Hoppa yfir valmynd
4. september 1998 Dómsmálaráðuneytið

Biskup Íslands, kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra undirrita samning um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju

Föstudaginn 4. september 1998 var undirritaður samningur á milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Samningurinn ásamt fylgiskjölum er birtur á heimasíðu ráðuneytisins

Samningur ríkisins og þjóðkirkjunnar um fjárframlög

Biskup Íslands, kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra undirrita í dag samning um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Þjóðkirkjan mun samkvæmt samningnum bera fulla ábyrgð á fjármálum sínum og fara með fjárhagslegt forræði á málefnum kirkjunnar. Ríkið greiðir samkvæmt samningnum fast árlegt framlag sem breytist til samræmis við verðlag samkvæmt skilgreindum viðmiðunum. Samningurinn felur í sér að framlag ríkisins er óháð því hvort öll prestsembætti eru setin eða ekki, þjóðkirkjan getur fjölgað eða fækkað starfsmönnum eða ráðist í ný verkefni með því að færa til fé frá einum kostnaðarlið til annars svo nokkur dæmi séu nefnd. Auki kirkjan útgjöld umfram árlegt framlag ríkisins þá verður því mætt af öðrum tekjustofnum kirkjunnar eða með breytingum á starfsemi hennar.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld og þjóðkirkjan unnið sameiginlega að því að skera úr um eignarhald kirkjujarða og ýmissa annarra kirkjulegra eigna svo og að leysa eldri ágreining um fjárhagsleg málefni. Jafnframt hefur verið unnið að því að auka sjálfstæði kirkjunnar með því að draga úr áhrifum ríkisvaldsins á starfshætti og rekstur hennar.
Samkomulag um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna kirkjunnar var gert í janúar 1997. Það felur í sér að kirkjujarðir, að frátöldum prestssetrum, eru viðurkenndar sem eign íslenska ríkisins. Á móti skuldbindur ríkið sig til að greiða laun ákveðins fjölda presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.
Þá voru samþykkt lög vorið 1997 um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar þar sem efni fyrrgreinds samkomlags var staðfest. Lögin kveða ennfremur á um ýmis önnur atriði er lúta að starfsemi kirkjunnar. Kirkjan ákveður t.d. sjálf skipan prestakalla í landinu en hún var áður ákveðin með lögum.
Þess er vænst að með því samkomulagi sem undirritað er í dag sé tryggt að þjóðkirkjan geti í framtíðinni sinnt sínu mikilvæga hlutverki á öruggum fjárhagslegum grunni.

Reykjavík, 4. september 1998.


Hér má sjá samning íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar, ásamt fylgiskjölum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum