Hoppa yfir valmynd
12. september 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Eflum íslenskt mál til framtíðar: straumhvörf fyrir rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi

Um 400 milljónum króna verður varið til þess að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag aðgerðir sem að því snúa en þar á meðal eru endurgreiðslur hluta ritstjórnarkostnaðar rit- og ljósvakamiðla, stuðningur við textun og talsetningu efnis í myndmiðlum og samræming virðisaukaskatts vegna sölu rafrænna áskrifta. Samhliða verður Ríkisútvarpinu gert að starfa innan þrengri ramma á auglýsingamarkaði og þannig skapað aukið rými fyrir einkarekna miðla til að afla sér tekna.

Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld grípa til beinna aðgerða til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla en á Norðurlöndunum hafa verið veittir ríkisstyrkir til einkamiðla, einkum dagblaða, um áratuga skeið.

Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélagi við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Þeirra menningarlega hlutverk er brýnt, þeir spegla sögu okkar og sjálfsmynd og viðhalda íslenskri tungu. Íslenskt efni í fjölmiðlum, hvort heldur frumgert, þýtt, textað, táknmálstúlkað eða talsett, skiptir lykilmáli fyrir íslenska tungu og þróun hennar.

Aðgerðir sem gripið verður til eru þessar:

Ritstjórnarkostnaður rit- og ljósvakamiðla verður endurgreiddur að hluta.
Skilyrði fyrir endurgreiðslu úr ritstjórnarsjóði verða skýr og einföld og bundin við ákveðið hámark. Styrkveitingar verða fyrirsjáanlegar, óháðar tæknilegri útfærslu og mynda ekki hvata til þess að fara fram hjá kerfinu né skekkja samkeppnisstöðu fjölmiðla. Áætlaður kostnaður vegna þessa er um 350 milljónir á ári og ráðgert að fyrsta endurgreiðslan komi til framkvæmda vegna rekstrarársins 2019.

Umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði minnkuð um 560 milljónir.
Til skoðunar er að banna kostun dagskrárliða og lækka hámarksfjölda auglýsingamínútna úr 8 í 6 á klukkustund.

Samræming virðisaukaskatts rafrænna áskrifta.
Frumvarp þess efnis hefur verið í samráðsferli og er fyrirhugað að leggja það fram á vorþingi. Þar er lögð til samræming skattlagningar virðisaukaskatts vegna sölu og áskrifta dagblaða, tímarita og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort heldur sem útgáfuform miðlanna sé á prentuðu eða rafrænu formi. Rafrænar áskriftir hafa borið 24% virðisaukaskatt en lækka niður í 11%. Áætlaður kostnaður vegna þessa er allt að 40 milljónir kr. á ári.
Árétting: Lög þessi hafa þegar tekið gildi, frá og með 1. júlí sl. 

Samræma gjaldtöku við kaup á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum.
Til skoðunar er að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar. Horft er til nágrannalanda og Evrópuríkja sem einnig hafa sambærileg mál til skoðunar.

Opinber stuðningur við textun, talsetningu og táknmálstúlkun í myndmiðlum verður aukinn.
Einkareknir fjölmiðlar munu geta sótt um endurgreiðslur til að mæta kostnaði vegna lögbundinnar textunar og talsetningar yfir á íslensku. Sérstök áhersla verður á efni sem ætlað er börnum og ungmennum og stuðningur við hvern fjölmiðil bundinn við ákveðið hámark. Áætlaður kostnaður er um 50 milljónir króna á ári.

Gagnsæi í opinberum auglýsingakaupum verður aukið.
Hið opinbera kaupir fjölda auglýsinga í fjölmiðlum og mikilvægt er að gagnsæi sé til staðar í kaupum opinberra aðila á auglýsingum. Það er hægt að gera t.d. með notkun vefsins opnirreikningar.is eða með skilum á árlegri skýrslu.

„Ég er vongóð um að þessar aðgerðir muni valda straumhvörfum á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er erfitt og staða þeirra er viðkvæm. Þeir gegna hins vegar mikilvægu lýðræðis- og menningarlegu hlutverki og það er eðlilegt að stjórnvöld taki mið af því. Það er brýnt að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum, sem miðla fréttum og samfélagslegu efni, og gera almenningi kleift að taka virkan þátt í okkar lýðræðissamfélagi. Við bætist sú staðreynd að fjölmiðlar skipta sköpum fyrir vöxt og viðgang tungumálsins okkar, sem þarf að styðja með ráðum og dáð. Það er tímabært að stíga þessi sögulegu skref og hrinda í framkvæmd loforði sem tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég trúi því að aðgerðirnar muni hafa tilætluð áhrif,” sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum