Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Tillögur ríkissaksóknara um sektir við umferðarlagabrotum - drög að reglugerð til umsagnar

Að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hefur ríkissaksóknari gert tillögu að breyttri reglugerð um sektir við umferðarlagabrotum. Lagt er til að fjárhæðir sekta verði uppfærðar með hliðsjón af þróun verðlags en núgildandi reglugerð var sett árið 2006. 

Í 100. gr. umferðarlaga nr. 50 /1987 segir: „Sektir allt að 300.000 kr. fyrir brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skulu ákveðnar í reglugerð  sem ráðherra setur að fengnum tillögum ríkissaksóknara. Í reglugerðinni skal tilgreint hvaða tegunda brota hún tekur til og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar ef veigamikil rök mæla með því.“

Í samræmi við ofangreint ákvæði í umferðarlögum óskaði þáverandi innanríkisráðuneyti, með bréfi dags. 7. september 2016, eftir tillögum ríkissaksóknara um sektarákvæði gildandi reglugerðar.  Í beiðni ráðuneytisins var sérstaklega vakin athygli á sektum við brotum gegn 47. gr. a um notkun farsíma við akstur sem nema kr. 5.000 ef ekki er notaður handfrjáls búnaður.  Að mati ráðuneytisins hefur notkun farsíma við akstur aukist til muna sem dregur úr umferðaröryggi, og þar af leiðandi nauðsynlegt að bregðast við þeirri þróun með hækkun sekta við brotum af því tagi.

Í bréfi sem fylgdi tillögu ríkissaksóknara að breyttri reglugerð segir að almennt geri hann tillögu um að fjárhæðir sekta verði uppfærðar með hliðsjón af þróun verðlags en núgildandi reglugerð var sett árið 2006. Þó leggur ríkissaksóknari til að lægstu sektir verði 20.000 kr. að undanskildum viðurlögum við að hafa ekki ökuskírteini meðferðis en sekt vegna þess verði 10.000 kr.  Loks gerir hann tillögu um að sektir fyrir notkun farsíma verði hækkaðar úr 5.000 kr. í 40.000 kr. og að samanlagðar sektir fyrir mörg brot verði hæst 500.000 kr. Slíkt kallar á breytingar á umferðarlögum en ákvæði þeirra miðar hámarkið við 300.000 kr.

Ráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögur ríkissaksóknara á netfangið [email protected]. Umsagnarfrestur er til og með 10. ágúst nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira