarlöndum er yfirskrift ráðstefnu sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands efnir til fimmtudaginn 24. maí í samstarfi við Utanríkisráðuneytið, Útflutningsráð og Fiskifélag Íslands. Auk íslenskra fyrirlesara halda m.a. erindi á ráðstefnunni Kieran Kelleher frá Alþjóðabankanum og Bernadette Artivor frá Fjárfestingastofu Namibíu.

Á ráðstefnunni verður leitast við að leiða saman þá sem reynsluna hafa af starfi í þróunarlöndum og þá sem leita tækifæranna, ásamt fulltrúum fjármálastofnanna íslenskra og erlendra, sem hafa sérþekkingu á fjárveitingum til samstarfsverkefna í þróunarlöndum.

"Útrás íslenskra fyrirtækja hefur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti náð til þróunarlanda", segir í formála bæklings sem gefinn er út í tengslum við ráðstefnuna. Þar segir ennfremur að reynsla og þekking sem byggst hafi upp í tengslum við þróunarsamvinnu hafi hins vegar opnað augu marga fyrir ýmsum viðskipta- og fjárfestingatækifærum sem rétt sé að kynna fyrir fólki úr íslensku viðskiptalífi.

Ráðstefnan er ætluð öllum sem áhuga hafa á þróunarsamvinnu, samstarfi hins opinberra og einkageirans og að sjálfsögðu þeim einstaklingum og fulltrúum fyrirtækja sem velta fyrir sér fjárfestingatækifærum í þróunarlöndum.

Ráðstefnan Fjárfestingatækifæri í þróunarlöndum er haldin á Radisson SAS Hótel Sögu n.k. fimmtudag 24. maí. Ráðstefnugjald er 5.000 krónur og innifalið í þeirri upphæð eru ráðstefnugögn, hádegisverður og kaffiveitingar. Skráning fer fram hjá Fiskifélagi Íslands í síma 551 0500 eða í netfang [email protected]. Skráningafrestur er til 22. maí.

Fjárfestingartækifæri í þróunarlöndum



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum