Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Íslendingar veita 18 milljónir til griðastaða UN Women í Zaatar

„Ánægjulegt er að segja frá því að við vorum að afhenda griðastöðum UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu rúmar 18 milljónir króna, sem söfnuðust í neyðarsöfnun og jólagjafasölu landsnefndarinnar,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Með söfnunarfénu sem Íslendingar létu af hendi í átaki landsnefndarinnar verður þrjátíu konum í búðunum veitt atvinna og laun í heilt ár auk þess sem rúmlega 1250 nýbökuðum mæðrum í Zaatari verður afhentur Mömmupakki UN Women sem inniheldur ungbarnaföt, burðarrúm og ullarsjal fyrir mömmuna. Þess má geta að á bilinu 60-80 börn fæðast á viku í Zaatari búðunum.

Síðastliðið haust heimsótti UN Women á Íslandi ásamt Elizu Reid forsetafrú Íslands, Evu Maríu Jónsdóttur verndara UN Women á Íslandi og tökuteymi, griðastaði UN Women í Zaatari búðunum. Þar eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín. Vegna þeirra mörg hundruð kvenna sem eru á biðlista eftir menntun og atvinnu á griðastöðum UN Women efndi UN Women á Íslandi til neyðarsöfnunar. Zaatari búðirnar eru staðsettar í eyðimörk í Jórdaníu, aðeins nokkrum kílómetrum frá landamærum Sýrlands. Þar halda til um 82 þúsund Sýrlendingar sem flúið hafa heimahagana og eru atvinnutækifæri fyrir konur í búðunum af skornum skammti.

„Það var magnað að sjá með eigin augum hvernig griðastaðirnir hafa breytt lífi kvenna í Zaatari sem búa við stöðugan ótta við ofbeldi, fá atvinnu- og menntunartækifæri. Allar þær konur sem við hittum og ræddum við líta á griðastaði UN Women sem sitt annað heimili, þar eru þær öruggar, fá tækifæri til að brjótast út úr einangrun og þunglyndi með því að mennta sig og starfa,“ segir Stella.

UN Women á Íslandi færir landsmönnum þakkir fyrir ómetanlegan stuðning. Auk þess fær fyrirtækið Alvogen kærar þakkir fyrir að standa straum af kostnaði við átakið. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum