Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Fólksfjölgun í heiminum stöðvast árið 2080

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Jarðarbúar verða flestir árið 2080 eða 10,4 milljarðar manna. Samkvæmt nýjustu mannfjöldaspám Sameinuðu þjóðanna er áætlað að helmingur fólksfjölgunar verði í níu löndum: Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Egyptalandi, Eþíópíu, Indlandi, Nígeríu, Pakistan, Filippseyjum, Tansaníu og Bandaríkjunum.

Eins og sagt var frá í fréttum í gær, í tilefni af þeim tímamótum að við jarðarbúar vorum orðnir átta milljarðar talsins, eru auknar lífslíkur ein ástæða mannfjölgunar. Aldraðir – eldri en 65 ára – eru nú um tíu prósent mannkyns en verða sextán prósent árið 2050. Lífslíkur hafa aukist mismikið milli heimshluta, mest í Suður-Kóreru þar sem lífslíkur hafa aukist um þrjátíu ár á fimmtíu ára tímabili. Í Afríku hefur ævilengd aukist um tíu ár frá aldamótum.

Árið 1950 fæddi hver kona að jafnaði fimm börn. Á síðasta ári fæddu konur í heiminum að jafnaði 2,3 börn. Áfram er reiknað með fækkun fæðinga og því spáð að talan verði komin niður í 2,1 fæðingu að jafnaði um miðja öldina. Fæðingartíðni í Evrópu er komin niður í 1,6 fæðingar á hverja konu. Í álfunni eru einungis 25 prósent íbúa yngri en 25 ára en hlutfallið er 60 prósent í Afríkuríkjum. Þar er fæðingartíðnin um 4,7 börn.

Í mörg ár hafa lífslíkur í heiminum aukist en á síðustu árum hefur orðið breyting á. Milli áranna 2019 og 2021 lækkuðu þær úr 72,8 árum í 71 ár. Helsta ástæðan er sögð vera heimsfaraldur kórónuveirunnar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum